Keyrir daglega úr Reykjanesbæ til að fara í grunnskóla í Hafnarfirði
„Það eru kröfur á mann í námi og íþróttum – allir vilja að maður standi sig,“
Heiða Dís Helgadóttir, 13 ára stúlka úr Reykjanesbæ, keyrir daglega til Hafnarfjarðar til að stunda nám við NÚ sem er einkarekinn grunnskóli í Hafnarfirði, sem hefur sérhæft sig í að sameina nám og íþróttir.
Hún hóf nýlega nám í 8. bekk og segir þetta vera besta skólann fyrir sig. „Námið er bæði skemmtilegt og krefjandi. Það eru kröfur á mann í námi og íþróttum – allir vilja að maður standi sig,“ segir Heiða sem æfir taekwondo með Keflavík og þykir afar efnileg í þeirri grein.
Heiða bætir við að hún óski þess að svona skóli væri líka í Reykjanesbæ: „Ég hef heyrt að sé verið að opna skóla í Mosfellsbæ á næsta ári en mér finnst það væri gott að hafa svona skóla í Reykjanesbæ líka. Það eru margar íþróttir þar og margir góðir íþróttamenn.“ Tveir kennarar skólans eru einmitt úr Keflavík. faðir hennar, Helgi Rafn Guðmundsson, sem kemur úr taekwondo, og Margrét Sturlaugsdóttir körfuboltaþjálfari. „Það sem mér finnst best er hvað allir – bæði kennarar og nemendur – eru jákvæðir og skemmtilegir. Það eru allir þarna af því að þau velja það,“ segir hún.
Mikil eftirspurn og framtíðarsýn
Eftirspurn eftir skólavist í NÚ er mikil og því miður komast ekki allir að sem vilja. Þau pláss sem opnast árlega fyllast strax. Skólinn stefnir að því að opna nýjan skóla í Mosfellsbæ árið 2026, og víða um land er áhugi á að stofna sambærilega skóla. Markmið NÚ er skýrt: að skapa vettvang þar sem ungir íþróttamenn þurfa ekki að velja á milli náms og íþrótta, heldur geti náð árangri í báðum.
Skólinn er einkarekinn, var stofnaður árið 2016, er nú að hefja sitt 10. starfsár og hefur sérhæft sig í að sameina nám og íþróttir. Í NÚ eru aðeins um 100 nemendur í 8.–10. bekk og skapast þar lítið og náið samfélag þar sem hver og einn fær rými til að blómstra.

Skóladagur í takt við nemendur
NÚ fylgir aðalnámskrá grunnskóla en nálgast kennslu á annan hátt en hefðbundnir skólar. Skóladagurinn hefst kl. 9 en í desember og janúar, þegar myrkrið er mest, hefst kennsla kl. 10. Kennslan er að mestu skipulögð sem vendinám þar sem nemendur læra að bera ábyrgð á eigin námi, vinna í gegnum rafrænar lausnir og geta sinnt verkefnum jafnvel í æfinga- eða keppnisferðum.
Íþróttir í fyrirrúmi
Allir nemendur skólans stunda íþróttir og fá að æfa sína grein samhliða námi. Sem stendur er boðið upp á akademíuæfingar í knattspyrnu, handbolta og körfubolta tvisvar í viku, auk hefðbundinnar íþrótta- og sundkennslu. Þá er styrktarþjálfun einu sinni í viku fyrir alla, íþróttamælingar sem venjulega eru aðeins ætlaðar afreksíþróttafólki, og stuðningur frá íþróttafræðingum sem aðstoða við álagsstýringu. Í skólanum starfa einnig íþróttasálfræðingur og markþjálfi sem styðja nemendur í markmiðasetningu, sjálfstrausti og hugarfari.