Lífsmottó að vinna fyrir klúbbinn
Lenti í slysi nítján ára og breyttist í þjálfara
Agnar Mar Gunnarsson er eitt kunnasta andlit Njarðvíkurkörfunnar – þó að hann hafi sjálfur aldrei fengið að klára þann leikmannsferil sem margir sáu fyrir sér. Slys á unglingsaldri breytti öllu, en í staðinn fékk Njarðvík þjálfara, barnakarl og félagsmann sem hefur í áratugi unnið endalausa sjálfboðavinnu fyrir félagið. Við settumst niður með Agnari og ræddum barnaþjálfun, skólakerfið, fyrirhugaðan háskólaferil dóttur hans, Huldu Maríu, og hvernig hann sér framtíð Njarðvíkur í heimi þar sem erlendir leikmenn skipa stór hlutverk í íslenskum körfuknattleik.
„Gjörsamlega grænn Njarðvíkingur.“
Byrjum á byrjuninni, hver er Agnar Mar Gunnarsson?
„Ég er gjörsamlega grænn í gegn og algjör Njarðvíkingur, fæddur og uppalinn. Ég kem úr stórri Njarðvíkurfjölskyldu þar sem körfubolti var mjög fyrirferðarmikill. Mamma mín, Hulda, er úr sjö systkina hópi, Stulli, Teitur, Gunni, Krissa, Stebbi og Magga. Þetta er alvöru Njarðvíkurklanið og ef einhver er ekki búinn að kveikja, þá eru þetta Örlygsbörn,“ segir hann og brosir.
Hann ólst upp við körfubolta og íþróttahúsalykt, eins og hann orðar það. Barnaskólinn var Njarðvíkurskóli, svo fluttist fjölskyldan tímabundið til Bandaríkjanna þar sem foreldrarnir fóru í nám, en þegar heim var komið tók Njarðvík strax aftur við.
„Maður man varla eftir sér annars staðar en í íþróttahúsinu, annaðhvort á æfingu eða hlaupandi með brúsa eða blað í hendinni,“ segir hann.
Efnilegur í bæði fótbolta og körfu – þar til allt breyttist
Agnar var efnilegur bæði í fótbolta og körfubolta. Hann æfði körfubolta og var markmaður í fótbolta.
„Ég var kominn á meistaraflokksæfingar í fótbolta um 15 – 16 ára aldur,“ rifjar hann upp og í körfunni fórum við nokkrir strákar úr Njarðvík yfir til Reynis í Sandgerði og spiluðum í fyrstu deild.
En ferillinn tók skyndilega enda.
„Ég lenti í slysi 19 ára gamall. Við vorum að þrífa sótið af þakinu á Fiskmarkaði Suðurnesja eftir eld. Ég fer upp til að losa líflínuna, tek eitt rassaskref, renn niður 12 metra af þakinu og skutlast út af skyggninu og dett sex–sjö metra niður. Nánast eins og af þriðju hæð.“
Hann lenti á fótunum og fótbrotnaði illa.
„Ég tí-fótbrotnaði. Var rúmliggjandi í tvær til þrjár vikur og þurfti að fara í aðgerð á þriðja eða fjórða degi eftir að sérfræðingarnir voru búnir að skoða hvernig þeir gætu púslað fætinum á mér aftur saman. Læknirinn sagði mér fljótlega eftir það: „Þú getur bara gleymt íþróttum.“ Ég hef í raun ekki hlaupið í 25 ár. Ég er enn smá haltur, með pinna í fætinum sem halda þessu saman,“ segir hann.
„Það var ekkert í boði að setjast niður og grenja.“
Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að átta sig á að svona skilaboð eru gríðarlegt högg fyrir 19 ára íþróttastrák. Agnar viðurkennir að þetta hafi verið þungt en hann ákvað fljótt að horfa fram á veginn.
„Þetta var rosalegt högg fyrir alla fjölskylduna. En lífið er bara eins og það er. Það var ekki boðið upp á að setjast niður og grenja. Maður breytti bara um fókus,“ segir hann.
Þaðan fór hann smám saman að færa sig yfir í önnur hlutverk í kringum íþróttir: þjálfun, tölfræði, ritaraborð, stjórnir og alls kyns sjálfboðastörf innan félagsins.
„Ég hef prófað flest störf í kringum körfuboltann. Ég er mikill barnakarl og á auðvelt með að ná til krakka, bæði í skólanum og á æfingum.“
Boltaskólinn: Líf og fjör fyrir þau yngstu
Agnar og eiginkona hans Svava, sem er aðstoðarleikskólastjóri, stjórna saman boltaskóla fyrir öll yngstu börnin.
„Við byrjuðum með boltaskólann fyrir rúmum 15 árum. Hann er fyrir 18 mánaða til fjögurra ára. Þetta er ekkert endilega „körfuboltaskóli“, heldur íþróttaskóli þar sem leikur og gleði er við Völu.
Þar kynnast þau íþróttahúsinu á jákvæðan hátt, læra að hoppa, klifra, kasta og grípa, byggja upp sjálfstraust og líkamsvitund,“ útskýrir Agnar.
Þau hafa sameinað leikskólafræði konunnar og íþróttareynslu Agnars.
„Það þarf varla að orðlengja það, það er uppselt á nánast hvert einasta námskeið,“ bætir hann við.
Þjálfunin miklu betri – en aginn verri
Agnar hefur þjálfað alla flokka í gegnum tíðina, bæði drengi og stúlkur. Hann segir þjálfun í dag á allt öðru plani en þegar hann byrjaði.
„Þjálfunin í dag er miklu betri, frá sex ára aldri og alveg upp í meistaraflokk, æfingar eru betur skipulagðar, meiri þekking er til staðar, og krakkarnir eru einfaldlega betri tæknilega en fyrir 20 árum. Það er bara staðreynd,“ segir hann.
En ekki er allt í nútímanum betra að hans mati.
„Skólakerfið og aginn gagnvart fullorðnum er eitthvað sem ég hef áhyggjur af. Ég öfunda ekki kennara í dag. Krakkar tala öðruvísi við starfsfólk, það er minna um sjálfsagða virðingu. Á „okkar tíma“ var bara sagt: þú berð virðingu fyrir fullorðnum, sérstaklega kennurum.“
Agnar telur að hluti vandans tengist því hvernig krakkar verja tímanum.
„Krakkar eru með símann upp í andlitinu allan daginn og horfa á alls konar efni sem þau eiga ekkert endilega að vera að horfa á. Áður fyrr var sjónvarp kannski tvisvar–þrisvar í viku, annars vorum við úti að leika okkur,“ segir hann.
Hann er harður á því að símar eigi ekki heima í skólastofum.
„Ég myndi bara banna símana í skólum. Þó að miðjubarnið mitt fari með símann í skólann vona ég að þegar sá yngsti fari á elsta stig í grunnskólanum að við sameinumst um að geyma þá heima. Ef eitthvað kemur upp á, þá hringir skólinn.
Skóli og íþróttir að vinna saman?
Agnar hefur einnig horft mikið til Bandaríkjanna, þar sem þau bjuggu um tíma og þar sem dóttir hans stefnir nú á háskólabolta.
„Úti vinna skóli og íþróttir mjög mikið saman. Ef þú stendur þig ekki í skólanum þá mætirðu ekki á æfingar. Ef þú elskar fótbolta eða körfu og veist að slæmt gengi í skóla þýðir að þú missir af æfingum, þá verður skólinn skyndilega miklu mikilvægari,“ segir hann.
Slíkt kerfi gæti að hans mati vakið marga upp hér á landi, þó að aðlaga þurfi að íslenskum aðstæðum.
Hulda María – frá fimleikum í meistaraflokk og út í heim
Elsta barn hans, Hulda María, er þegar orðin eitt stærsta efni kvennaboltans á Íslandi. Hún var áður frábær í fimleikum og var talin ein efnilegasta fimleikastelpa landsins áður en hún sneri sér alfarið að körfubolta.
„Styrkurinn sem hún fékk úr fimleikum skilaði sér beint í körfuna. Hún var mun sterkari en jafnaldrar sínir þegar hún byrjaði aftur,“ segir Agnar.
Síðustu ár hafa hins vegar verið bæði upp og niður, þar sem hún m.a. sleit aftara krossbandið.
„Hún sleit aftara krossband í æfingalandsleik. Það er galið að hún spilaði sex landsleiki eftir meiðslin áður en við vissum hvað var að. Þegar við komum heim úr EM-U16 pantaði ég sneiðmynd og þá kom slitið í ljós. Svo kom hún ótrúlega sterkt til baka.“
Hann hrósar sérstaklega einkaþjálfaranum Gunna Einars.
„Hann á stóran part í því að hún sé á gólfinu í dag. Hún var hjá honum allt að fjórum sinnum í viku í byrjun og er enn að gera frábærar styrktaræfingar hjá honum.“
Tilboð frá toppskólum í Bandaríkjunum
Hulda María er nú komin með fjölda tilboða frá bandarískum háskólum.
„Hún er í símanum nokkrum sinnum í viku á Teams- og símafundi með þjálfurum. Hún er komin með tólf formleg tilboð og ég held að um 70 skólar hafi haft samband,“ segir Agnar.
„Þetta eru að mestu leyti öflugir skólar í D1 í bandaríska kvennakörfuboltanum. Við höfum skoðað UCLA, Cal Berkeley og Pepperdine í Kaliforníu, og svo skóla eins og Iowa State, North Carolina og Minnesota. Þá erum við að tala um skólagjöld upp á hundruð þúsunda dollara. Það er peningur sem þú myndir aldrei geta borgað sjálfur,“ segir hann.
Námið skiptir þó ekki minna máli en boltinn.
„Í dag langar hana að læra innanhússhönnun. Það getur breyst, en við erum að horfa á heildarpakkann: námið, körfuna, staðsetninguna, og svo það að hún fái alvöru hlutverk inni á vellinum. Það er ekkert gaman að vera í risaskóla og sitja bara á bekknum í fjögur ár.“
Svo er hún auðvitað frábær fyrirmynd fyrir yngri bræður sína, Stefán Loga og Gunnar Loga sem stefna langt í íþróttum eins og margir í fjölskyldunni.
Svava Ósk, konan mín, er margfaldur Íslandsmeistari og fyrrverandi landsliðskona í körfubolta þannig að börnin hafa þetta í blóðinu,“ segir Agnar og brosir.
Erlendu leikmennirnir – „engan veginn sjálfbært“
Við snúum okkur að íslenska körfuboltanum og fjölda erlendra leikmanna í dag. Agnar er ekki sannfærður.
„Mér finnst þetta orðið of mikið, bæði hjá körlum og konum. Þegar lið eru með fjóra erlenda leikmenn sem gera 90% af statinu, þá er lítið pláss eftir fyrir íslenska leikmenn,“ segir hann.
Hann bendir á að það sé líka kominn „hellingur af lélegum útlendingum“.
„Þeir eru oft ekki betri en heimamenn en fá samt hlutverk bara af því að þeim er borgað. Þá verður þrýstingur á að spila þeim, því þetta er „atvinnumaðurinn“ í liðinu.“
Spurt hvort þetta sé sjálfbært fyrir íslensk félög hristir hann höfuðið.
„Nei, engan veginn. Við erum ekki í atvinnumannadeild, en samt eru félög að eyða tugum og hundruðum milljóna. Sjálfboðaliðar eru að safna dósum og styrkjum og vinna baki brotnu til þess að halda deildunum gangandi.
Sjálfboðaliðarnir – „fólkið sem gerir Njarðvík að Njarðvík“
Ef eitthvað er, þá er það sjálfboðaliðastarfið sem Agnar talar mest af hlýju um.
„Ég mun alltaf reyna að gefa af mér tíma fyrir fánann, hvort sem það er stjórn, ritaraborð, miðasala eða hvaða verkefni sem þarf að sinna.”
Hann leggur áherslu á mikilvægi sjálfboðaliðanna sem halda starfinu gangandi á leikdögum, bæði fyrir og eftir leiki, en að hans mati fá þeir alltof sjaldan þá viðurkenningu sem þeir eiga skilið.
„Þetta er fólkið sem á stærsta klappið skilið. Þau sem sinna miðasölu, sjá um veitingar, setja upp auglýsingaskilti og ganga frá eftir leiki. Ef þessi hópur myndi hætta væri einfaldlega hægt að slökkva ljósin og þá væri enginn Njarðvíkurkörfubolti.“
Hann reynir að fá nýtt fólk inn reglulega, meðal annars með færslum á stuðningsmannasíðunni á Facebook. Stundum bætist einn og einn í hópinn en kjarninn er oftar en ekki sá sami.
„Ég sé mig enn í sama húsi, í sama salnum“
Þegar við spyrjum hvar Agnar sjái sig eftir svona þrjú ár kemur svarið hratt.
„Ég segi alltaf: Ég sé mig á sama stað. Ég sé mig áfram þjálfa, vinna með börnum og fyrir klúbbinn. Nema maður vinni í lottóinu og flytji til Spánar að spila golf,“ segir hann og hlær.
Þangað til ætlar hann að halda áfram að byggja upp Njarðvík fyrir næstu kynslóðir.
Mitt lífsmottó er að vinna fyrir klúbbinn og krakkana í Njarðvík,“ sagði Agnar að lokum.







