Kalka
Kalka

Íþróttir

Grindavík vann nágrannaslaginn
Grindvíkingar sækja að marki Þróttar. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 13. maí 2022 kl. 11:26

Grindavík vann nágrannaslaginn

Grindavík tók á móti nágrönnum sínum úr Vogum í gær í Lengjudeild karla í knattspyrnu. Þótt Grindavík hafi stutt vel við uppbyggingu knattspyrnunnar í Vogum og Þróttarar líti á þá sem einskonar stóra bróður var allur bróðurkærleikur lagður til hliðar í gær.

Það var á brattann að sækja hjá nýliðum Þróttar en þeir sýndu „stóra bróður“ enga virðingu og stóðu uppi í hárinu á Grindvíkingum framan af. Það voru samt heimamenn sem stýrðu leiknum en Þróttur varðist vel og átti sínar sóknir.

Það var fyrrum liðsmaður Þróttar, Dagur Ingi Hammer, sem braut ísinn á fyrstu mínútu uppbótartíma í fyrri hálfleik þegar hann fékk góða sendingu frá félaga sínum, Kairo Asa Jacob Edwards-John, og skoraði fram hjá Rafal Stefáni Daníelssyni í marki Þróttar. Staðan 1:0 í hálfleik.

Nýsprautun sumardekk
Nýsprautun sumardekk
Dagur Ingi reyndist fyrrum félögum sínum erfiður í gær en hann átti stórfínan leik og var mjög ógnandi.

Seinni hálfleikur var svipaður þeim fyrri, heimamenn stýrðu leiknum og Þróttarar vörðust. Á 64. mínútu tók Kairo til sinna ráða þegar hann tók á rás upp hægri kantinn, inn í teig Þróttar og setti hann fram hjá Rafal. 2:0 og staðan orðin erfið fyrir nýliðana. Dagur Ingi rak svo smiðshöggið á sigur Grindvíkinga þegar hann nappaði boltanum af varnarmanni Þróttar og skoraði þriðja mark heimamanna (90').

Heilt yfir var leikurinn frekar rólegur þótt mönnum hafi orðið heitt í hamsi af og til. Engar tilslakanir voru veittar í tæklingum og skallaeinvígjum og í fyrri hálfleik sauð nánast upp úr eftir viðskipti Kairo og varnarmanns Þróttar í undirbúningi hornspyrnu. Kairo fékk að líta gula spjaldið og var hornspyrnan loks tekin eftir um þriggja mínútna hasar.

Grindavík fer ágætlega af stað í Lengjudeildinni, er komið með fjögur stig eftir tvær umferðir, en Þróttarar bíða enn eftir sínum fyrstu stigum.

Þrjátíu ár á Íslandi

Fyrir leik var Milan Stefáni Jankovic og eiginkonu hans veittur þakklætisvottur fyrir framlag þeirra til Ungmennafélags Grindavíkur en nú eru þrjátíu ár síðan Janko kom til Íslands frá Júgóslavíu og gekk til liðs við Grindavík. Það var Gunnar Már Gunnarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, sem afhenti hjónunum blóm og viðurkenningu fyrir leik Grindavíkur og Þróttar.

Ljósmyndari Víkurfrétta, Jóhann Páll Kristbjörnsson, kíkti á leik Grindavíkur og Þróttar og má sjá fleiri myndir neðar á síðunni.

Grindavík - Þróttur (3:0) | Lengjudeild karla 12. maí 2022