Viðskipti

Betur borgandi ferðamönnum að fjölga
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 3. mars 2024 kl. 16:32

Betur borgandi ferðamönnum að fjölga

Vatnsleysustrandarmaðurinn Gísli S. Brynjólfsson stýrir markaðsmálum hjá Icelandair. Áhuginn á auglýsingum og markaðsmálum vaknaði snemma.

„Ísland á helling inni sem ferðamannastaður,“ segir Gísli Brynjólfsson, markaðsstjóri Icelandair, en rætur hans liggja á Vatnsleysuströnd. Hann áttaði sig fljótt á hvert hugur hans myndi stefna hvað varðar starfsferil því hann tók upp auglýsingar í sjónvarpinu þegar hann var krakki. Eftir að hafa sótt sér meiri menntun til Frakklands réði hann sig í starf hjá auglýsingastofunni Hvíta húsinu og stóð má segja á krossgötum þegar hann frétti af því að staða markaðsstjóra Icelandair væri laus. Hann hóf störf um það leyti sem Max-flugvélar fyrirtækisins voru kyrrsettar, fékk svo eitt stykki heimsfaraldur í fangið, þar næst jarðhræringar og eldgos við Grindavík. Hann bíður eftir að fá að prófa að sinna sinni ábyrgðarfullu stöðu á lygnum sjó.

Gísli er fæddur og uppalinn á Vatnsleysuströndinni, á bæ sem heitir Hellur. Hann gekk í Stóru-Vogaskóla, æfði fótbolta með Þrótti Vogum og sá fljótt að hann þurfti ekki að spá í atvinnumennsku. Hins vegar fékk hann fljótlega áhuga á knattspyrnuþjálfun og um tíma stefndi hugur hans til að verða íþróttakennari eða íþróttafræðingur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Ég held að ég sé ennþá sá yngsti til að sækja mér A og B þjálfararéttindi hjá KSÍ, var fjórtán ára gamall og lærði með goðsögnum eins og Rögnu Lóu Stefánsdóttur og Birni Bjartmarz. Ég tók líka dómararéttindi svo ég var á kafi í þessu má segja en eftir að ég hóf nám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og fékk að fara í heimsókn á auglýsingastofuna Hvíta húsið vissi ég nákvæmlega hvað mig langaði til að verða. Ég var á viðskipta- og hagfræðibraut, tók áfanga sem heitir auglýsingasálfræði og í verkefni sem ég átti að vinna tók ég viðtal við framkvæmdastjóra Hvíta hússins á þeim tíma, Gunnar Stein Pálsson, og vissi eftir það upp á hár hvert leið mín myndi liggja. Mér fannst þetta frábært hjá Gunnari, að nenna að taka á móti einhverjum framhaldsskólanema og fræða mig eins mikið og hann gerði en hann talaði við mig í þrjá klukkutíma, þá meina ég að hann talaði og ég hlustaði á hann eins og ég væri steinrunninn. Ég var þarna kominn með mikinn áhuga á auglýsingum og skammast mín ekkert fyrir að viðurkenna að hafa átt sem áhugamál þegar ég var yngri að taka upp auglýsingarnar í sjónvarpinu. Eftir FS fór ég í Tækniskólann, mér fannst markaðsfræðinámið þar praktískara en í Háskólanum, mun sérhæfðara í markaðsfræðum og hentaði mér betur.“

Framhaldsnám í Frakklandi

Gísli útskrifaðist úr Tækniháskólanum og réði sig sem markaðsstjóra hjá fyrirtæki sem heitir Gagnageymslan og var þar í eitt ár. Fór þaðan til Skýrr eins og það hét þá, var bæði sölu- og kynningarstjóri og vann hjá fyrirtækinu í rúm tvö ár. Á þessum tíma var Amor búinn að hitta Gísla í hjartastað, hann og væntanlegur maki, Sigríður Anna Árnadóttir, brugðu undir sig betri fætinum og fóru í nám til Frakklands. „Við Sigríður vorum á sömu línu, vildum víkka sjóndeildarhringinn og prófa nám í útlöndum, enduðum á að velja sama námið, meistaranám í alþjóðaviðskiptum, Master of International Business, í Grenoble Ecole de Management.  Þetta var mjög skemmtilegur tími, við vorum í raun saman 24/7 og töldum að námi loknu að fyrst við gátum verið svona mikið saman, og neistinn ennþá heitur á milli okkar, þá væru okkur allir vegir færir og sú var og er raunin. Í dag erum við gift og eigum þrjú yndisleg börn saman. Við lukum námi áramótin 2003/2004 og komum þá heim. Ég sendi eina litla umsókn á Hvíta húsið og var ráðinn, reyndar hafði fyrrnefndur Gunnar lokið störfum og Halldór Guðmundsson tekið við af honum og réði mig. Ég var titlaður viðskiptastjóri, til útskýringar er það eins og tengill á milli auglýsingahönnuðarins og viðskiptavinarins, ég myndaði teymi sem var eins og lítil auglýsingastofa inni á stórri auglýsingastofu. Þetta starf átti mjög vel við mig og ég fékk tækifæri á að vinna með mörgum af stærstu og flottustu fyrirtækjum landsins og fagfólki sem ég lærði gríðarlega mikið af, eins t.d. Sverri Björnssyni og fyrrnefndum Halldóri. Ég lærði mjög mikið af þeim og öðru samstarfsfólki. Mér er minnisstætt að mér stóð líka til boða starf í markaðsdeild Íslandsbanka, ég hefði getað haft hærri laun þar en í Hvíta húsinu og reyndi auðvitað að nýta mér það í samningaviðræðum við Dóra heitinn. Konan mín var ólétt af elsta barninu okkar á þessum tíma og við þurftum að hugsa um krónur og aura en sem betur fer lét ég hjartað ráða, ég fann hvað ég hefði miklu meiri áhuga á starfinu hjá Hvíta húsinu og átti þar fimmtán frábær ár. Ég fann fljótlega að mér var treyst fyrir stórum verkefnum og viðskiptavinum og stuttu eftir að ég byrjaði bauðst mér að gerast meðeigandi sem ég þáði. Árið 2011 var mér síðan boðið að gerast framkvæmdastjóri og ég sinnti því ásamt stefnumótunarráðgjöf þar til ég hætti. Ég var alls ekki að leita mér að nýju starfi en þegar mér var sagt að Icelandair væri að auglýsa eftir markaðsstjóra árið 2019 fann ég að ef einhvern tíma væri rétti tímapunkturinn að venda mínu kvæði í kross, væri það þarna og þar með upphófst næsti kafli,“ segir Gísli.

Icelandir í ólgusjó

Umsóknarfresturinn vegna nýju stöðunnar hjá Icelandair var útrunninn en Gísli sendi engu að síður inn umsókn. Hann hafði margoft sagt að hann hefði ekki áhuga að skipta um starf nema ef Icelandair væri í boði.

„Það er og verður sennilega stærsta giggið fyrir þann sem vill starfa í markaðsmálum. Vinur minn sem starfaði hjá Icelandair spurði mig hvort ég hefði sótt um en ég hafði ekki séð auglýsinguna þannig að ég svaraði nei, hann hvatti mig til að henda inn umsókn. Ég þurfti að uppfæra ferilskrána þar sem ég hafði ekki sótt um starf í langan tíma og fékk strax svar, var beðinn um að hitta þann sem sá um ferlið hjá Ice-landair degi eftir að ég sendi umsóknina. Ég bað um að þetta yrði mjög leynilegur fundur því ég vildi ekki að það myndi kvisast út að ég hefði sóst eftir starfinu ef ég myndi svo ekki hreppa hnossið. Ég var mjög ánægður í starfinu hjá Hvíta húsinu svo það var mjög þægilegt að fara í þetta atvinnuviðtal, vitandi að ég hefði nákvæmlega engu að tapa. Ég var spurður að því út af hverju framkvæmdastjóri stórrar auglýsingastofu væri að sækja um starf markaðsstjóra Icelandair, fyrirtækis sem væri ekki þekkt fyrir að borga hæstu launin. Ég held að ég hafi skorað hátt með svarinu mínu, ég sagðist ekki vera leita að vinnu, heldur áskorun. Það voru lögð fyrir mig tvö verkefni sem ég leysti og kannski athyglisvert að skipt var um framkvæmdastjóra á meðan á ráðningarferlinu stóð, Birna Ósk Einarsdóttir tók við af Gunnari Má Sigurfinnssyni sem hafði ráðið mig. Ég þurfti þannig séð að sanna mig líka fyrir henni en hún hafði verið með puttana í ráðningarferlinu svo það gekk vel. Ég hóf störf 11. mars árið 2019 og ef ég hafði sagst vera leita að nýrri áskorun, fékk ég heldur betur í andlitið það sem ég óskaði mér! Fljótlega voru Max-vélar Icelandair kyrrsettar, COVID bjó heldur betur til áskoranir og á svipuðum tíma byrjuðu jarðhræringar á Reykjanesi sem enduðu með eldgosi.“

Fyrstu eldgosin reyndust vera spennandi túristagos en atburðirnir síðustu þrjá mánuði, sem hófust 10. nóvember í Grindavík, hafa heldur betur búið til enn nýjar áskoranirnar svo það má segja að Gísli sé búinn að vera í áskorun allar götur síðan hann tók við starfinu.

„Það verður fróðlegt að prófa stýra markaðsmálum Icelandair á tiltölulega lygnum sjó. Af þessu öllu var COVID erfiðasta tímabilið. Ég man þegar enn ein bylgjan skall á í byrjun janúar 2021, ég var einn eftir í lok vinnudags en þá máttum við vera 50 manns á hverri hæð og ég hugsaði með mér; „hvað er ég að gera hérna?,“ ekkert nema svartnætti framundan. Stjórnendur Icelandair stóðu sig mjög vel í þessari krísu, þeir höfðu skilning á að það þyrfti að halda Icelandair vörumerkinu á lofti, það mátti ekki bara slökkva ljósin. Það opnuðust inn á milli gluggar og þá keyrðum við herferðir og náðum þannig að halda Icelandair í umræðunni og við í markaðsdeildinni vissum að um leið og markaðir opnuðust þyrftum við að vera klár og það tókst myndi ég segja. Við nýttum tímann mjög vel, fórum í mikla rannsóknarvinnu og sáum fljótt að áhuginn á Íslandi jókst mjög mikið í COVID, fólk var búið að vera innilokað og þegar það sá hreint Ísland jókst áhuginn á landinu mjög mikið. Það er mikil sérþekking innan veggja Icelandair og eins og ég segi, um leið og heimurinn opnaðist flugum við af stað í bókstaflegri merkingu.“

Bjart framundan

Eftir að heimsfaraldri lauk snemma á árinu 2022 fór allt af stað hjá Icelandair. Allt sem hafði átt að framkvæma á árunum 2020 og 2021 var framkvæmt árið 2022 og Icelandair tókst á loft í orðsins fyllstu merkingu. „Árið 2022 var þrír fyrir einn. Gjörsamlega brjálað að gera og það hefur gengið mjög vel á þessum tíma frá COVID. 2023 var metár hjá Icelandair en það er athyglisvert að sjá hversu viðkvæmur markaðurinn er og minnstu frávik geta haft mikil áhrif, t.d. þegar Reykjanesbrautin lokaði vegna ófærðar rétt fyrir jól 2023 hafði það áhrif á um 25 þúsund farþega og þessu þurfti að redda. Jarðhræringarnar 10. nóvember og eldgosið í kjölfarið höfðu gífurleg áhrif en skv. fréttum erlendis mátti nánast halda að allt Ísland væri að fara til helvítis! Við Íslendingar vissum alveg að þetta hafði ekki áhrif á flugsamgöngur til og frá Íslandi en það er kannski ekki sömu sögu að segja með þann sem er staddur í miðríkjum Bandaríkjanna þegar hann fær þessar hamfarafréttir, þetta hefur að sjálfsögðu áhrif. Bókanirnar hættu í nokkra daga en þeir sem voru búnir að bóka hættu ekkert við, þeir kynntu sér málin og við höfðum samband við þau og komum þeim skilaboðum áleiðis að það væri allt í lagi á Íslandi. Starfsfólk Icelandair er mjög vant að takast á við krísur, það er oft á ári sem við þurfum að berjast við veðurguðina og við erum orðin mjög sjóuð í að takast á við slíkt,“ segir Gísli.

Fréttaflutningurinn af eldgosunum sem áttu sér stað eftir hamfarirnar 10. nóvember hefur verið mun lágstemmdari svo það hefur ekki haft eins mikil áhrif og það sem var í gangi strax eftir 10. nóvember. Ef Gísli fær að ráða hætta eldgosin. „Við þurfum ekki fleiri eldgos til að vekja áhuga á Íslandi, fjarri lagi. Það halda kannski einhverjir að við lítum á þetta sem ókeypis auglýsingu en það er langt í frá og ef ég gæti ýtt á einhvern „off“ takka sem myndi binda enda á þessar jarðhræringar væri ég fljótur að smella á hann. Fyrir utan þá óvissu sem þetta skapar í okkar rekstri þá er það smámál við hliðina á heilu bæjarfélögunum sem eru í hættu. Sem Suðurnesjamanni er sárt að horfa upp á það. Eins þá flækir það aðeins málið ef Bláa lónið er lokað því þetta er langvinsælasti ferðamannastaður Íslands og oft ein af ástæðunum fyrir því að fólk heimsæki landið og þá kannski sérstaklega yfir vetrarmánuðina. Það má því alveg segja að framtíð Bláa lónsins skipti Icelandair máli að vissu leyti.“

Ísland „heitt“

Ísland hefur verið sjóðandi heitur ferðamannastaður undanfarin ár en Gísli vill meina að landið eigi helling inni ennþá. Að tala um of marga ferðamenn á Íslandi er eitthvað sem Gísli þolir ekki en hann gerir sér að sjálfsögðu grein fyrir að sumir staðir eru komnir nálægt þolmörkum hvað varðar átroðning en þá er bara að búa til nýja staði og nýta þá mánuði betur sem hafa hingað til verið minna uppteknir. Talað er um að 1. júní til 15. október sé aðalferðamannatíminn á Íslandi. Hvar sér Gísli annars sóknarfærin í framtíðinni?

„Ísland er og hefur alltaf verið „the land of ice and fire,“ [land elds og jökla], auðvitað vekja þessar náttúruhamfarir mikla athygli á landinu og viðbúið að áhugi ferðafólks á Íslandi aukist í kjölfarið. Þegar þessum ósköpum lýkur, hvenær sem það verður, er ljóst að áhuginn á Íslandi verður ekkert minni og fyrir það þurfum við að vera undirbúin. Sem Suðurnesjamaður og þekkjandi fjölmarga Grindvíkinga þá vona ég að þetta muni ekki raska lífi þeirra meira en nú þegar hefur gerst og að við sjáum Grindavík aftur iðandi af lífi. Útlitið er kannski ekkert alltof gott núna en þegar þetta róast þá gætu alveg verið tækifæri fyrir bæjarfélagið líka, það verður talað um þessa tíma og þessa atburði um ókomin ár. Ég myndi ráðleggja Grindvíkingum að „varðveita“ eitthvað af þessum sprungum og húsum sem hafa skemmst til þess að það sé hægt að sýna hvers konar kraftar voru þarna að verki. Ég held að það geti gert staðinn áhugaverðan, bæði fyrir innlenda og erlenda ferðamenn. Eins gæti ég trúað að golfvöllurinn í Grindavík verði mjög áhugaverður fyrir erlenda kylfinga en hvenær þessu öllu lýkur getur auðvitað enginn sagt til um.“

Milli landa og innanlands

Hver er leiðin fyrir Icelandair að stækka og vaxa?

„Við erum lítið flugfélag í samanburði við stærstu flugfélög heims eins og Delta, Lufthansa og American airlines en þrátt fyrir það er vörumerki Icelandair gríðarlega þekkt úti um allan heim. Við erum í mjög harðri samkeppni en ég veit að við erum að standa okkur vel, við erum að stríða þessum stærstu. Okkar áætlanir hljóða upp á að vera með 70 til 100 vélar árið 2037, í dag erum við með 36 vélar. Við höfum staðið okkur vel í að kortleggja nýja staði, við vinnum mikla rannsóknarvinnu og gott dæmi um það er Raleigh, höfuðborg Norður-Karólínu. Þetta var ekki borg sem Íslendingar voru að spá í að heimsækja en við sáum að tækifæri lágu í flugi þangað því að það var ekki mikið framboð af flugi til Evrópu, fjöldi stórra alþjóðlegra fyrirtækja hefur vaxið hratt á svæðinu með starfsfólk sem þarf að fljúga til Evrópu vegna viðskipta og með því að fljúga með okkur þá erum við að stytta ferðatímann og bjóða upp á fjölmargar, einfaldari tengingar í gegnum Keflavíkurflugvöll. Við viljum líka meina að það sé mun meira spennandi fyrir þessa farþega að stoppa á Íslandi en í annarri borg í Bandaríkjunum og oftar en ekki stoppa þessir farþegar þá í nokkra daga og skoða Ísland. Ég held að Íslendingar muni líka kveikja á þessari fallegu borg með tíð og tíma, þarna munu íslenskir kylfingar t.d. geta unað sér vel en urmull frábærra golfvalla er þarna allt í kring,“ segir Gísli.

Innanlandsflugið undir sama hatt

Eitt af því sem Gísli tók þátt í að breyta þegar hann hóf störf, var að hafa innanlandsflugið undir sama hatti og millilandaflugið en fram til ársins 2021 hafði innanlandsdeildin verið rekin undir merkjum Air Iceland connect. „Ég tel að þetta sé mun betra og það hefur sýnt sig, innanlandsflugið hefur vaxið síðan. Það er miklu einfaldara fyrir útlendinginn að bóka sig á Akureyri t.d. og geta gert það allt í sömu bókuninni. Þetta er hluti af því sem við í markaðsdeildinni höfum komið að en við erum í raun með puttana í öllu starfi Icelandair, hvort sem er fraktflutningar, leiguverkefni í gegnum Loftleiðir o.s.frv. Það gerir starfið spennandi, fjölbreytt verkefni sem við þurfum að kljást við. Það er margt sem bendir til að komum hins svokallaða betur borgandi ferðamanns muni fjölga mikið í framtíðinni, við því þurfum við að vera viðbúin. Í mínum huga er það einföld staðreynd, Ísland á bara eftir að vaxa og stækka sem ferðamannastaður í framtíðinni og ég hlakka mikið til að taka þátt í því sem markaðsstjóri Icelandair,“ sagði Gísli að lokum.