Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Mannlíf

Fannar kveður Grindavík
Fannar hefur ekki drukkið kaffi í 30 ár!
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 13. september 2025 kl. 06:05

Fannar kveður Grindavík

Fannar Jónasson stígur upp úr bæjarstjórastóli Grindavíkur eftir þetta kjörtímabil

„Ég verð 68 ára þegar gengið verður til næstu sveitarstjórnakosninga og þá verður góður tímapunktur að stíga upp úr bæjarstjórastólnum,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur en hann er fyrsti bæjarstjórinn í 50 ár sem þurfti að stýra bæjarfélagi sem lenti í náttúruhamförum af völdum eldgosa. Við eldgosið í Vestmannaeyjum í janúar 1973 yfirgaf Eyjafólk eyjuna fögru grænu og þótt sambærilegir hlutir hafi átt sér stað í Grindavík, er samt kannski meira verið að líkja saman epli og appelsínu því Eyjamenn gátu snúið til baka hálfu ári síðar því þeirra náttúruhamförum lauk í júlí sama ár. Grindvíkingar eru enn að bíta úr nálinni vegna sinna hamfara, síðasta eldgos kom upp í júlí og nú gera sérfræðingar ráð fyrir næsta eldgosi um mánaðarmót september/október.

Fannar vakti verðskuldaða athygli fyrir yfirvegun sína á þessum miklu óvissu- og erfiðleikatímum Grindvíkinga en bæjarskrifstofur Grindvíkinga færðust í ráðhús Reykjavíkur strax eftir hamfarirnar 10. nóvember 2023 og þaðan var ferðinni heitið í tollhúsið í Tryggvagötu en síðan í október á seinasta ári hefur full starfsemi verið á bæjarskrifstofunni í Grindavík. Fannar hefur búið í Reykjavík eftir að náttúruhamfarirnar hófust en á næsta ári verður haldið að kjörkössunum og kosið í sveitarstjórnarkosningum og mun Fannar setja punkt aftan við þennan kafla á ferlinum. Hann ætlar að njóta heldri áranna eins vel og hugsast getur, mun væntanlega dusta rykið af reiðhnakknum og ætlar sér að skoða heiminn.

Fannar ásamt eiginkonu, börnum, tengdabörnum og barnabörnum.

Fannar sem fæddist í Reykjavík en fluttist þriggja ára gamall til Hellu ásamt foreldrum sínum, ólst þar upp ásamt systur sinni og bjó til aldamóta. Þegar fyrir lá að eldri börnin færu í framhaldsnám í höfuðborginni, sáu Fannar og eiginkona hans, Hrafnhildur Rósa Kristjánsdóttir, sæng sína upp reidda fyrir austan og fluttu á höfuðborgarsvæðið, nánar tiltekið í Kópavog. Fannar hafði verið með eigin rekstur á Hellu, vann sjálfstætt um tíma í Reykjavík en var svo ráðinn til Kaupþings og náði að upplifa afar ólíka tíma á þeim vettvangi því hann byrjaði fimm árum fyrir bankahrun og var í önnur fimm eftir það. Við komum að því síðar í viðtalinu en hvernig kom til að hann réðist í starf bæjarstjóra Grindavíkur?

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Hrafnhildur mín sá starf bæjarstjóra Grindavíkur auglýst og við ákváðum að ég myndi sækja um. Ég mætti í atvinnuviðtal á þorláksmessu árið 2016, fékk tilkynningu milli jóla og nýárs þess efnis að ég hefði hreppt hnossið og hóf störf í ársbyrjun 2017. Ég sagði í atvinnuviðtalinu að við hygðumst setjast að í Grindavík, það var ekki beinlínis skilyrði af hálfu bæjarstjórnar en það var ásetningur af minni hálfu, það kom ekkert annað til greina hjá okkur hjónunum en flytja í bæinn þó svo að ráðningin næði aðeins til eins og hálfs árs, það er út kjörtímabiliið sem lauk í maí 2018. Að einhverju leyti þóttist ég vita út í hvað ég væri að fara því ég hafði verið viðloðandi sveitarstjórnarmál á Hellu í nærri tuttugu ár. Það breytti því ekki að það tók drjúgan tíma að koma sér inn í málin en ég myndi segja að ég hafi verið orðinn nokkuð sjálfbjarga um flesta hluti eftir eitt ár eða þegar styttist í sveitarstjórnarkosningar 2018. Starf bæjarstjóra var auglýst það ár og ég sótti um og var endurráðinn, en eftir kosningar fjórum árum síðar ákvað bæjarstjórnin að ráða mig áfram án auglýsingar.“

Fannar og Hrafnhildur ásamt börnum sínum frá vinstri: Birkir Snær, Kara Borg og Rakel Hrund.
Hamfarabæjarstjórinn

Fannar nefnir engin bæjarmál umfram önnur í Grindavík sem voru markverðust að hans áliti fram að jarðhræringum. 

„Eftir að ég var kominn vel inn í starfið get ég ekki nefnt eitthvað sérstakt sem stendur upp úr fram í ársbyrjun 2020 þegar jarðskjálftarnir hefjast. Grindavík var mjög stöndugt bæjarfélag með sterka fjárhagsstöðu, öflugt atvinnulíf, hátt atvinnustig, blómlegt íþróttalíf og á flestum sviðum gengu málin vel. Ytri aðstæður áttu eftir að breytast rækilega vegna jarðhræringa og náttúruhamfara. Vendipunktur verður undir lok janúar 2020, þá var ég kallaður á skyndifund í Samhæfingarstöð almannavarna í Reykjavík vegna landriss sem mælst hafði við Þorbjörn. Vísindamenn gátu ekki útilokað að þessi atburðarás gæti endað með eldgosi. Í kjölfarið var haldinn fjölmennur íbúafundur í íþróttahúsinu í Grindavík þar sem farið yfir stöðuna en ég held að engan hafi órað fyrir hvað væri í uppsiglingu. Öflugir og tíðir jarðskjálftar gerðu íbúunum lífið leitt og því var í rauninni mikill léttir þegar þeim lauk við fyrsta eldgosið í Fagradalsfjalli í mars 2021. Upptök eldgossins voru fjarri Grindavík og íbúarnir voru sáttir við þennan gang mála. Svo lauk því og sama hringrás endurtók sig, jarðskjálftahrinur hófust að nýju og þeim lauk við næsta eldgos 2022, svo aftur sumarið 2023. Enginn gat séð fyrir hvað tæki við eða var búinn undir þá atburðarás sem í vændum var, en síðan þá hefur gosið níu sinnum í nágrenni bæjarins“ segir Fannar.

Fannar í samhæfingastöð Almannavarna.

Dagurinn örlagaríki 10. nóvember 2023 byrjaði eðlilega hjá Fannari og Hrafnhildi þó að mikil jarðskjálftahrina væri í gangi. Þau höfðu skipulagt heimsókn til frænku Fannars á Flúðum og fóru frá Grindavík um hádegisbil. Þegar leið á daginn stoppaði síminn ekki hjá Fannari og ljóst var að eitthvað alveg sérstakt var á seyði í Grindavík. Því ákváðu hjónin að snúa til baka til Grindavíkur og mættu á leiðinni fjölmörgum bílum á leið í austurátt á Suðurstrandarveginum. Íbúarnir voru á leið úr bænum þennan föstudag, höfðu fengið nóg. Fannar fór í björgunarsveitarhúsið til liðs við viðbragðsaðila og lék þar allt á reiðiskjálfi og um kvöldið var fyrirskipuð allsherjar rýming í Grindavík. Eftir rýmingu Grindavíkur gistu þau hjónin nokkrar nætur hjá yngri dóttur sinni og fjölskyldu hennar í Kópavogi en hjartahlýr hóteleigandi í Reykjavík hafði samband og bauð þeim hjónum gistingu uns þau tóku íbúð á leigu í Reykjavík. Þau þurftu eins og aðrir Grindavíkingar að yfirgefa heimili sitt í flýti og höfðu því engan aukafatnað eða aðrar nauðsynjar meðferðis og það liðu margir dagar þar til heimilt var að fara heim til Grindavíkur og grípa með sér það allra nauðsynlegasta.  

Fannar vakti mikla athygli fyrir yfirvegun sína en er hógværðin uppmáluð þegar þessir tímar eru rifjaðir upp. 

„Mín staða og okkar hjóna var mun betri en margra Grindvíkinga. Við héldum bæði atvinnu okkar og komumst strax í öruggt skjól, vorum ekki með ung börn o.s.frv. svo ég líki ekki okkar aðstæðum við það sem margir aðrir bjuggu við. Það var einfaldlega ekkert annað í boði en að takast á við stöðuna eins og hún var orðin, en það hefði verið óhugsandi án hins öfluga stuðnings ríkisins, sveitarfélaganna í landinu og ekki síst Reykjavíkurborgar. Strax á laugardeginum var Dagur B Eggertsson, þáverandi borgarstjóri, búinn að opna faðm Reykjavíkurborgar og dyr ráðhússins og þangað vorum við komin inn í fullbúið skrifstofurými fyrir alla stjórnsýslu Grindavíkurbæjar á öðrum virkum degi eftir rýmingu. Við Grindvíkingar vorum gripin í þetta mikla öryggisnet og fyrir það verð ég ævinlega þakklátur.“

Fannar ásamt frú Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands. Eiginmaður Höllu, Grindvíkingurinn Björn Skúlason sposkur fyrir aftan.
Ráðhús - Tollhúsið - Grindavík

Fljótlega var þjónustumiðstöð opnuð í Tollhúsinu við Tryggvagötu sem er í göngufæri frá ráðhúsi Reykjavíkur. Það var mikið lán að þetta rúmgóða húsnæði stæði til boða en þarna voru undir sama þaki allir þeir sem höfðu með málefni Grindavíkur að gera; bæjarstjórnin, bæjarstarfsfólk, Grindavíkurnefndin sem svo var skipuð, almannavarnir, sérfræðingar í áfallahjálp, Rauði krossinn, Tónlistarskóli Grindavíkur og fleiri. Í húsinu var mikil og fjölbreytt starfsemi fyrstu mánuðina og margir Grindvíkingar lögðu leið sína í Tollhúsið til að leita aðstoðar eða hitta mann og annan. Smám saman fækkaði þó fólki í húsinu eftir því sem á leið. 

„Um leið og aðstæður leyfðu var stjórnsýsla bæjarins færð til Grindavíkur. Það kom aldrei annað til greina og hefur starfsfólkið unað hag sínum vel á heimaslóðum síðan þá en flest búum við utan Grindavíkur um þessar mundir. Hrafnhildur hefur alltaf unnið í Reykjavík og ég þarf oft að funda þar svo þetta fyrirkomulag hentar okkur vel eins og sakir standa hvað svo sem framtíðin ber í skauti sér. Það er ekkert mál að keyra í vinnuna til Grindavíkur og hægt að nýta bílferðirnar í símtöl. Það hafa ekki orðið miklar breytingar á störfum okkar á bæjarskrifstofunni fyrir utan það að starfsfólki hefur fækkað. Stjórnsýsla okkar er þó ekki lengur í jafn miklu návígi við Grindavíkurnefndina, ráðuneytin og ýmsar stofnanir hins opinbera eftir flutningana úr Tollhúsinu. Það voru stuttar vegalengdir þaðan og í ráðuneytin í miðborginni og málefni Grindavíkur voru mjög ofarlega í hugum æðstu ráðamanna þjóðarinnar mánuðina eftir rýmingu. Þegar ný ríkisstjórn tók til starfa í desember síðastliðinn tóku nýir ráðherrar við embættum sínum og þurftu eðlilega að setja sig inn í nýtt starf og öll þau viðamiklu verkefni sem biðu þeirra. Það var því kannski eðlilegt að málefni Grindavíkur yrðu ekki efst á verkefnalistunum alla daga. Ég er hins vegar afar þakklátur ráðherrum og alþingismönnum öllum fyrir ómetanlegan stuðning við Grindvíkinga á þessum erfiðu tímum,“ segir Fannar. 

Það hefur verið settur á fót starfshópur forsætisráðuneytis, Grindavíkurbæjar og Grindavíkurnefndar sem fjalla mun um ýmis atriði sem lúta að fjárhagsstöðu Grindavíkurbæjar, sveitarstjórnarkosningum og fjölmörgum málum sem varða endurreisn bæjarfélagsins. 

„Ég bind miklar vonir við að þessi vinna komi að góðu gagni við úrlausn þeirra margvíslegu og flóknu viðfangsefna sem við verður að etja. Óvissan og duttlungar náttúrunnar eru líklega okkar versti óvinur en vandaður undirbúningur og markmiða-setning kemur að góðu gagni. Meðan það skiptist á landris og eldgos þá hefur ríkisvaldið viljað fara hægar í sakirnar með uppbyggingu og búsetu í Grindavík en margir Grindvíkingar. Heimamenn líta gjarnan svo á að það sé hægt að búa við þessar viðvarandi aðstæður rétt eins og gerist á snjóflóðasvæðum, munstrið sé þekkt og rýmingar í upphafi eldgosa hafi gengið mjög vel. Heitasta ósk Grindvíkinga er sú að þessum umbrotum fari að linna og vísindamenn flestir telja það ekki ólíklegt. Það er búið að kortleggja af mikilli nákvæmni allar sprungur í Grindavík, fylla í margar þeirra og girða aðrar af. Víða um land eru hættur og við sem búum hér þurfum að kunna á náttúruna og lifa með henni. Varnargarðarnir breyta líka öllu í mínum huga. Í Grindavík eru mikil verðmæti í innviðum og fasteignum og meðal annars hátt í þúsund íbúðir í eigu ríkisins. Það er hagur ríkisins að koma þessum verðmætum í vinnu sem fyrst.“ 

Fannar ásamt ráðherrum úr ríkisstjórn Íslands, Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, formanni Grindavíkurnefndarinnar og fulltrúum viðbragðsaðila.
Þakklátur fyrir traustið

„Ég verð 68 ára þegar gengið verður til næstu sveitarstjórnakosninga og því er þetta góður tímapunktur að stíga upp úr bæjarstjórastólnum. Hamfarirnar undanfarin ár hafa ekki áhrif á þetta, ég er heilsuhraustur og tel mig hafa ágætis starfsþrek. Það eru miklar áskoranir framundan fyrir nýjan bæjarstjóra og bæjarstjórn við að endurreisa Grindavík. Ég er á mínu þriðja kjörtímabili og vil segja að ég hef átt mjög gott samstarf við alla bæjarfulltrúa, bæði úr meirihluta og minnihluta. Ég er afar þakklátur fyrir það traust sem þetta góða fólk hefur sýnt mér. Ég er líka svo lánsamur að hafa unnið með frábæru starfsfólki Grindavíkurbæjar sem staðið hefur vaktina með mér í gegnum þykkt og þunnt. Grindavík var og er einstakt bæjarfélag, fjárhagurinn var mjög sterkur og mörg öflug fyrirtæki starfrækt innan bæjarmarkanna. Grindavík verður í framtíðinni gríðarlega eftirsóttur ferðamannastaður. Tækifærin í ferðaþjónustu voru svo sannarlega fyrir hendi fyrir hamfarir, hvað þá núna og er ég sannfærður um að þegar uppbygging hefst af krafti, að þá verði Grindavík fljót að ná vopnum sínum og trúi og vona að sem flestir Grindvíkingar snúi heim að nýju,“ segir Fannar.

Ferðalög og hestamennska

Áður en spjallið átti sér stað bauð Fannar upp á kaffi en fékk sér sjálfur vatn. „Ég hætti að drekka kaffi fyrir um 30 árum, ég ákvað að prófa það því ég átti oft erfitt með að sofna á kvöldin en samt alltaf vaknaður fyrir allar aldir. Svefninn er manni svo mikilvægur svo ég ákvað að gefa þessu kaffibindindi séns og var eins og við manninn mælt, ég fór strax að sofa betur og eftir mánuð var þetta bara nákvæmlega ekkert mál. Auðvitað er þetta bara vani og það er hægt að venja sig af kaffidrykkju eins og öðru. Ég veit að margir líta fyrsta kaffisopann hýrum augum á morgnana en fyrir mig var ekkert mál að skipta kaffi út og drekka vatn í staðinn.“

Fjölbreytt störf á ferlinum

Fannar skautaði yfir lífshlaup sitt til þessa. 

„Ég fæddist í Reykjavík og bjó þar fyrstu þrjú árin en á eðlilega engar minningar frá þeim tíma. Foreldrar mínir fluttu á Hellu og þar elst ég upp. Kláraði barna- og unglingaskólann þar og gekkst svo undir landspróf á Hvolsvelli sem var skilyrði á þeim tíma til að komast í menntaskóla. Verzlunarskóli Íslands varð fyrir valinu og má segja að ég hafi verið í tvöföldum skóla þessi fjögur ár því ég bjó í Reykjavík hjá afa mínum heitnum. Hann fræddi mig um æsku sína og ævistarf og þjóðhætti liðanna tíma og það var frábær skóli lífsins samhliða Verzló. Afi var áður bóndi í Landeyjunum en flutti til Reykjavíkur um miðja síðustu öld. Hann var með lítið hesthús þar sem hann bjó á Hjallavegi í Langholtshverfinu í Reykjavík. Í tvo vetur var ég með hest hjá afa og svo riðum við á malbikinu niður í Sundagarða, í Laugardalinn eða hreinlega upp í Mosfellssveit. Það myndu örugglega margir reka upp stór augu í dag ef hesthús væri í miðri íbúðabyggð í Reykjavík og að sjá gamlan mann og ungling í reiðtúr um íbúðagöturnar. Á sumrin vann ég hjá Kaupfélaginu Þór á Hellu, mest í pakkhúsinu en einnig í trésmiðjunni, sláturhúsinu, versluninni og fleiri deildum. 

Eftir stúdentspróf fékk ég vinnu í steypuflokki við Sigölduvirkjun sem er á Þjórsársvæðinu. Þetta var hörku vinna og vel borguð en síðar skráði ég mig í viðskiptafræði í Háskóla Íslands og lauk prófi árið 1981. Seinna lauk ég MBA námi frá sama skóla. Ég stofnaði viðskiptaþjónustufyrirtæki á Hellu ásamt Jóni Bergþóri Hrafnssyni, skólabróður mínum úr Verzló. Það gekk vel í þau tuttugu ár sem við áttum fyrirtækið en ég seldi hlut minn þegar við Hrafnhildur ákváðum að venda okkar kvæði í kross og flytja til höfuðborgarinnar. Þegar þangað var komið starfaði ég sjálfstætt um tíma en réði mig svo í fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings árið 2003. Varð síðan aðstoðarútibússtjóri aðalútibús Kaupþings og síðar útibússtjóri í öðrum útibúum bankans. Ég var 5 ár í bankanum fyrir hrun og 5 ár eftir hrun. Ég held að meiri munur sé á þessum tímabilum en degi og nóttu!

Ég lauk störfum í bankanum árið 2013, starfaði um tíma sem fjármálastjóri Fálkans en tók svo við sem bæjarstjóri Grindavíkur eins og ég var búinn að koma inn á. Ég sé ekki fyrir mér að sækjast eftir endurráðningu sem bæjarstjóri á næsta kjörtímabili en er að sjálfsögðu reiðubúinn að koma til aðstoðar þeim sem sem taka við keflinu verði þess óskað. Ýmis áhugamál hafa setið á hakanum undanfarin ár enda hef ég reynt að helga mig starfinu sem mest. Starfið hefur gefið mér mikið, Grindvíkingar hafa tekið okkur hjónunum einstaklega vel, samfélagið í Grindavík var framúrskarandi gott og ég mun ávallt eiga hlýjar og góðar minningar þaðan. Ég gaf áhugamálum ekki mikinn tíma á meðan ég bjó í Grindavík, hestamennskan hefur nánast lognast útaf og er það af sem áður var meðan það var mitt aðal áhugamál. Útreiðartúrar í góðra vina hópi voru mikil lífsfylling. Ég tók að mér sem hálfgert sjálfboðaliðastarf að vera framkvæmdastjóri fjórðungs- og landsmóta hestamanna nokkrum sinnum og ég sé alveg fyrir mér að rifja upp kynnin við þennan þarfasta þjón. Við Hrafnhildur eigum þrjú dugmikil börn og þrjú tengdabörn sem öll hafa spjarað sig vel og níu yndisleg barnabörn. Þetta er mikill auður og samverustundir með þeim eru gleðiríkar. Svo eigum við jörð í Fljótshlíðinni og þar uni ég mér best, fór í húsasmíðanám í iðnskóla á miðjum aldri ásamt lögfræðingnum syni mínum og ég veit fátt ánægjulegra en að dunda mér við smíðar eða aðra útivinnu. Við hjónin höfum ferðast töluvert innan lands og utan og viljum bæta þar í og leggja lönd undir fót í framtíðinni. Svo getur vel verið að ég taki að mér einhver skrifstofuverkefni í smærri stíl, en bara þau sem ég hef gaman af,“ sagði Fannar að lokum.

Fannar og Hrafnhildur Rósa í Ásbirgi.