Fjölmenni við útför Magnúsar Haraldssonar
Fjölmenni var við útför Magnúsar Haraldssonar frá Keflavíkurkirkju í dag. Magnús lést 17. janúar, 83 ára að aldri.
Magnús var borinn og barnfæddur Keflvíkingur. Hann var í fyrsta Íslandsmeistaraliði Keflavíkur í knattspyrnu og var virkur í félagsmálum með Ungmennafélagi Keflavíkur, Keflavík, Framsóknarflokknum og Lionsklúbbi Keflavíkur. Þá starfaði hann um langa hríð sem skrifstofustjóri hjá Sparisjóðnum í Keflavík, áður við fleiri störf eins og hjá Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli. Þá rak hann verslunina Sportvík í Keflavík á yngri árum.
Sr. Erla Guðmundsdóttir stýrði útför og sagði skemmtilega frá lífsferli Magnúsar. Kór Keflavíkurkirkju söng og Sigurður Guðmundsson söng einsöng. Þá spiluðu Sigrún Gróa, dóttir Magnúsar, og Jón Ingi, sonur hennar og barnabarn Magnúsar, við útförina. Hún á píanó og hann á blokkflautu. Börn, tengdabörn og barnabörn báru kistu Magnúsar út úr Keflavíkurkirkju í lok athafnar.









