Íþróttir

Pabbi minn er ástæðan fyrir því að ég er í körfubolta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 3. janúar 2022 kl. 08:59

Pabbi minn er ástæðan fyrir því að ég er í körfubolta

Nafn: Logi Gunnarsson
Aldur: 40 ára
Treyja númer: 14
Staða á vellinum: Skotbakvörður
Mottó: Gerðu alltaf þitt besta og aðeins meira


Logi Gunnarsson, fyrirliði Subway-deildarliðs Njarðvíkur, hefur þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistari með Njarðvík auk þess að verða bikarmeistari með liðinu í september – og hann stefnir á fjórða titilinn í vor. Logi var um átta ára aldurinn þegar hann hóf að æfa körfubolta en hann varð fertugur í ár og er ekkert að sýna þess merki að hann sé að fara að hætta. Logi svarar nokkrum léttum spurningunum í uppleggi Víkurfrétta að þessu sinni.


Hefurðu fasta rútínu á leikdegi?
Já, ég reyni alltaf að halda henni. Stutt æfing í hádeginu, borða hollan og góðan mat. Reyni líka alltaf að slaka aðeins á eftir vinnu fyrir leikinn, legg mig stutt. 

Hvenær byrjaðir þú í körfu og af hverju valdirðu körfubolta? 
Í kringum átta ára. Pabbi minn var þjálfari og ég fylgdi honum oft á æfingar. Ætli það hafi ekki komið þaðan, svo spilaði hann lengi með Njarðvík og landsliðinu.

Hver er besti körfuboltamaður allra tíma?
Michael Jordan.

Hver er þín helsta fyrirmynd?
Eins og ég nefndi hér að ofan þá er pabbi minn ástæðan fyrir því að ég er í körfubolta þannig ég verð að segja hann. 

Hvert er eftirminnilegasta atvikið á ferlinum?
Það eru nokkur sem standa upp úr. Sem dæmi allir þrír Íslandsmeistaratitlarnir með Njarðvík og að hafa farið tvisvar á stórmót með landsliði Íslands.

Hver er besti samherjinn?
Get ekki valið neinn einn, hef spilað með svo mörgum frábærum liðsfélögum í Njarðvík og með Íslandi, einnig í liðunum sem ég spilaði með erlendis.

Hver er erfiðasti andstæðingurinn?
Hef mætt mörgum erfiðum leikmönnum í gegnum árin. Ætli Þjóðverjinn Dirk Nowitzki sé ekki sá besti. 

Hver eru markmið þín á þessu tímabili?
Það er að verða Íslandsmeistari með Njarðvík.

Hvert stefnir þú sem íþróttamaður?
Að verða Íslandsmeistari í vor.

Hvernig væri fimm manna úrvalslið þitt skipað með þér?
Vel þá leikmenn sem ég hef spilað með. Brenton Birmingham, Jón Arnór Stefánsson, Teitur Örlygsson og Hlynur Bæringsson.

Fjölskylda/maki:
Er giftur Birnu Björk Þorkelsdóttur og börnin eru þrjú; Sara Björk, þrettán ára, Logi Örn, tólf ára, og Harpa Kristín, sjö ára.

Hvert er þitt helsta afrek fyrir utan körfuboltann?
Ég verða segja börnin mín þrjú ☺ 

Logi og fjölskylda fagna bikarmeistaratitli Njarðvíkinga í september.

Áttu þér áhugamál fyrir utan körfuboltann?
Hef mjög gaman af því að ferðast með fjölskyldunni minni.

Ef þú ætlar að gera vel við þig, hvað gerirðu?
Borða góða nautasteik.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Nautasteik.

Ertu öflugur í eldhúsinu?
Ég er alveg ágætur.

Býrðu yfir leyndum hæfileika?
Nei, enginn leyndur hæfileiki ☺

Er eitthvað sem fer í taugarnar á þér?
Óskipulag og leti.

„Ég hef verið með marga leikmenn hjá mér í körfunni í gegnum tíðina en enginn þeirra hefur haldið upp á 40 afmælið sitt á æfingu hjá mér,“ skrifaði Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkinga í Facebook-færslu síðasta haust. „Logi Gunnarsson er heldur engin venjulegur leikmaður. Ég fullyrði það að enginn hefur hugsað betur um sig og leggur jafn mikið á sig og hann. Við förum langt aftur í okkar samstarfi og er þvílíkur heiður að fá að vinna með honum aftur í dag. Logi er eins mikil fyrirmynd og hægt er að vera.“

Tengdar fréttir