Palóma
Palóma

Mannlíf

Draumurinn að opna bakarí heima
Miðvikudagur 24. desember 2025 kl. 12:45

Draumurinn að opna bakarí heima

„Jú, það er ennþá draumur að opna bakarí heima á Íslandi og kannski bara í mínum yndislega heimabæ, Keflavík, en þetta er búið að vera viðburðaríkt líf hjá mér undanfarin ár, mjög skemmtilegt en líka áskorun oft á tíðum,“ segir Elenóra Rós Georgesdóttir, bakari eða bakarastelpa úr Keflavík, en hún hefur undanfarin þrjú ár elt ævintýrin í stórborginni London og bakað ofan í gesti og gangandi í vel þekktum bakaríum. Nú vaknar hún um miðja nótt, hjólar í tíu mínútur og er komin í bakaríið og kaffihúsið Söderberg í austur Dulwich, í suðaustur London. Þar bakar hún og stjórnar bakstri í einu af tveimur bakaríum skandinavísku keðjunnar í stórborginni en keðjan rekur einnig sjö bakarí í Skotlandi.

akarastelpan úr Keflavík var bara 17 ára þegar Víkurfréttir útnefndu hana „Mann ársins á Suðurnesjum“ í ársbyrjun 2018. Hún var þá í námi í Menntaskólanum í Kópavogi og vann samhliða í hinu þekkta Sandholt bakaríi í Reykjavík. Sem barn og unglingur hafði hún nýtt sér frábæra þjónustu á Barnaspítala Hringsins og til að sýna þakklæti sitt notaði hún mikið af frítíma sínum árið 2017 til að baka og selja bakkelsið til styrktar spítalanum. Þegar Víkurfréttaliðið mætti heim til foreldra hennar í Reykjanesbæ í janúarbyrjun 2018 komum við henni á óvart þegar hún var beðin um að setja nafn „Manns ársins“ á köku sem við höfðum pantað hjá henni. Hún vissi auðvitað ekki að við værum að fara að útnefna hana. Það kom henni því í opna skjöldu þegar við báðum hana um að setja nafnið sitt á kökuna.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Síðan eru liðin sjö ár og þau hafa verið viðburðarík hjá Elenoru. „Jú, það er rétt. Ég hefði ekki getað ímyndað mér að ég væri tvöfaldur metsölubókahöfundur, búin að vinna í nokkrum af flottustu bakaríunum í London og búin að búa til mína eigin súkkulaðilínu með elsta súkkulaðifyrirtæki Íslands.“

Fljótt í sviðsljósið

Það er hægt að segja að þegar unga konan var útnefnd „Maður ársins á Suðurnesjum“ hafi hún fyrst komið fram í sviðsljósið af alvöru en það sviðsljós stækkaði á næstu árum Hún lauk bakaranáminu 2021, fékk tvenn verðlaun á námstímanum og var á samningi hjá Bláa lóninu. Auk þess starfaði hún á þeim tíma hjá bakaríinu Deigi. Á fyrsta Covid-árinu, 2020, gaf hún út bókina Bakað með Elenoru Rós sem fékk glimrandi móttökur og var ein af mest seldum bókum ársins. Hún bætti við annarri bók tveimur árum síðar, sem hún byggði m.a. upp á eldri köku- og tertuuppskriftum úr uppskriftabók móður hennar, Ragnhildar Ævarsdóttur. Bakstursáhuginn þeirrar stuttu kviknaði í eldhúsinu þegar mamma hennar var að baka þegar stelpan var ung að árum. Seinni bókin gekk líka mjög vel. Elenora var orðinn metsöluhöfundur.

Hugurinn reikaði til útlanda og ekki liðu mörg ár þangað til hún var komin þangað en það gerðist í mars 2023, tuttugu og þriggja ára. Til höfuðborgar Englands, þar sem hlutirnir gerast og það mjög oft hratt.

„Þetta er þriðja bakaríið sem ég starfa í hér í London en ég byrjaði hjá Buns From Home sem er mjög þekkt og orðin stór keðja í London. Ég mætti reglulega í bakaríið í ferðum mínum til borgarinnar og var að spjalla við bakarana en ég þekkti einn starfsmann þess. Svo sótti ég um í rælni og viti menn, ég var ráðinn og í mun hærri stöðu en ég reiknaði með. Áður en ég vissi af var ég farinn að stjórna hjá þeim og sá m.a. um að opna ný bakarí þegar fyrirtækið fór að stækka við sig og fjölga stöðum í borginni, alveg hreint ótrúlegt. Á tveimur árum voru bakaríin orðin tuttugu talsins í stórborginni og keðjan orðin mjög stór og þekkt.

Þetta var mjög magnaður og skemmtilegur tími og mikil reynsla en mig langaði líka að spreyta mig annars staðar. Næst lá leið mín í Fortitude sem er stórt heildsölubakarí og framleiðir mikið af þekktum klassískum vörum. Þegar ég var búinn að vera þar í smá tíma fékk ég óvænt tilboð frá eigendum sænsku keðjunnar Söderberg um að vinna fyrir hana. Þar hef ég verið síðustu mánuði og er mjög ánægð. Þetta er meira svona hverfisbakarí en þar er jafnframt mjög vinsælt kaffihús þar sem hægt er að fá kaffi, kökur og bröns-rétti, að ógleymdum sænsku kjötbollunum. Þetta er jú sænskt bakarí. Á kvöldin breytist það í pítsustað. Við græjum deigið að deginum til í bakaríinu. Hér eru margir fastakúnnar sem er aðeins öðruvísi en í hinum bakaríunum sem ég starfaði í hér í stórborginni - sem eru meiri túristabakarí.“

Bretar elska croissant

Ritstjóri Víkurfrétta heimsótti Bakaranoru, eins og hún er oft kölluð, til Lundúna í nóvember. Þegar inn í Söderberg-bakaríið var komið var okkar unga kona að hamast fyrir innan glerið með hendur á fullu í bakkelsi, nánar tiltekið croissanti.

„Bretar elska croissant enda er það gott, gert úr góðu smjöri og súru deigi. Það er ekki of sætt og ekki þungt í maga. Það er bara einhvern veginn svo gott að grípa í þetta og hægt að bjóða það fram á fjölbreyttan hátt. En… það er trix að gera gott croissant,“ segir Elenora og brosir og er ekki lengi að svara þegar hún er spurð hvernig hún vilji hafa sitt croissant. „Ha..ha.. Ég er í einföldu línunni og finnst það best með skinku og osti.“

Við fylgjumst áfram með Bakaranoru á fullu í framleiðslu á meðan myndavélin er á henni inni í bakaríinu (og þetta munu lesendur sjá í sjónvarpsviðtalinu). „Nú er ég að græja mjög þekkt franskt fyrirbæri sem heitir Kouign-amann og er eitthvað sem ég hafði ekki séð áður á Íslandi fyrr en ég kom hingað. En þetta er sem sagt í rauninni venjulegt sérbakað vínarbrauðsdeig sem er, í staðinn fyrir að setja bara smjör inn í það eins og í venjulegu vínarbrauðsdeigi þá erum við að græja salt og sykur inn í það líka. Svo bökum við það upp úr kanilsykri og þetta er alveg svakalega vinsælt hér, allavega hjá okkur. Við erum að selja ekkert smá mikið af þessu á hverjum einasta degi. Þannig að það er mjög mikið af svona franskri hefð, sem er mjög rík, finnst mér, hérna úti í Bretlandi. Mjög mikið af alls konar svona frönsku bakkelsi sem er mjög vinsælt hérna.“

Mikil þróun í bakstri

Eru Íslendingar svolítið fastir í gömlum hefðum, vínarbrauðslengju og snúðum?

„Já, við elskum gömlu vínarbrauðslengjurnar, grófu gömlu klassíkina. Þegar ég kem heim fæ ég mér oft eitthvað slíkt, t.d. kúmenkringlu og kakó. Ekki má gleyma kleinunni eða flatkökunni með hangikjöti,“ segir okkar dama og hlær en bætir við: „Mér finnst einhvern veginn hér í London alltaf verið að þróa eitthvað nýtt.“

En hvernig hefur Bakaranora þróast í greininni og lært af vinnunni í þessum fínu bakaríum?

„Maður er búinn að læra ansi margt þó að árin séu ekki mörg, en þó nokkur. Ég er búin að sanka að mér alls konar fróðleik, kynnast mörgu fólki, heima og í útlöndum, t.d. í Köben og á Ítalíu. Einn vinur minn vinnur í bakaríi sem heitir Lille og er í Köben. Hann er svakalegur brauðnörd og þegar ég kom hingað í þetta bakarí var ég aðeins að flækjast með brauðin hérna. Svo ég ákvað að hringja í hann og spyrja hann. Hann gaf mér góð ráð og allt í einu eru nýju brauðin farin að rokseljast. Það er gott að eiga góða tengiliði sem maður getur fengið ráð frá.“

Bolludagurinn ómissandi á Íslandi

Elenora hefur síðustu þrjú ár komið heim í kringum bolludaginn og verið með „pop-up“ bollusölu. „Síðasta vetur toppaði ég mig algjörlega en ég hef komið heim undanfarin þrjú ár og verið með „pop-up“. Mig langaði að bjóða upp á eitthvað nýtt. Ég var til dæmis ekki með klassískar sulturjóma-glassúrsbollur, heldur einhverjar svaka fyllingar sem ég var búin að fá hugmyndir frá héðan úti, öðruvísi en við erum vön heima og það gekk mjög vel. En svo var ég með bollu sem ég kallaði Íslendinginn, sem átti að vera svona mín útgáfa af þessum klassísku bollum sem ég elska umfram allt. Þá var ég með kardimommumjólk og heimagerða sultu, dýfða ofan í súkkulaði í staðinn fyrir súkkulaðiglassúr, og hún seldist blússandi fyrst af öllum tegundunum sem ég gerði. Þótt ég hafi haft allar þessar spennandi hugmyndir og þær voru allar mjög vinsælar og það seldist allt upp - var það samt þessi klassíska sem seldist fyrst. Það fannst mér áhugavert.

En hver er hugmyndin á bakvið þessa bolluheimsókn til Íslands?

„Mér finnst það bara gaman. Ég græði ekki neitt á þessu, sko. Ég er yfirleitt í mínus þegar það er búið að borga fyrir flugið og allt saman en ég get bara ekki hugsað mér að sleppa bolludeginum heima. Þetta er svona íslensk hefð sem er bara ómissandi, finnst mér, sérstaklega fyrir bakara. Þetta er bara besti dagur í heimi. Þannig að ég, já, mér finnst gaman að koma heim og gera eitthvað fyrir fólkið heima. Af því, þú veist, ég er ennþá að fá þvílíkan stuðning og meðbyr frá öllum heima. Mér finnst bara ótrúlega gaman að koma heim, hitta alla og spjalla við alla á meðan. Það er bara algjör stemning.“

Hvað segir svo metsöluhöfundurinn Elenora Rós?

„Þetta var Covid-verkefni. Það voru náttúrulega allir að baka súrdeig í faraldrinum, Bretar elska súrdeig, borða nánast ekkert hvítt brauð. Ég var sjálf að baka súrdeig á samfélagsmiðlunum mínum í Covid og Edda útgáfufyrirtæki hefur samband við mig að fyrra bragði og þau sögðu: „Heyrðu, þetta gæti verið algjör negla akkúrat núna þegar allir eru bara heima hjá sér og hafa í rauninni ekkert mikið annað að gera. Og mig hafði lengi dreymt um að gera eitthvað svona en sá kannski ekki fyrir mér að vera nítján ára að skrifa bók.

Þau boðuðu mig á fund og mér fannst þetta fáránlega spennandi og þau spyrja bara: „Heyrðu, þú bara tekur allar myndir sjálf og svona, er það ekki?“ og mig langaði svo svakalega í þetta og samþykkti. Ég fann mér einhverja myndavél og leitaði mér svo ráða hjá ljósmyndara sem ég þekkti heima á Íslandi, bað hann um að lána mér einhverjar græjur og svoleiðis, sem hann og gerði. Las mig til um ljósmyndun á netinu. Dagsbirtan var besta vinkona mín í myndatökunum, mamma var sveitt að vaska upp eftir mig í eldhúsinu heima, þannig að úr varð skemmtilegt verkefni í Covid.

Viðtökurnar fóru fram úr öllum vonum og bakarastelpan úr Keflavík var orðin metsöluhöfundur, græddi fullt af peningum sem komu sér vel í kaupum á fyrstu íbúðinni.

„Bókin seldist upp á á viku hjá útgáfunni og ég var í 2. sæti á eftir Arnaldi,“ segir Elenora og hlær.

Tveimur árum síðar kom önnur bók hjá okkar konu. Þar kom mamma aftur við sögu.

„Þetta var meira upp úr uppskriftabókinni hennar mömmu. Það voru gamlar góðar brauðtertur í henni og svo var kafli sem hét Ísland. Þar voru íslenskar pönnukökur, lagterta og kleinur og alls konar kökur, tertur og marens og svona, meira svona gamaldags íslenskt sem við elskum öll. Hún varð líka mjög vinsæl en forsíður bókanna voru ekki eins, önnur meira svört en hin meira bleik, blóm og glimmer. Mér fannst það flott.“

Samstarf við Freyju

Elenora hefur ekki bara gefið út tvær metsölubækur, það er ekki langt síðan Súkkulaðigerðin Freyja fékk hana í samstarf.

„Ég er búin að vera að baka með Freyju súkkulaði mjög lengi. Mamma var oft með gömlu góðu dropana frá þeim og þau vissu af því eftir að hafa séð það á samfélagsmiðlunum mínum. Þau höfðu samband við mig fyrir þremur árum síðan og sögðust vera að fara í að búa til baksturslínu fyrir Freyju og vantaði einhvern til að koma inn í það með sér, gera uppskriftir aftan á pakkningarnar og svona. Það var algjör heiður að fá þetta boð en ég sem sagt, hannaði allar uppskriftir aftan á nýju umbúðirnar þeirra, tók allar myndir sem eru framan á umbúðunum líka og svo erum við í föstu samstarfi þar sem ég geri mánaðarlegar uppskriftir fyrir þau. Við erum við núna þriðju jólin í röð að gefa út uppskriftabækling eftir mig með margvíslegum alls konar uppskriftum þar sem ég bæði mynda uppskriftirnar, bý þær til og sé um eiginlega allt bara frá A til Ö.

Þetta hlýtur að vera skemmtilegt en hvenær í sólarhringnum ertu að gera þetta?

Okkar kona brosir en svarar svo að bragði: Umm…. á frídögunum mínum. Ég er einmitt að fara heim núna til að græja einhverja jólauppskrift fyrir þau.

Við vorum að gefa út bæklingana okkar í vikunni með 10 glænýjum, mjög spennandi uppskriftum. Svolítið svona klassískum í ár, klassískum sörum, heitu súkkulaði, súkkulaðibitakökum, bara því sem við elskum öll yfir jólin. Svo er hátíðarís og áramótaeftirréttur. Það er svona það sem ég ákvað að láta duga svolítið í ár af því að við erum búin að gefa út nýjar vörur síðustu tvö ár, en við ætluðum svolítið að leyfa vörunum sem við erum búin að gefa út að njóta sín í ár og einblína frekar á þær uppskriftirnar.

Hvernig gengur svo lífið í stórborginni?

„Upp og niður. Það er alveg krefjandi að koma ein út og þetta er ofboðslega stór borg og mikill hraði, miklu, miklu meiri heldur en heima og þá sérstaklega í Keflavík. Og ég fór beint í stórt starf með mikla ábyrgð og það er rosaleg pressa í bransanum hérna. Lífið hér er svolítið öðruvísi. Það er engin rótgróin einhvern veginn neins staðar og þegar til dæmis fyrsti eigandinn á bakaríinu sem ég vann hjá seldi bakaríið, þá vorum við bara öll látin fara líka. Ég lenti í smá vandræðum í húsnæðismálunum. Ég var búin að vera hér í ár í algjörri draumaíbúð í frábæru hverfi þegar leigusalinn minn sagði að hann væri að láta íbúðina fara. Ég stóð bara uppi húsnæðislaus en svo reddaðist það.

Það er allt rosalega hratt hérna og, og það er alveg búið að taka svolítið á, en að mestu leyti þá er þetta búið að vera ofboðslega skemmtilegt. Ég er búin að þurfa að læra rosalega mikið inn á lífið allt upp á nýtt. Ég er í svo miklum bómull heima á Íslandi. Ég er bara mjög heppin með fjölskylduna mína heima og stuðninginn og ég kem bara úr mikilli forréttindastöðu þar og búin að fá alls konar tækifæri. Hér er búið að vera aðeins meira hark heldur en ég var í áður en ég kom hingað. Þannig að það er búið að vera mikill lærdómur að koma hingað út, mjög þroskandi.“

Heilsan mikilvæg

Þegar VF valdi Elenoru „Mann ársins á Suðurnesjum“ fyrir sjö árum, hafði hún bakað mikið til styrktar Barnaspítala Hringsins því hún hafði þurft að leita þangað oft sem barn og unglingur. Hún segir að hún þurfi að huga að heilsunni.

„Fyrir þremur árum var ég búin að vera í fríi í Köben og hneig niður á flugvellinum án nokkurs fyrirvara og þá byrjaði svolítið hjartavesen hjá mér. Það voru mikil viðbrigði þegar hjartað fer allt í einu að gefa sig. Ég er búin að fara í þrjár aðgerðir á hjartanu, að láta aðeins lagfæra það hér og þar. En ég er líka bara að læra svolítið að hægja á mér. Það er ekki alltaf hægt að ganga bara fram af sér, vinna og vinna og afreka og afreka og búast við því að líkaminn sé alltaf í sama standi, sérstaklega af því að ég er ekki alveg í toppstandi. Ég fæddist veikburða og er búin að vera svolítið að kljást við veikindi í gegnum tíðina. Þannig að ég þarf svolítið að virða mörkin sem líkami minn setur mér. Mér finnst það erfiðara heldur en ég þori að viðurkenna en ég er held ég að ná ágætum tökum á því núna.“

Gott að vera í Keflavíkinni

Hvað með svona félagslíf og vini og annað? Hvernig er það?

„Ég á ofboðslega góðan vinahóp af yndislegu fólki hérna úti og við erum búin að vera mjög dugleg að hittast og gera alls konar mismunandi hluti. Mamma talar oft um hvað það sé skemmtilegt, hvað við séum bara dugleg að hittast og fara í laugardagsferðir á sumrin. Núna ætlum við öll að hittast hjá mér fyrir jólin og búa til skraut saman, gera piparkökuhús og eitthvað svona. Það er mikið um félagslíf hérna og ég missi mjög mikið af mjög mörgu af því að ég er ekki alveg að fara út á lífið þegar ég er að mæta í vinnuna á þessum tíma. Almennt erum við mjög dugleg að hittast og bara brönsa saman. Manni leiðist ekki í London, sko, og ég á góðan vinahóp hér úti.“

Sérðu kannski fyrir þér að opna bakarí í stórborginni, frekar en heima. Er ekki bakarí í þínum gamla heimabæ til sölu?

„Sko… þegar ég var í grunnskóla var ég búin að ákveða að verða bakari. Ég fór í starfskynningu í Sigurjónsbakaríi þegar ég var í tíunda bekk. Svo vann mamma í Nýja bakaríinu á Hafnargötunni. Ég hef alveg hugsað um að opna heima í Keflavík, einhvern tíma. Ég hugsaði kannski meira í draumum mínum um eitthvað stærra þegar ég var unglingur en svo er ég orðin rosalega heimakær núna og mér finnst svo gott að vera í Keflavíkinni. Ég myndi alltaf vilja samt vera bara í einhverju litlu, rólegu. Mig langar ekki í neina fjöldaframleiðslu, mig langar bara að búa til gott bakkelsi, búa til góða vöru. Og það skiptir mig meira máli en einhver framleiðsla eða eitthvað orðspor. Mig langar bara að búa til góða vöru og hafa gaman af því sem ég geri. Eins og ég var að tala um, að þá finnst mér gaman að þekkja fólkið sem er að koma í bakaríið til mín og það einhvern veginn skiptir meira máli. Ég er ekki orðin gömul en maður eldist fljótt og lærir margt á sama tíma. Ég er orðin rosalega, rosalega heimakær í Keflavíkinni og finnst gott bara að geta labbað yfir til Glódísar minnar og skutlað sér í sund með litlu frænku minni. Maður metur þessa hluti meira heldur en maður kannski gerði hér áður fyrr.“

Ég var beðin af lesanda VF að spyrja þig hvort við gætum átt von á því að sjá þig í vinsælu bresku bakaraþáttunum í sjónvarpinu.

„Heyrðu, heldur betur. Ég kíkti á það þegar ég var búin að vera hérna í svona rúmt ár, en þú mátt sem sagt ekki vera menntaður bakari eða búinn að vinna sem bakari þegar þú sækir um að koma í þættina. Þetta eru allt áhugabakarar, sem er magnað því þeir gera virkilega flotta hluti. Svo var verið að byrja með Great British Bake Off - The Professionals. Þá eru oft mjög þekktir einstaklingar í bransanum sem fá boð í það og núna fyrir síðustu seríu buðu þau mér að koma og taka þátt, en það var bara aðeins of stuttur fyrirvari fyrir mig, þannig að ég því miður gat ekki stokkið á það. En ef ég fæ það boð aftur, þá væri mjög skemmtilegt að taka þátt og þá má ég taka sem sagt einhvern einstakling með mér sem ég þekki og við myndum gera eitthvað geggjað skemmtilegt í því. Það væri mjög spennandi.“

VF jól 25
VF jól 25