Íþróttir

Hætti að spila út af meiðslum
Luka Jagačić og Haraldur Guðmundsson saman á hliðarlínunni. Mynd af Facebook-síðu Jagačić
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 13. maí 2022 kl. 08:14

Hætti að spila út af meiðslum

Luka Jagačić, þjálfari Reynis Sandgerði, kom fyrst til Íslands árið 2013 og lék þrjú tímabil með Selfossi. Eftir það sneri hann aftur til heimalands síns, Króatíu, og lék þar eitt tímabil en hann lauk ferlinum með Njarðvík árið 2018.

„Ég er búinn að fara í átta aðgerðir á hægra hné en náði því ekki góðu og þurfti að lokum að hætta að spila snemma. Árið 2018 kom eiginkona mín með mér til Íslands og fékk vinnu fljótlega, við höfum búið hér síðan.

Þegar Halli [Haraldur Guðmundsson] fékk mig til Reynis var hugmyndin að ég myndi spila með þeim en vegna meiðslanna gekk það ekki, ég bara gat ekki spilað. Þá bauð hann mér að vera áfram sem þjálfari með honum og síðustu þrjú ár finnst mér við hafa skilað af okkur góðu verki með Reynismönnum.“

Jagačić segir undirbúningstímabilið hafa gengið vel þrátt fyrir aðstöðuleysi yfir vetrartímann. „Það var mikill akstur fram og til baka til að sinna æfingum en ég er virkilega ánægður með hvernig liðið höndlaði undirbúningstímann, bara almennt innan og utan vallar. Mér fannst þeir leggja sig fram við æfingar og þeir léku vel í leikjum á undirbúningstímabilinu.“

Markmiðið að gera betur en á síðasta tímabili

„Það er markmið okkar í sumar, að gera betur en á síðasta tímabili. Við enduðum með 32 stig í fyrra og það er eitthvað sem við viljum bæta.

Það hafa eðlilega orðið einhverjar breytingar á leikmannahópnum hjá okkur, einhverjir farnir og aðrir komnir, en ég er heilt á litið mjög sáttur við hópinn. Við erum með marga unga leikmenn úr Reykjanesbæ og ég nýt þess að vinna með þeim. Þeir eru efnilegir en þurfa að halda áfram að vera hungraðir og metnaðarfullir eins og þeir eru núna.“

Jagačić segir að mæting á fyrsta leik hafi verið góð og hann finni fyrir stuðningi við liðið. „Það skiptir okkur alla miklu máli. Auðvitað verðum við líka að skila árangri til að gefa stuðningsmönnum ástæðu til að mæta á leikina – og jafnvel að fjölga í hópnum, það myndi gefa okkur aukinn kraft.“

Reynir Sandgerði tók á móti Haukum úr Hafnarfirði á föstudag. Eftir jafnan leik tókst gestunum að brjóta varnir Reynismanna rétt undir lok leiks (84’) og tryggja sér sigur. Reynismenn töpuðu því fyrsta leik en Jagačić segir að leikurinn hafi verið jafn og úrslitin getað fallið með báðum liðum. „Já, við töpuðum á föstudag en þetta var erfiður 50/50 leikur sem hefði getað farið á hvorn veginn sem er. Ég held að deildin sé mjög jöfn og margir leikir eigi eftir að verða þannig í sumar.

Ég vil samt hrósa leikmönnunum sem lögðu sig fram og börðust til enda en því miður rann tíminn út án þess að við næðum að jafna. Við fengum okkar færi en náðum ekki að klára þau, þess vegna tóku Haukar öll þrjú stigin.“

Jagačić segist hafa fulla trú á að Reynismenn komi til baka og sæki sigur í næsta leik.

„Við munum allir leggjast saman í greiningarvinnu á síðasta leik til að sjá hvað við þurfum að bæta. Svo mætum við sterkir til leiks gegn Völsungi á Húsavík um næstu helgi – ég hef 100% trú á að liðið sé tilbúið í það,“ segir Luka Jagačić að lokum.