Suðurnesjatenging við Hornafjörð og landanir fyrir austan
Núna er ég staddur á Höfn í Hornafirði þegar ég skrifa þennan pistil og það er hægt að tengja mjög mikið við Suðurnesin og Hornafjörð. Bátar sem hafa verið seldir á Hornafjörð frá Suðurnesjunum og öfugt. Bátar frá Suðurnesjunum sem líka hafa landað hérna á Hornafirði.
Í september landaði þó enginn bátur frá Suðurnesjunum á Hornafirði. Reyndar hérna austar en Hornafjörður má finna hafnir þar sem bátar frá Suðurnesjunum hafa
landað og þá aðalega á Djúpavogi og Neskaupstað. Töluvert hefur verið um landanir stærri bátanna á Djúpavogi og þar hefur til dæmis Páll Jónsson
GK landað 377 tonnum í þremur löndunum og mest af þeim afla hefur verið ekið til Grindavíkur. Sighvatur GK hefur landað 212 tonnum í tveimur löndunum, og aflanum líka ekið til Grindavíkur.
Togarinn Jóhanna Gísladóttir GK hefur landað 333 tonnum í 4 löndunum og Pálína Þórunn GK kom líka til Djúpavogs með 70 tonn í einni löndun.
Reyndar var mjög mikið flakk á Pálinu Þórunni GK í september. Togarinn byrjaði í Þorlákshöfn, fór þaðan til Djúpavogs. Þaðan aðeins austar til Neskaupstaðar, og þaðan alla leið norður til Siglufjarðar. Kom síðan aftur til Neskaupstaðar og þaðan aftur suður til Þorlákshafnar og er þegar þessi pistll er skrifaður á veiðum utan við Sandgerði og mun þá koma í heimahöfn sína snemma í október. PálínaÞórunn GK hefur landað 409 tonnum í 6 löndunum og Jóhanna Gísladóttir GK er með 559 tonn í 8 löndunum .
Reyndar voru að berast slæmar fréttir frá SVN eða Vísi ehf sem gerir út togarann Jóhönnu Gísladóttir GK því að ákveðið hefur verið að leggja tveimur togurum í eigu fyrirtækins, það er Gullver NS frá Seyðisfirði, sem hefur verið gerður út frá Seyðisfirði síðan 1983 og síðan leggja líka Jóhönnu Gísladóttir GK. Áhöfnum beggja skipanna hefur verið sagt upp en þeir munu vinna uppsagnarfrestinn sinn, í staðinn þá mun togarinn Birtingur NK koma á veiðar og verða tvær áhafnir á honum. Birtingur NK er mun nýrri togari en báðir hinir en tíu metrum styttri en Gullver NS og 3 metrum lengri en Jóhanna Gísladóttir GK. Samanlagður kvóti sem bæði Gullver NS og Jóhanna Gísladóttir GK eru með úthlutað núna þetta fiskveiði ár er um 3200 tonn miðað við þorskígildi.
Þegar þessar breytingar mun eiga sér stað þá mun fyrirtækið gera út tvö stór línuskip, Pál Jónsson GK og Sighvat GK , togarnn Birting NK og krókamarksbátinn Fjölni GK auk frystitogarans Blængs NK. Það er ansi merkilegt að hugsa til þess að SVN og Vísir ehf. skuli aðeins gera út fjögur skip til veiða á botnfiski. Fyrir um 20 árum síðan gerði SVN út 3 ísfiskstogara og einn frystistogara sem líka var á rækju, Vísir ehf gerði þá 7 línubáta; Sighvat GK, Pál Jónsson GK, Hrungni GK, Jóhönnu Gísladóttir GK, Fjölnir ÍS, Kristínu GK og Freyr GK. Reyndar voru Fjölnir ÍS og Freyr GK seldir seinni part árs 2005 og fengu þá ný nöfn, Fjölnir ÍS varð Arnarberg ÁR og Freyr GK varð Siggi Þorsteins ÍS .