Færri farþegar um Keflavíkurflugvöll 2026
– en fjöldi erlendra ferðamanna helst stöðugur
Spá Isavia fyrir árið 2026 gerir ráð fyrir að ríflega 7,5 milljónir farþega fari um Keflavíkurflugvöll (KEF), samanborið við 8,12 milljónir árið 2025. Það jafngildir 7,4% samdrætti á milli ára.
Aftur á móti er gert ráð fyrir að fjöldi erlendra ferðamanna sem heimsækja Ísland haldist nánast óbreyttur – um 2,24 milljónir árið 2026, sem er aðeins 1,2% minna en á þessu ári. Samdrátturinn í farþegafjölda tengist því fyrst og fremst fækkun tengifarþega og færri utanlandsferðum Íslendinga.
„Það er ljóst að eftirspurnin eftir Íslandi er áfram mjög mikil. Við gerum ráð fyrir álíka mörgum erlendum gestum og undanfarin ár,“ segir Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga- og markaðsmála á Keflavíkurflugvelli. Hann bendir á að brotthvarf Play hafi haft áhrif á framboð, en með markvissri vinnu hafi tekist að lágmarka áhrifin á komu erlendra ferðamanna.
Mikill samdráttur í tengifarþegum og utanlandsferðum Íslendinga
Samkvæmt farþegaspá KEF fyrir 2026:
-
Heildarfjöldi farþega verður 7,51 milljón (8,12 millj. 2025) – 7,4% fækkun
-
Tengifarþegum er spáð að fækki um 15,3%
-
Utanlandsferðum Íslendinga er spáð að fækki um 13,2%
-
Brottfarar- og komufarþegum fækkar minna, eða um 4,5%.
Grétar Már segir að unnið hafi verið markvisst að því að fylla skarðið sem Play skildi eftir sig sem næststærsta flugfélag flugvallarins. „Ef við berum spána saman við rauntölur 2025 án Play sjáum við reyndar 5,3% fjölgun heildarfarþega á milli ára, sem sýnir að öðrum flugfélögum gengur vel að taka við hluta af því umfangi,“ segir hann.
Erlendir ferðamenn eru stöðugir – Íslendingar draga saman seglin
Í ferðamannaspá KEF fyrir 2026 er gert ráð fyrir:
-
2,24 milljónum erlendra ferðamanna til Íslands (2,27 millj. 2025) – 1,2% breyting
-
602 þúsund utanlandsferðum Íslendinga, samanborið við 693 þúsund á þessu ári – 13,2% fækkun
Grétar Már segir jákvætt að fjöldi erlendra ferðamanna sé orðinn stöðugur. Frá árinu 2023 hafi fjöldinn verið á bilinu 2,2–2,3 milljónir á ári, sem sýni að Ísland haldi áfram að vera sterkur áfangastaður á alþjóðavísu.
Ný flugfélög og fleiri tengingar
Þrátt fyrir samdrátt í tengifarþegum verður áfram mikið líf á flugvellinum:
-
27 flugfélög munu fljúga áætlunarflug til 80 áfangastaða yfir sumarið
-
20 flugfélög til 65 áfangastaða yfir veturinn
-
Tvö ný flugfélög, Alaska Air og Air Transat, hefja áætlunarflug til KEF
-
Tíu nýjar tengingar bætast við – fimm í Norður-Ameríku og sex í Evrópu
-
Hlutfall tengifarþega verður um 25%, sem er lægra en undanfarin ár
Um spána
Farþegaspá Keflavíkurflugvallar byggir á greiningu á eftirspurn eftir flugi til og frá landinu, á áformum flugfélaga, afgreiðslutímum sem þau hafa tryggt sér og gögnum úr innri kerfum flugvallarins.

Niðurstaðan: færri farþegar í heildina 2026 – en Ísland heldur áfram að laða til sín álíkan fjölda erlendra gesta og undanfarin ár.






