Íþróttir

Njarðvíkingar snéru vörn í sókn
Nicolas Richotti var heitur í gær og gerði 25 stig auk þess að vera með 30 framlagspunkta. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 28. apríl 2022 kl. 08:53

Njarðvíkingar snéru vörn í sókn

Njarðvíkingar mættu kolvitlausir til leiks í þriðja leik undanúrslita karla í Subway-deildinni sem var leikinn í Ljónagryfjunni í gær. Eftir að hafa kastað frá sér sigrinum í leik númer tvö gáfu þeir Tindastóli engan séns og unnu yfirburðasigur, 93:75. Staðan er nú 2:1 í einvíginu, Tindastól í vil, en miðað við frammistöðu Njarðvíkinga í gær ætla þeir ekki að gefa eftir í baráttunni.

Njarðvík - Tindastóll 93:75

(21:28, 28:18, 30:17, 14:12)

Stólarnir hófu leikinn betur en eftir fyrsta leikhluta var leikurinn algerlega í höndum Njarðvíkinga. Stólarnir leiddu með sjö stigum í upphafi annars leikhluta en Njarðvíkingar fóru á kostum í öðrum og þriðja leikhluta með sterkri vörn sem lokaði algerlega á sóknarleik Tindastól. 23 stiga viðsnúningur  á leiknum í tveimur leikhlutum og þegar fjórði leikhluti fór í gang leiddu heimamenn með sextán stigum (79:63). Minnugir ófaranna fyrir norðan í leik tvö kláruðu Njarðvíkingar leikinn af fullum krafti og höfðu að lokum átján stiga sigur (93:75).

Ólafur Helgi Guðmundsson kom sterkur inn af bekknum í gær, honum fylgdi kraftur og baráttuandi sem smitaði út frá sér. Hér skorar hann af harðfylgi.
Þótt mikið sé í húfi og baráttan hörð gleyma menn ekki að hafa gaman í körfubolta. Logi Gunnarsson og Helgi Rafn Viggósson augnabliki áður en þeir tókust á um frákastið.

Njarðvík: Nicolas Richotti 25, Dedrick Deon Basile 14/9 fráköst/6 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos 12/9 fráköst, Logi Gunnarsson 10, Mario Matasovic 10/7 fráköst, Haukur Helgi Pálsson 10/4 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 7/6 fráköst, Maciek Stanislav Baginski 5, Jan Baginski 0, Snjólfur Marel Stefánsson 0, Veigar Páll  Alexandersson 0, Elías Bjarki Pálsson 0.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Stuðningsmaður Njarðvíkur lætur andstæðingana í stúkunni aðeins fá að heyra það.

Stemmningin í Ljónagryfjunni var í einu orði sagt mögnuð – stuðningsmenn Njarðvíkur fylktu sér að baki sinna manna og létu vel heyra í sér. Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, fangaði stemmninguna í þriðja leik liðanna í gær eins og sjá má í myndasafnið neðar á síðunni.

Njarðvík - Tindastóll (93-75) | Undanúrslit karla 27. apríl 2022

Tengdar fréttir