Fjögur af Suðurnesjum meðal umsækjenda um embætti óperustjóra
Fjöldi Suðurnesjamanna sækist eftir embætti óperustjóra við nýstofnaða þjóðaróperu sem mun heyra undir Þjóðleikhúsið. Af ellefu umsækjendum um starfið eru fjögur frá Suðurnesjum.
Þau eru Alexandra Chernyshova, óperusöngkona, tónskáld og tónlistarstjóri, Atli Ingólfsson, tónskáld og prófessor við Listaháskóla Íslands, Bjarni Thor Kristinsson, óperusöngvari og leikstjóri, og Jóhann Smári Sævarsson, óperusöngvari og listrænn stjórnandi/óperustjóri Norðuróps.
Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra skipar í embættið eigi síðar en 15. nóvember 2025, að undangengnu mati hæfnisnefndar sem veitir ráðherra umsögn. Óperustjóri verður skipaður til fimm ára í senn.
Í skipuriti heyri óperustjóri undir þjóðleikhússtjóra og skal eiga samráð við hann um fjárhagsáætlanir og helstu ákvarðanir er varða rekstur óperunnar. Þjóðleikhúsráð hefur eftirlit með starfseminni og fær reksturinn kynntan sérstaklega.
Hlutverk nýstofnaðrar þjóðaróperu er að sviðsetja óperuverk, varðveita sögulega arfleifð óperulistar og jafnframt glæða áhuga landsmanna á listforminu.
Leitað var að einstaklingi með háskólamenntun í listum eða sambærilega menntun ásamt staðgóðri reynslu og þekkingu af vettvangi óperulista, segir í frétt sem mbl.is birti um alla umsækjendur.