Hs Orka starf
Hs Orka starf

Viðskipti

Húsfyllir í háhýsi Húsagerðarinnar
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 13. febrúar 2020 kl. 14:42

Húsfyllir í háhýsi Húsagerðarinnar

Dýrustu íbúðir Suðurnesja flugu út. 
„Átti ekki von á þessum viðbrögðum,“ segir Áskell Agnarsson, byggingaverktaki.

„Jú, ég get sagt að það hafi verið húsfyllir í háhýsi. Ég veit ekki nákvæmlega margir komu en það voru mjög margir, mörg hundruð manns. Ég átti alls ekki von á þessu og viðbrögðin voru mjög góð. Það fannst mér ánægjulegt því ég skal ekki neita því að ég var með smá kvíðboga enda verkefnið stórt,“ segir Áskell Agnarsson, eigandi Húsagerðarinnar en fyrirtækið var með sölusýningu í nýju háhýsi þess við Víkurbraut 17 í Keflavík síðasta laugardag. Búið er að ganga frá kaupum á eða festa meira tólf íbúðir af átján í húsinu.

Þúsund manns?

Sólning
Sólning

Einn af nokkrum fasteignasölum sem var á sýningunni sagðist aldrei hafa séð jafn marga mæta á „opið hús“. Þetta hafa örugglega verið þúsund manns,“ sagði hann. Húsagerðin sýndi fullkláraðar íbúðir sem það hefur hafið sölu á. Hér er um að ræða dýrasta fermetraverð sem kynnt hefur verið á Suðurnesjum en íbúðirnar eru afhentar fullkláraðar og eru mjög vandaðar. Um er að ræða alls átján íbúðir á sex hæðum en á efstu hæðinni eru tvær þakíbúðir. Íbúðirnar eru með veglegum innréttingum og gólfefnum ásamt heimilistækjum. Agnar fékk Keflvíkinginn Jón Stefán Einarsson, arkitekt hjá JeES, til að hafa yfirumsjón með innanhússarkitektúr íbúðanna. „Þetta er án efa vönduðustu íbúðir sem við höfum byggt,“ segir Áskell en fyrirtækið vantar tvö ár í hálfrar aldar afmælið. Um er að ræða þriggja og fjögurra herbergja íbúðir, 108, 112 og 132 fermetra að stærð. Við hlið nýja hússins, við Víkurbraut 15, er „systurhús“ sem Húsagerðin byggði fyrir rúmum áratug síðan. Að sögn Áskels eru íbúarnir þar mjög ánægðir og hefur verið lítil hreyfing á þeim.

Mest 52 íbúðir

Áskell stofnaði fyrirtækið árið 1972 ásamt fleirum en er einn eigandi þess í dag. Þegar mest var byggði Húsagerðin 52 íbúðir á ári en það var á tíu ára afmælisári fyrirtækisins, 1982. Hann segir að þeir hafi fengið þessar lóðir við Keflavíkurhöfn fyrir löngu síðan og fyrstu hugmyndirnar hafi verið að byggja þjónustuhús fyrir útgerðina ásamt verslunarrýmum. „Ári eftir að við fengum þær teikningar hætti útgerð nánast í Keflavík. Sem betur fer vorum við ekki byrjaðir á þessum hugmyndum. Við fengum síðan arkitekt sem vann talsvert fyrir Hitaveitu Suðurnesja, Ormar Þór, til að teikna fyrir okkur og þessi hús eru gerð eftir hans teikningum,“ segir Áskell en þegar framkvæmdir voru að hefjast við fyrra háhýsið hafði slökkviliðið áhyggjur af því að eiga ekki tæki sem kæmust svona hátt.

Margar kreppur

Áskell hefur því marga fjöruna sopið á tæpum 50 árum og hann segist hafa upplifað nokkrar kreppur. „Við eigendurnir voru oft launalausir fyrstu árin þannig að eiginkonurnar þurftu oft að sjá fyrir okkur. Það fóru allir peningar í fjárfestingar, við keyptum byggingakrana, steypumót og fleira,“ segir hinn 72 ára gamli byggingaverktaki og hlær og bætir við að oft hafi salan á íbúðum gengið vel. „Fasteignasalarnir Hilmar Pétursson og Bjarni Halldórsson seldu allt sem við byggðum og stundum gátum við ekki selt hraðar en Bjarni gat vélritað samningana, allir gerðir með kalkipappír. Þá voru íbúðirnar oftast afhentar tilbúnar undir tréverk. Unga fólkið fékk þá vini og vandamenn til að hjálpa sér við ýmislegt til að klára. Þetta eru aldeilis breyttir tímar. Nú er þetta allt fullklárað og fólk getur flutt inn. Þá voru kröfurnar hjá bönkunum heldur ekki eins miklar eins og nú er með greiðslumatið.“

Aðrar kröfur í dag

Húsagerðin hefur á tæpri hálfri öld í byggingageiranum verið einn öflugasti aðilinn á Suðurnesjum á sínu sviði. Áskell segist aðspurður að hann sé mjög stoltur af þessum íbúðum sem nú er verið að klára en margt á ferlinum hafi verið skemmtilegt sem hann sé ánægður með. Þar nefnir hann til dæmis fiskimjölsverksmiðjuhús í Helguvík sem var byggt á mettíma en einnig safnaðarheimili Keflavíkurkirkju sem er glæsileg bygging auk fjölda annarra húsa.

Við spyrjum hann í lokin út í breytingar á kröfum kaupenda sem hann segir að hafi breyst mikið. Í háhýsinu við Víkurbraut eru t.d. gluggar með þreföldu gleri en hljóðvist er meðal atriða sem nú er meira hugsað út í en áður. Við hverja íbúð eru líka svalir með opnanlegu gleri, upphituðu gólfi og hitara í lofti sem gerir nýtingarmöguleika miklu meiri en svalirnar eru ekki inni í fermetrafjölda íbúðanna. „Það er ekki leiðinlegt að sitja úti á svölum með góðan kaffibolla og horfa út á sjóinn og höfnina. Það er mjög gaman til dæmis þegar makríllinn kemur, þá er líf og fjör. En það er rétt að kröfurnar eru allt aðrar í dag en verðið er líka miklu hærra út af því. Ég væri alveg til í að byggja ódýrari íbúðir sem væru ekki með öllum þessum lúxus,“ sagði Áskell að lokum.

Fasteignasalarnir Guðlaugur H. Guðlaugsson og Jón Gunnarsson kíktu á sýninguna ásamt mörg hundruð öðrum.

Áskell Agnarsson á tali við einn sýningargesta á svölunum.