Einn fluttur á sjúkrahús eftir eldsvoða
Einn var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík í kjölfar eldsvoða í fjölbýli við Vatnsholt í Keflavík á ellefta tímanum í gærkvöldi, sunnudagskvöld.
Það var kl. 22:54 sem Lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning um eld í fjölbýlishúsi við Vatnsholt. Lögregla og sjúkra- og slökkvilið fór á vettvang á hæsta forgangi.
Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang var einn íbúi enn inni í húsinu en aðrir íbúar hússins komnir út. Skömmu síðar fannst íbúinn og var hann fluttur með sjúkrabifreið til Reykjavíkur.
Aðrir íbúar, 15 talsins, voru fluttir á öruggan stað skammt frá vettvangi þar sem þeir fá stuðning og liðsinni frá starfsmönnum Rauða krossins.
Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja lauk störfum á vettvangi um klukkan eitt í nótt og afhenti þá lögreglu vettvang til rannsóknar, sem er á frumstigi.








