Nýjan þjóðsöng, takk fyrir!
Það er alltaf gaman að fara á landsleik. Taka þátt í stemningunni sem myndast fyrir leik og fara sannfærður af stað um að sigurinn lendi okkar megin. Þannig eru íþróttirnar, það getur allt gerst. Mér var boðið nýlega á landsleik Aserbaídsjan og Íslands, dóttursonurminn níu ára var með í för. Kunni öll klöppin og söngvana nema kannski íslenska þjóðsönginn, sem ég hef meira en fullan skilning á. Ég söng með ásamt nokkrum öðrum þegar fyrsta erindi sálmsins var sungið, vel vitandi að mistök í söngnum gæti kallað á tveggja ára fangelsisvist skv. þeim lögum er um hann gilda. Hann skuli sunginn í sinni upphaflegu útgáfu frá árinu 1874. Það reyndi á bæði raddbönd og hálskirtla. Leikurinn vannst 5-0 og það var ekki þjóðsöngurinn sem fólkið söng þá.
Þar sem ég stóð þarna beinnn í baki og grafalvarlegur á svip varð mér hugsað til þeirra tíma þegar ég ætlaði mér að syngja í kirkjukór Keflavíkurkirkju. Taldi það góða leið sem nýfluttur bæjarbúi til að kynnast nýju fólki. Allt gekk þetta þokkalega framan af, ég mætti á æfingar og komst nokkurn veginn klakklaust í gegnum textana og sönginn. En málið vandaðist þegar mér var gert að mæta á raddæfingu vikulega, aleinn með raddþjálfara.
Mætti vel og reglulega þar til að í einum tímanum stöðvaði raddþjálfarinn æfinguna um það bil sem ég var að komast að hápunkti söngsins og horfði alvarleg á mig um leið og hún spurði. „Hannes hefur þú einhvern tíma hugsað um að láta rífa úr þér hálskirtlana nú þegar þú ert að gerast atvinnusöngvari og ætlar að syngja í kirkjukór.“ Skildi vel skilaboðin og snéri mér að öðrum verkefnum. Hef alla tíð síðan átt nokkuð erfitt með þjóðsönginn.
Þannig er það nefnilega með íslenska þjóðsönginn, það er eingöngu vanir kóramenn og konur ásamt þrautþjálfuðum óperusöngvurum sem sungið geta hann skammlaust. Og textinn, maður minn, er illskiljanlegur í besta falli. Erindin eru íslenska þjáningin í sinni síendurteknu mynd. „Eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár, sem tilbiður guð sinn og deyr.“ Ekki er það hvetjandi.
Það styttist í að við fögnum tólf hundruð ára afmæli Íslandsbyggðar. Sálmurinn var saminn fyrir messu sem skyldi haldinn í tilefni af þúsund ára afmælis Íslandsbyggðar, fyrstu tvö erindin hálfgert væl yfir örlögum okkar fyrstu þúsund árin, og það síðasta ákall til æðri máttarvalda um að framtíðin verði nú eitthvað bjartari. Forlagatrúin í sinni tærustu mynd.
Ég verð að viðurkenna að í hvert sinn sem þjóðsöngurinn er sunginn verð ég eins og smáblómið með titrandi tárið, því vissulega þykir mér vænt um þetta fyrsta erindi sem alltaf er sungið. En ég held að þessi sálmur eigi frekar heima í kirkju en sem þjóðsöngur Íslendinga sem trúa jú allskonar og eru allskonar. Er ekki kominn tími á nýjan þjóðsöng sem gefur okkur gleði í stað þjáningarinnar? Glaðan þjóðsöng sem hvetur okkur áfram og þjóðin syngur.