Skuldlaus í mikilli uppbyggingu
Minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar er með mörg járn í eldinum
Systurnar Helga og Oktavía Ragnarsdætur eru drifkrafturinn í Minja- og sögufélagi Vatnsleysustrandar. Við hittum þær í gamla samkomuhúsinu Kirkjuhvoli á Vatnsleysuströnd, þar sem þær standa nú í miðri endurbyggingu.
Helga og Oktavía Jóhanna eru saman í stjórn Minja- og sögufélags Vatnsleysustrandar og hafa þá tvo áratugi sem félagið hefur verið til varið ótal sjálfboðastundum í að bjarga húsum, munum og sögum sveitarfélagsins frá gleymsku.
Skólahúsið varð kveikjan
Minjafélagið var stofnað árið 2005. „Félagið varð í raun til í kringum gjöf,“ útskýrir Oktavía. „Það var gamla skólahúsið í Norðurkoti. Þá átti að selja jörðina sem skólahúsið stóð á upprunalega og eigendurnir ákváðu að gefa húsið til félags sem hefði það hlutverk að varðveita það sem menningarminjar.“
Norðurkot er elsta uppistandandi skólahús sveitarfélagsins, reist árið 1903. Þar var eitt af þeim „útibúum“ skólans sem starfrækt voru á Vatnsleysuströnd til að auðvelda börnum skólagöngu á dreifbýlu svæðinu.
„Í kringum Norðurkot og hlöðuna Skjaldbreið á Kálfatjörn safnaðist saman hópur fólks, skólastjóri, kennarar og við. Og úr varð Minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar.“
Síðan hefur verið unnið markvisst að því að gera bæði skólahúsið og hlöðuna upp. Síðar hafa fleiri hús komið inn í myndina.
Uppeldi í sögunni
Þrátt fyrir að verkefnin hljómi eins og klassískt „gömlu karlanna“ áhugamál eru það tvær konur á miðjum aldri sem sitja hér með lykla að nokkrum af mikilvægum menningarminjum sveitarfélagsins.
„Það er oft spurt: Hvað rekur ungar konur í Vogunum út í þetta?“ segir Oktavía og hlær. „En þetta er líklega bara uppeldi. Við ólumst upp við að garfa í gömlu.“
„Amma og afi bjuggu í næsta húsi og við vorum mikið hjá þeim,“ bætir Helga við. „Systir mömmu bjó líka í gömlu húsi í Vogunum og það var alltaf verið að tala um söguna. Sagan, sagan, sagan, það var alltaf sagan.“
Skuldlaus en fjárvana
Öll stærri verkefni félagsins hafa tekið langan tíma. Það sést vel á Norðurkoti og Skjaldbreið og nú síðast Kirkjuhvoli. „Þetta gerist ekkert hratt,“ segir Helga. „Við erum að tala um 20 ár síðan við vorum að setja járn á þök og gera við skemmdir. Við vinnum þetta á þeim hraða sem peningarnir berast.“
„Félagið skuldar ekki neitt,“ undirstrikar Oktavía. „Við tökum ekki lán. Við gerum bara það sem við fáum styrki til. Það þýðir að þetta mjakast hægt, en það gerist.“
Helga bendir á að nær allt sem gert hefur verið sé unnið fyrir styrkfé: „Við höfum fengið styrki frá ríki og sveitarfélagi, Uppbyggingarsjóði Suðurnesja, Minjastofnun og fleirum. Svo koma einstaklingar líka sterkir inn, fólk sem á tengingu við húsin og söguna.“
Kirkjuhvoll – dulúðarhúsið við réttirnar
Samkomuhúsið Kirkjuhvoll var byggt árið 1933 í sameiginlegu átaki Ungmennafélagsins Þróttar og Kvenfélagsins Fjólu. Þá var húsið hjartað í félagslífi hreppsins, þar voru samkomur, leiksýningar og jafnvel kennt.
„Við erum svo gamlar að við munum eftir kindunum heima og réttunum hér fyrir ofan,“ segir Helga. „Maður labbaði alltaf hér fram hjá Kirkjuhvoli á leið í réttirnar en ég man aldrei eftir húsinu í notkun.“
„Það var búið að byrgja fyrir alla glugga,“ segir Oktavía. „Það er einhver dulúð yfir húsinu. Mamma og hennar kynslóð fóru hér á skátafundi og á böll, en okkar kynslóð þekkti það bara sem lokað hús fullt af járnarusli.“
Minja- og sögufélagið eignaðist Kirkjuhvol árið 2019. Þá var húsið notað sem geymsla og nánast uppfullt af járnarusli. „Það voru um 70 tonn af járni hér inni,“ segir Helga. „Það þurfti að handtína út áður en við gátum byrjað.“
Endurbygging á hlutum fortíðar
Húsið var upphaflega steypt á þremur mánuðum árið 1933 og vígt á jóladag. Það var á sínum tíma bylting að steypa húsið, þar sem margir bjuggust við timburhúsi.
„Það er sagt frá því að þeim hafi nánast fallist hendur þegar hugmyndin kom upp um að steypa húsið,“ segir Helga. „En það var bara steypt í þessa hæð í dag og aðeins hærra á morgun, maður sér skilin í veggjunum.“
Húsið var þó frægt fyrir að vera kalt. „Það var kvartað mikið undan kulda,“ segir Oktavía. „Það var ekkert einangrað, bara ber steypa.“
Nú er verið að snúa þeirri sögu við. Húsið verður áfram steinsteypt að utan, í ljósgráum/hvítum lit, en einangrað að innan þannig að veggþykktin haldist sem næst upprunaleg.
„Við erum að reyna að nýta allt sem tilheyrði húsinu,“ segir Helga. Yfir sviðið var upprunalega málað stórt „Ungmennafélagið Þróttur“ og systurnar eiga enn pappíra með stöfunum til að hægt verði að mála textann upp aftur í sama lit og leturformi.
Hvernig á að nota húsið?
Áformin með Kirkjuhvoli eru skýr: húsið á að verða lifandi samkomuhús aftur.
„Það er fyrst og fremst markmiðið að Þróttur og Fjóla hafi hér aðstöðu,“ segir Oktavía. „Þetta er þeirra hús sögulega séð, þó að félagið okkar sé formlegur eigandi.“
„Svo sjáum við fyrir okkur að hægt verði að leigja það undir veislur og ýmsa viðburði,“ bætir Helga við. „Við erum þegar farin að fá fyrirspurnir um fermingar og samkomur, fólk bíður bara eftir því að húsið verði tilbúið.“
Á sama tíma vilja þær að húsið verði vettvangur fyrir yngra fólk í dag, ekki síður en áður.
„Ungmennafélögin voru mikið í leiklist, ekki bara íþróttum,“ segir Oktavía. „Okkur langar að sjá leiksýningar hér aftur, upplestur, samkomur, hús sem er í notkun, ekki bara sýningagripur.“ Það er líka sýn Minjastofnunar, sem styrkt hefur verkefnið, að húsið hafi notagildi. Það er ekki komið á þann aldur að vera friðað en á ríkan sögulegan og menningarlegan þátt í Vogum og á Vatnsleysuströnd.
Sjálfboðaliðar – dýmætasta auðlindin
Þrátt fyrir stóra drauma er félagið lítið. „Við erum bara fá,“ segir Helga hreinskilnislega. „Í raun er það bara fimm manna stjórn sem heldur þessu gangandi og svo foreldrar okkar og aðrir sem við köllum til þegar þarf.“
„Það er mikil samkeppni um fólk í dag,“ segir Oktavía. „Sjálfboðaliðamenningin hefur breyst. Kynslóðin sem er að taka við brennur ekki alltaf jafn mikið fyrir svona málum og var fyrir 20 til 30 árum.“
„Okkur vantar fleiri sjálfboðaliða,“ segir Helga. „Við bara önnum ekki öllum verkefnunum sjálfar.“
Bátar, bæjarhús og Ásláksstaðir
Verkefnin eru fleiri en Kirkjuhvoll. Á Kálfatjörn á félagið m.a. Skólahúsið í Norðurkoti (1903), elsta skólahús sveitarfélagsins, endurgert að utan og unnið að innviðum. Hlöðuna Skjaldbreið, fjós og hlaða reist um 1850, sem hefur mikið menningarsögulegt gildi og er friðuð samkvæmt aldursákvæði.
„Nýlega eignaðist félagið elsta hús sveitarfélagsins, Ásláksstaði,“ segir Oktavía. „Húsið tengist Jamestown-strandinu og er okkur mjög mikilvægt að halda því til haga en það er að grotna niður, svo þar er brýnt að grípa inn í.“
Svo eru það bátarnir. „Við fengum líka bara eitt stykki bát upp í hendurnar,“ segir Helga og hlær. „30 tonna bát, smíðaðan 1932 fyrir Útgerðarfélag Vatnsleysustrandar. Hann hafði síðast verið gerður út á Súðavík.“
Minjastofnun leitaði til félagsins og spurði hvort það vildi taka við bátnum. Félagið fékk styrk fyrir flutningi og báturinn er nú kominn suður, geymdur á Halakoti. Upphaflega var hugmyndin að gera hann svo upp að hægt væri að hafa hann á floti en það reyndist dýr og flókin leið.
„Það væri algjör draumur að hafa hann í höfninni í Vogum,“ segir Helga. „En höfnin er ekki gerð fyrir svona varðveislubáta og kostnaðurinn er gífurlegur.“
Félagið á einnig minni bát, smíðaðan á Litlabæ, sem Haukur Aðalsteinsson hefur gert upp. Um hann og stóra bátinn hefur verið stofnað sérstakt hollvinafélag sem Þorvaldur Örn Árnason sér um, enda verða systurnar að forgangsraða verkefnum.
Sagnfræðingurinn í bakherberginu
Félagið nýtur líka góðs af öflugu samstarfsfólki. „Haukur Aðalsteinsson hefur skrifað útgerðarsögu svæðisins í bókinni Út á brún,“ segir Oktavía. „Hann hefur fengið viðurkenningar frá Sagnfræðingafélagi Íslands og er eiginlega sjálfmenntaður sagnfræðingur.“
Hann hefur m.a. nýst þeim vel við endurgerð Skjaldbreiðar. „Þegar prestaskipti voru á Kálfatjörn fundust úttektir á húsinu og Haukur fann alls konar heimildir sem við gátum notað við endurbygginguna,“ segir Helga.
Safnahelgi, epladagur og vitinn
Minja- og sögufélagið heldur reglulega opna daga og viðburði í samstarfi við aðra aðila.
„Fyrsti sunnudagur í aðventu er okkar dagur,“ segir Oktavía. „Það er messa í kirkjunni, kvenfélagið heldur kökubasar og við köllum þetta epladag, í höfuðið á því þegar eplin komu í hús í gamla daga og lyktin fyllti allt.“
„Krakkarnir fá að gera sitt eigið kerti,“ bætir Helga við. „Það er alltaf góð stemning, þó að veðrið ráði stundum mætingunni.“
Félagið tekur þátt í safnahelgi á Suðurnesjum, tekur á móti hópum, starfsmannahópum, kennurum, gömlum nemendahópum og leiðir gönguferðir og fræðsluferðir um svæðið.
„Við höfum verið með framsögu í kirkjunni og svo er fólk sent út til að skoða og upplifa,“ segir Helga.
Að segja nei – og já við réttu hlutunum
Að vera minjafélag þýðir líka að þurfa að segja nei. „Fólk býður okkur oft hluti: Vantar ykkur ekki sófa? Viljið þið ekki þennan hlut?“ segir Helga. „En svo þarf að eiga pláss fyrir allt, og það er ekki hægt.“
Systurnar fóru á námskeið um grisjun á safnakosti, sem haldið er í samstarfi við Þjóðminjasafn og sveitarfélög á Suðurnesjum.
„Fyrsta skrefið er að geta sagt: Nei takk, við eigum þegar fimm þvottarullur, við þurfum ekki sjöttu,“ segir Oktavía og hlær. „Þetta var mjög gagnlegt.“
Félagið hefur sett sér vinnureglur: „Í fyrsta lagi þarf hluturinn að hafa tengingu við svæðið,“ útskýrir Helga. „Í öðru lagi spyr maður: Er þetta eitthvað sem er svo sérstakt að það eigi erindi í varðveislu á landsvísu, þó að það sé ekki héðan?“
Tengslanet safnafólks
Systurnar leggja mikla áherslu á tengsl við annað safna- og minjafólk. „Við erum í mjög góðum samskiptum við fólk í Grindavík, Reykjanesbæ og víðar,“ segir Helga. „Við fórum t.d. á fund þegar Minjafélag Grindavíkur var að stofnast og sögðum frá okkar reynslu.“
Þær hafa fengið lánaða muni í sýningar, lært af öðrum hvernig skrá á muni og nýtt þá í kvikmyndagerð og menningarverkefni.
„Það þarf líka að huga að því að við erum ekki launaðir starfsmenn sveitarfélags,“ segir Oktavía. „Við erum áhugamannafélag, eins og mörg önnur, og það skiptir miklu að geta treyst á samstarf.“
„Það er búið að taka sinn tíma – en það er hægt“
Þegar þær líta yfir Kirkjuhvol í dag sjá þær mikinn mun frá því þegar þær tóku fyrst við húsinu. „Núna sjáum við gömlu myndirnar sem við tókum og berum saman við það sem við sjáum í dag og segjum: Jú, þetta er hægt. Það er hellingur búinn.“
„Næsta skref er sviðið og veggirnir,“ segir Helga. „Og svo bara smátt og smátt, eftir því sem styrkir og hjálp berast.“






