Keflvíkingurinn sýndi flotta takta á Wembley
Pétur Karl Ingólfsson upplifði draum margra knattspyrnumanna
„Það var viðskiptafélagi minn í London sem bauð mér að koma og spila fótbolta á Wembley, ég hélt að hann væri að grínast en svo var ekki. Ég fór þá að hugsa hvort ég gæti í raun og veru sparkað eitthvað og spurði nokkra félaga hvort það væri vit í þessu, það voru allir sammála. „Já! Auðvitað ferðu, þetta er Wembley!“ - ég var bara í engu leikformi, hvað þá í formi yfir höfuð og hafði meiri áhyggjur af því hvort ég kæmist sjálfur út af vellinum. Á endanum sló ég til, enda sjaldgæft tækifæri,“ segir Keflvíkingurinn Pétur Karl Ingólfsson en hann er einn fárra Íslendinga sem hafa fengið tækifæri til að leika knattspyrnu á Wembley vellinum í London.
„Ég bað pabba að skjótast með mér til London og upplifa þennan viðburð. Við vissum ekkert endilega hvernig þetta yrði áður við fórum út, allt rosalega leynilegt. Vissum bara að ég átti að spila 11-manna leik á Wembley og það væru einhver „legend“ frá Englandi sem myndu stýra þessu,“ segir Pétur Karl en hann lék knattspyrnu með Keflavík upp í 2. flokk.
„Við mættum snemma á þriðjudegi og fengum okkur morgunmat á Wembley, þar voru helstu aðilar kynntir til leiks og farið yfir byrjunarliðin. Þjálfarar voru Glen Hoddle, Tottenham-maður og síðar m.a. landsliðseinvaldur - hann var með rauða liðið og David James með hvíta liðið, þeir voru svo með sitt eigið aðstoðar- og sjúkrateymi. James var litríkur og góður markvörður og lék m.a. með Hermanni Hreiðarssyni hjá Portsmouth. Þá var dómarinn líka nokkuð þekktur en það var Lee Evans sem dæmdi leikinn. Umgjörðin á öllu var alveg svakalega flott og ég sá ekkert nema unga stráka í toppformi. Ég var orðinn ansi stressaður að byrja að sparka í bolta og spretta upp kantinn á Wembley á þessum tímapunkti.“
Gaman í búningsklefanum
Pétur segir magnað að hafa upplifað þetta en leikmenn beggja liða voru svo sendir í búningsklefann þar sem þjálfarinn kynntist leikmönnum og skipulagði leikinn. „Við fengum okkar eigin búninga og alla þá þjónustu sem líklegast alvöru fótboltamenn fá að upplifa. Þar kynntist ég liðsfélögunum aðeins betur og kom í ljós að þeir voru flestir svipaðir gæjar og ég, gátu sparkað en ekki hlaupið mjög mikið. Flestir voru þarna í boðsferð og vildu bara hafa gaman, sem var léttir fyrir mig, en Glenn Hoddle heimtaði samt baráttu og sigur. Menn gengu svo úr búningsklefanum og út í göngin. Þaðan lá leiðin beint út á völl með svakalegum tilbrigðum, þar sem Champions League-lagið var spilað og menn klappaðir inn á miðjan völl af örfáum áhorfendum. Svo var stillt sér upp við enska þjóðsönginn og menn tókust svo í hendur.
Um leið og flautað var til leiks voru allir bara skellihlæjandi og skælbrosandi enda menn mættir á Wembley að spila fótbolta á þriðjudegi í góðum aðstæðum. Mér tókst á að tóra 40 mínútur á vellinum en leikurinn var 60 mínútur í heildina. Menn settu allt í þetta, rennitæklingar, gul spjöld, vítaspyrna og fullt af mörkum með tilheyrandi fögnuði.
Mínu liði (rauða liðinu) tókst að sigra 8-3 en leikurinn var nokkuð jafn framan af. David James, þjálfari hjá hvíta liðinu, var ekki par sáttur með þessi úrslit og ég sagði við hann eftir leik ‘Takk fyrir leikinn’ á góðri íslensku en hann þóttist ekki skilja mig, tók bara í höndina og hristi hausinn. Ég vissi samt að hann kunni íslensku því pabbi hafði rætt við hann á íslensku fyrir leikinn, ætli að hann hafi ekki bara verið tapsár. Kannski mikilvægast af öllu er samt að menn gengu allir heilir af velli og þaðan svo upp Wembley-tröppurnar. Þar tóku menn á móti verðlaunum á þrepi sem svo margir hafa gengið og lyft upp hinum ýmsu bikurum. Leiðin lá svo inn í klefa þar sem sigrinum var fagnað innilega.“
Feðgarnir ákváðu að nýta Londonferðina betur. Þeir höfðu ekki fengið nóg af fótbolta. „Fyrst við vorum komnir til Englands, þá ákváðum við að skjótast yfir til Liverpool og sáum svekkjandi jafntefli við Sunderland. Það er samt alltaf gaman að koma til Liverpool og horfa á alvöru fótboltamenn spila.“
Draumur að rætast
„Að spila á svona leikvangi var alltaf draumurinn þegar maður var yngri, ég þori nú alveg að viðurkenna að sá draumur hafði fjarlægst mér nú þegar ég nálgast fertugsaldurinn og búinn að leggja skóna á hilluna fyrir löngu. Þetta var frábær upplifun sem við feðgarnir gleymum ekki í bráð - en það er aldrei of seint að spila fótbolta á stóra sviðinu,“ sagði Pétur Karl að lokum.
T.v.: Faðir Péturs, Ingólfur, splæsti í „selfí“ með Hoddle og David James.
T.h.: Heilsað upp á þjálfarann, Glen Hoddle.






