Framúrskarandi fyrirtæki 2025
Framúrskarandi fyrirtæki 2025

Viðskipti

KSK áfram öflugur þátttakandi í atvinnulífinu á Suðurnesjum - færði Velferðarsjóð eina milljón
Velferðarsjóður Suðurnesja hlaut einnar milljón króna styrk og veitti Guðbjörg Kristmundsdóttir, stjórnarmaður í sjóðnum, honum viðtöku frá Sigurbirni Gunnarssyni.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 20. nóvember 2025 kl. 09:37

KSK áfram öflugur þátttakandi í atvinnulífinu á Suðurnesjum - færði Velferðarsjóð eina milljón

Fulltrúafundur hjá Kaupfélagi Suðurnesja (KSK) var haldinn 30. okt sl. Fulltrúaráðið er skipað 60 manns sem kosnir eru á aðalfundum deilda félagsins sem haldnir eru í febrúar ár hvert. Fulltrúaráðið fundar að jafnaði tvisvar á ári að hausti og vori sem jafnframt er aðalfundur Kaupfélagsins.

Á haustfundinum 30. okt. sl. flutti Sigurbjörn Gunnarsson, stjórnarformaður KSK yfirlit um rekstur og starfsemi félagsins og fasteignafélagsins KSK eigna sem er í 100% eigu Kaupfélagsins. Fjárhagsstaða Kaupfélagsins er góð og rekstur KSK eigna hefur gengið vel á árinu. Tímamót urðu í rekstri KSK í vor þegar hlutur félagsins í Samkaupum var seldur inn í eignarhaldsfélagið Dranga hf. Við það eignaðist KSK 15 % hlut í Dröngum. Drangar eiga jafnframt m.a. Orkuna, Löður og Lyfjaval.  Garðar Newman stjórnarmaður í KSK og fulltrúi félagsins í stjórn Dranga sagði frá uppbyggingu þess og starfsemi. Stefnt er að því að Drangar verði skráð á hlutabréfamarkað árið 2027.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Kaupfélagið er 80 ára í ár, stofnað 13. ágúst 1945. Í tilefni af því flutti Eysteinn Eyjólfsson, varaformaður stjórnar erindi um þessa 80 ára sögu. KSK hefur verið öflugur þátttakandi í atvinnulífi Suðurnesja og komið víða við. Í nýrri stefnu félagsins sem kynnt var á aðalfundi í vor ætlar Kaupfélagið að halda því áfram þótt með öðrum hætti verði en áður.

Það hefur verið venja á haustfundum fulltrúaráðs að veita styrki til góðra málefna á svæðinu og varð engin breyting á því. Að þessu sinni hlaut Velferðarsjóður Suðurnesja eina milljón króna í styrk og veitti Guðbjörg Kristmundsdóttir, stjórnarmaður í sjóðnum, honum viðtöku. Velferðarsjóðurinn styður við efnalitlar barnafjölskyldur á svæðinu, greiðir fyrir skólamat, tómstundir og fleira.

Að loknum hefðbundnum fundi fluttu nemendur úr Tónlistarskóla Reykjanesbæjar nokkur lög en síðan bauð Kaupfélagið fundarmönnum til kvöldverðar.

Dubliner
Dubliner