Frægur flugmaður heimsótti gamlar heimaslóðir á varnarsvæðinu
Flugmaðurinn Greg Fletcher, sem nauðlenti Douglas Dakota-flugvél á Sólheimasandi árið 1973 og bjargaði þannig lífi allra um borð, heimsótti í vikunni sínar fyrrum heimaslóðir á Ásbrú í Reykjanesbæ. Fletcher var búsettur á varnarsvæði bandaríska hersins, sem nú heitir Ásbrú það eina ár sem hann var á Íslandi. Hann varði bróðurparti tímans síns á herstöðinni og var markmið heimsóknarinnar að kynna hann aftur fyrir svæðinu og framtíðarskipulagi þess og uppbyggingu.
Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco - og Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, tóku á móti Fletcher ásamt hópi frá Landhelgisgæslunni. Fyrr í vikunni fór Fletcher í fyrsta skipti aftur að flugvélarflakinu á Sólheimasandi.
Pálmi Freyr hélt kynningu á K64 þróunaráætluninni, hlutverki Kadeco og uppbyggingaráform á Ásbrú. Þá sagði Fletcher Pálma, Höllu og öðrum viðstöddum frá nauðlendingunni á Sólheimasandi og fleiri sögur af veru sinni á Íslandi.
„Það var okkur mikill heiður að fá bæði Fletcher og forseta Íslands til okkar í dag. Fletcher var búsettur hérna á varnarsvæðinu á árum áður og hefur ásýnd þess breyst töluvert frá því hann bjó hérna. Það var bæði dýrmætt og lærdómsríkt að fá að ræða við hann og
mikill meðbyr í okkar vinnu að heyra hversu mikla trú hann hefur á framtíðaruppbyggingu svæðisins og þeim tækifærum sem leynast hér í nálægð við flugvöllinn. Á sama tíma minnir heimsókn hans okkur á það hversu mikill menningararfur Ásbrúar er og mikilvægi þess að halda honum á lofti,“ segir Pálmi.
Fyrir tæpu ári síðan skrifuðu Kadeco, Reykjanesbær og íslenska ríkið undir samning um uppbyggingu á Ásbrú. Samningurinn felur m.a. í sér að byggðar verði 800 íbúðir á Ásbrú auk uppbyggingar samfélagslegra innviða, almenningsrýma og nýrra bygginga undir þjónustu fyrir íbúa.
Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, hefur það meginmarkmið að leiða samstarf íslenska ríkisins, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar um skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu lands við Keflavíkurflugvöll, segir í frétt frá félaginu.