Viðskipti

Nettó opnar 2.000 fermetra miðstöð undir netverslun
Föstudagur 24. apríl 2020 kl. 10:21

Nettó opnar 2.000 fermetra miðstöð undir netverslun

Nettó hefur opnað 2.000 fermetra miðstöð í Klettagörðum undir netverslun fyrirtækisins. Þetta er í fyrsta sinn sem miðstöð af þessari stærðargráðu er opnuð undir dagvöru á Íslandi en það er gert til að mæta þeirri sprengingu sem orðið hefur í netverslun fyrirtækisins. Með miðstöðinni er hægt að auka flæði netverslunarinnr, stýra birgðastöðu betur og fjölga heimsendingum til muna. Í húsnæðinu er meðal annars sérsmíðaður 100 fermetra frystir og 200 fermetra kælir til að halda vörum við kjöraðstæður.

„Miðstöðin er bylting fyrir netverslun okkar. Með opnun hennar náum við að að auka flæði til muna og anna aukinni eftirspurn. Þessi sprenging sem hefur orðið í netversluninni hefur flýtt áætlunum okkar um nokkur ár og því kjörið tækifæri núna til að straumlínulaga ferla,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Nettó. „Það tók ekki nema viku að koma húsnæðinu upp. Að ná þessu á svo stuttum tíma er í raun ótrúlegt en með öflugu starfsmönnum og skýru skipulagi tókst þetta. Kollegum okkar í Danmörku finnst ótrúlegt að við höfum getað opnað svona aðstöðu með svo skömmum fyrirvara.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í netversluninni verður unnið á vöktum til að anna eftirspurn. „Starfsmenn okkar munu vinna á vöktum bæði til að auka skilvirkni og mæta kröfum viðskiptavina okkar en ekki síður til að draga úr hættu á smitum,“ segir Gunnar Egill.

Nettó bætti nýlega við á sjötta tug starfsmanna í netversluninni auk þess sem um tuttugu starfsmenn hófu störf hjá samstarfsaðilanum aha, sem sér um að koma vörunum heim.

„Starfsfólk okkar hefur unnið kraftaverk undanfarnar vikur og við finnum fyrir miklum meðbyr frá viðskiptavinum okkar. Það hafa orðið einhverjar tafir síðustu daga en viðskiptavinir okkar hafa sýnt því einstakan skilning,“ segir Gunnar Egill.

Samkaup rekur rúmlega 60 verslanir undir merkjum Nettó, Samkaup Strax, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland. Árið 2017 hóf Nettó fyrst stóru verslananna heimsendingu á matvöru og annarri dagvöru í samstarfi við aha og hefur hún vaxið jafnt og þétt síðan en þó tekið áberandi kipp síðastliðnar vikur.

SJÁIÐ NÝJUSTU VÍKURFRÉTTIR 62 BLS. TROÐFULLAR AF FLOTTU EFNI!