Mín framtíðarsýn fyrir Reykjanesbæ
Líkt og fram hefur komið þá býð ég mig fram í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ sem fer fram laugardaginn 31. janúar 2026. Ég geri það með skýra sýn fyrir framtíð bæjarins okkar, framtíð sem byggir á samfélagslegum styrk, fjölbreyttum tækifærum og skynsamlegri þróun þar sem allir íbúar eiga þess kost að blómstra. Reykjanesbær hefur vaxið hratt á undanförnum árum og stendur frammi fyrir nýjum tækifærum og áskorunum. Fjölgun íbúa kallar á aukna atvinnustarfsemi og þá möguleika að móta samfélag sem skapar lífsgæði fyrir alla. En til þess að sú þróun verði sjálfbær þurfum við skýra stefnu, framsýna áætlanagerð og þor til þess að taka ákvarðanir.
Reykjanesbær – framtíðarbær okkar allra
Reykjanesbær er í senn kraftmikið bæjarfélag og fagurt, það er okkar að sjá það. Hér búa rúmlega 22 þúsund manns sem deila sameiginlegri framtíðarsýn, að byggja upp sterkt og lífvænlegt samfélag þar sem allir bæjarbúar fá tækifæri til að vaxa og dafna. Orð hafa kraft og því er mikilvægt að vanda okkur, kæru bæjarbúar, þegar umræðan snýst um bæjarfélagið okkar. Þegar við lendum í umræðu um heimabæinn okkar þá skiptir máli hvernig við sjálf berum bæinn á lofti. Mál er manns hljómur og þegar við tölum jákvætt um Reykjanesbæ byggjum við upp jákvæða ímynd af bæjarfélaginu. Það þýðir ekki að ég ætli mér að hunsa þær áskoranir sem bíða heldur ákveð að tala ekki neikvætt um þær heldur jákvætt. Einblínum á hið jákvæða í orði og gjörðum.
Reykjanesbær, líkt og önnur bæjarfélög sem standa við sjávarsíðu landsins, stendur á gömlum sjávarþorpsrótum þar sem forfeður okkar hafa í aldanna rás byggt upp samfélag þar sem gildi Sjálfstæðisflokksins hafa verið við lýði: dugnaður, metnaður og trú á eigin getu. Ég hef trú á að þessi arfur sigli áfram í gegnum kynslóðir og að uppbygging öflugs samfélags byggi á þessum grunngildum, sem hafa reynst okkur afar vel í gegnum tíðina. Þegar einstaklingar fá frelsi til að taka ákvarðanir um eigið líf þá blómstra viðskipti sem að samfélagið nýtur góðs af. En með þessu frelsi fylgir þó ávallt ábyrgð á einstaklingnum. Ábyrgð og frumkvæði eru hornsteinar þess að gera hlutina enn betur, að leggja sitt af mörkum samfélaginu til heilla. Líkt og ég vil gera þá hef ég trú á að íbúar Reykjanesbæjar vilji ekkert minna og að auki vilji láta gott af sér leiða.
Íbúar Reykjanesbæjar hafa sýnt okkur í gegnum tíðina að þegar einstaklingurinn fær svigrúm til að njóta árangurs á eigin vegferð þá verður til drifkraftur sem engin stjórnsýsla getur búið til. Í bæjarfélaginu okkar má finna fjölskyldufyrirtæki, frumkvöðla og metnaðarfulla einstaklinga sem hafa skapað störf og tækifæri í bæjarfélaginu okkar. Það er þessi frjálsræðishugsjón, að einstaklingurinn fái sjálfur að ráða för sinni, sem hefur gert okkur að því bæjarfélagi sem við nú erum. Ég trúi því að framtíð Reykjanesbæjar byggi einmitt á styrk einstaklingsins fremur en að hanna flókna verkferla sem mögulega heftir þessa þróun. Við þurfum í sameiningu að standa vörð um þetta frelsi, sem felst í því að skapa eigin kjör, reka fyrirtæki án óþarfa íhlutunar og að halda í það sem við vinnum fyrir. Það er ekki sérhagsmunagæsla að vilja njóta ávaxtar eigin vinnu, það er undirstaða öflugs samfélags. Stebba amma, mikill viskubrunnur, minnti mig statt og stöðugt á þá miklu visku; Unnar minn, þú skapar þína eigin vegferð. Orð hennar hafa fylgt mér í gegnum súrt og sætt og eru góð áminning fyrir okkur öll.
Reykjanesbær – bær tækifæranna
Þegar við tölum um bæjarfélagið okkar þá er mikilvægt að leggja áherslu á það jákvæða sem er nú þegar til staðar og möguleikana sem Reykjanesbær býr við. Hér í næsta nágrenni er alþjóðaflugvöllur, vaxandi ferðaþjónusta, orkuauðlindir og gífurlega fallegt og litríkt landslag, svo fátt eitt sé nefnt. Reykjanesbær er staðsettur sem örfáir staðir á landinu geta keppt við. Menning bæjarfélagsins í blóma, hér ölum við börn okkar í öryggi, með aðgang að metnaðarfullum skólum og möguleikum á að stunda íþróttir og tómstundir. En þessi veruleiki verður ekki til af sjálfu sér. Við þurfum jákvætt viðhorf gagnvart bæjarfélaginu, jákvætt umtal til að draga að utanaðkomandi eins og t.d. leikskólakennara sem er svo sannarlega skortur á. Einnig að skapa aðstæður þar sem frumkvæði fær að njóta sín, þar sem árangur er metinn að verðleikum. Reykjanesbær á að vera bær þar sem allir fá tækifæri og með samstöðu sem byggir á sameiginlegum gildum um ábyrgð, dugnað og virðingu fyrir vinnuframlagi og hugmyndum annarra. Látum okkur vera umhugað um bæinn okkar. Leyfum okkur að tala jákvætt um bæjarfélagið, bera bæinn okkar á lofti með því að taka eftir því jákvæða sem gerist innan okkar bæjarmarka. Hér í Reykjanesbæ er margt jákvætt um að vera, öll sem eitt þurfum að vera dugleg að taka eftir því og tala um það því það gerir það enginn nema við sjálf.
Framtíðin er okkar
Reykjanesbær á frábæra framtíð fyrir höndum en við þurfum að grípa tækifærin og vinna markvisst að því að móta samfélag sem er aðlaðandi fyrir alla núverandi íbúa bæjarins og þá sem hafa hug á búflutningum. Menntun og menning, íþróttir og tómstundir og sterkt atvinnulíf eru hornsteinar lífsgæða og framþróunar. Við, Reykjanesbær, eigum að vaxa á skipulagðan, sjálfbæran hátt og með framsýn að leiðarljósi. Með jákvæðu umtali gerist svo ótrúlega margt, þekki það af eigin raun. Ég bið ykkur, kæru sjálfstæðismenn, um stuðning og traust í komandi leiðtogakjöri. Saman getum við skapað Reykjanesbæ sem verður enn betri staður fyrir núverandi íbúa og komandi kynslóðir.
Að lokum óska ég öllum lesendum geðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Unnar Stefán Sigurðsson,
Skólastjóri í Háaleitisskóla og frambjóðandi í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.







