Nýsprautun flutt
Nýsprautun flutt

Pistlar

Vitur eftir á!
Föstudagur 10. nóvember 2023 kl. 06:01

Vitur eftir á!

Enn ein jarðskjálftahrynan dynur nú á Suðurnesjamönnum. Gísli handboltadómari og æðsti prestur Húsasmiðjunnar á svæðinu hefur vart undan að panta inn olíuofna til húshitunar því loksins eru eru Suðurnesjamenn að vakna. Eldgos eru ekkert grín. Þótt við höfum fengið þrjú gos okkur til viðvörunar, þá eyddum við meiri tíma í að staðasetja bílastæði fyrir túrista og rífast um hvort ætti að greiða fyrir stæðin eður ei, en að stilla saman strengi um hvað ætti að gera ef næsta gos kæmi upp á óhentugum stað.

En nú er stundin runnin upp. Við getum tapað virkjuninni í Svartsengi og Bláa lóninu, einum stærsta og arðbærasta ferðamannastað landsins, sem veitir hundruðum Suðurnesjamanna lífsviðurværi. Svo ekki sé minnst á bæjarfélagið Grindavík eins og það leggur sig. Verði sprengigos þýðir það hugsanlega að flugvöllurinn þurfti að loka í ótilgreindan tíma.

Því miður virðist staðan vera sú að þeir aðilar sem hafa með þessi mál að gera eru með allt niðrum sig. Hvar eru sviðsmyndirnar? Hvað á að gera ef öll Suðurnesin verða rafmagns- og hitalaus um hávetur? Hvernig á að verja Grindavík?

Nú keppast fræðimenn við að koma með hinar verstu sviðsmyndir en allir eiga það sameiginlegt að vera að því á síðustu stundu og eingöngu til að fá sviðsljósið.

Sjálfur vísa í í lokaorð mín frá því í lok maí 2022:

Innviðir

Ég hef fylgst spenntur með jarðhræringum á Reykjanesskaga undanfarnar vikur. Mér finnst ráðamenn á Suðurnesjum furðu rólegir yfir þessu öllu saman.

Ef það færi nú að gjósa einhversstaðar verulega nærri Grindavíkurbæ eða Bláa Lóninu. Hvað ætlum við þá að gera?

Eru til einhverjar áætlanir ef hraun fer að renna yfir Grindavík eða orkuverið í Svarsengi? Hvernig verður með heitt vatn og rafmagn fyrir íbúa Suðurnesja? Verða Grindvíkingar flóttamenn í eigin landi fari hýbýli þeirra undir hraun?

Ég reyni að fylgjast vel með en hef kannski misst af allri umræðu um hvernig eigi að bregðast við komi upp eldgos á versta stað.

Eða á að bregðast við þessari vá eins og öðrum íslenskum vandamálum. Þetta reddast bara. En kannski reddast þetta ekki. Hvað ætla nýkjörnir ráðamenn að gera þá?

Spurningunni hefur allavega verið varpað fram hér í Víkurfréttum.