Opus Futura
Opus Futura

Aðsent

Hef trú á þér Eyjólfur
Mánudagur 15. september 2025 kl. 11:05

Hef trú á þér Eyjólfur

Framkvæmdir við Reykjanesbrautina hafa verið eitt okkar helsta baráttumál hér á Suðurnesjum síðustu áratugina. Saga Reykjanesbrautarinnar er ágæt birtingarmynd á íslensku leiðinni. Það er meira þrasað og rætt en framkvæmt og loks þegar framkvæmdir fara af stað, þá er það unnið í bútasaum. 

Á undanförnum tíu árum höfum við þó náð nokkrum mikilvægum áföngum. Við náðum Reykjanesbrautinni inn á samgönguáætlun árið 2015, strax var hafist handa við að færa Hafnarveginn til, ný hringtorg tóku við ofan við bæinn og nú er tvöföldunin að verða klár frá Fitjum að Lækjargötu í Hafnarfirði. Eftir stendur síðasti kaflinn, frá Fitjum að Flugstöðinni, og þar er búið að vinna alla nauðsynlega undirbúningsvinnu. Skipulagið er klárt og forhönnun tilbúin. Það eina sem vantar er fjármagn.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Innviðaráðherra heimsótti nýverið svæðið og hélt opinn fund þar sem hann fékk skýr skilaboð frá samfélaginu. Yfirlýsingar hans og annarra ráðherra gefa til kynna að ráðist verði í miklar innviðaframkvæmdir um land allt, sem er fagnaðarefni. Sérstaklega veitir það vonir að sömu ráðherrar hafi bent á að hægt sé að hefja framkvæmdir við Þjóðleikhúsið – verkefni sem hvorki er inni í fjármálaáætlun né annarri áætlun – vegna þess að tveir milljarðar séu „smá upphæð í stóra samhenginu“.

Ef svo er, þá getur ekkert staðið í vegi fyrir því að klára framkvæmd sem hefur staðið á samgönguáætlun í heilan áratug, þar sem allar forsendur eru fyrir hendi.

Þá má ekki gleyma því að Reykjanesbrautin er líklega ein sú framkvæmd á Íslandi sem helst gæti fallið undir varnarmannvirki, með þeim tvöfalda tilgangi að vera bæði borgaraleg framkvæmd og öryggisframkvæmd. Reykjanesbrautin er því tilvalin í að vera fyrsta framkvæmdin upp í 1,5% framlag Íslands til varnarmála. 

Ég ætla því að leyfa mér að vera bjartsýnn á að framkvæmdir fari fljótlega af stað við að klára tvöföldun Reykjanesbrautarinnar. Hér eftir sem hingað til mun ég styðja við innviðaráðherrann í því verkefni sama hvaða leið verður valin til að koma því af stað. 

Vilhjálmur Árnason, 

ritari Sjálfstæðisflokksins.