Jólagjöf til Keflvíkinga - Remy snýr aftur
Bónus deildarlið Keflvíkinga er að fá gríðarlegan liðsstyrk en Remy Martin, leikstjórandi og leikmaður með Keflavík 2023-2024 mun leika með liðinu eftir áramót. Annað er ekki hægt að lesa úr færslu Keflvíkinga á samfélagsmiðlum.
Martin kom til Keflavíkur sumarið 2023 og átti frábært leiktímabil með liðinu sem varð bikarmeistari í ársbyrjun 2024. Remy féll frábærlega vel inn í lið Keflavíkur og sýndi iðulega magnaða frammistöðu og margir eru á því að hann sé einn besti útlendingur sem hafi spilað á Íslandi. Hann meiddist alvarlega í úrslitakeppninni gegn Grindavík og lék ekki meira sem var skarð sem var erfitt fyrir Keflvíkinga að fylla og þeir duttu út úr keppninni eftir harða baráttu við UMFG.
Keflvíkingar eru í toppbaráttunni í deildinni og eru inni í VÍS bikarnum þannig að komu Martins verður fagnað og hann gæti klæðst Keflavíkurbúningnum 4. janúar á móti ÍR í Breiðholti.






