Bjarni Páll Tryggvason stígur til hliðar sem bæjarfulltrúi
Bjarni Páll Tryggvason, bæjarfulltrúi Framsóknarflokks í Reykjanesbæ, hefur ákveðið að stíga til hliðar samhliða því sem hann tekur við nýju hlutverki hjá Isavia ohf. Frá þessu greinir hann í tilkynningu.
„Líkt og mörg ykkar hafa séð þá hef ég tekið við nýju hlutverki hjá Isavia ohf og mun taka þar sæti í framkvæmdastjórn sem framkvæmdarstjóri Þjónustu og rekstrar.
Sú breyting kallar á aðrar breytingar og hef ég ákveðið að störf mín sem bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ samræmast ekki þeim ábyrgðum og skyldum sem fylgja nýju hlutverki.
Ég mun því stíga til hliðar og hætta sem bæjarfulltrúi sem og segja mig frá öðrum pólitískum verkefnum.
Þau verkefni sem ég hef verið svo lánsamur að hafa verið treyst fyrir síðastliðin átta ár á þeim vettvangi hafa verið mér dýrmæt, lærdómsrík og gefandi.
Tilfinningar eins og stolt, söknuður, þakklæti, auðmýkt og bjartsýni sitja eftir hjá mér.
Ég er þakklátur fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt, en efst í huga mér eru allir þeir frábæru einstaklingar sem ég hef fengið að starfa með á þessum vettvangi, hvort sem það er innan flokksstarfs eða stjórnsýslu Reykjanesbæjar. Takk fyrir ykkur öll og megi ykkur farnast sem allra best í því að styðja við og byggja upp samfélagið í Reykjanesbæ.
Tækifærin framundan eru mörg og ég trúi því að við getum öll haft jákvæð áhrif á það hvernig samfélagið okkar þróast.“








