Brons
Brons

Pistlar

Netabátar sækja í miðin við Dyrhólaey – góður afli á Suðurnesjum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
miðvikudaginn 15. október 2025 kl. 07:20

Netabátar sækja í miðin við Dyrhólaey – góður afli á Suðurnesjum

Í ansi mörgum tilfellum á þessu ári hef ég verið staddur víða um land vegna ferða minna sem rútubílstjóri. Oft reyni ég að tengja staðina sem ég heimsæki við Suðurnesin og sjá hvernig útgerð og fiskveiðar tengjast þeim.

Núna er ég staddur við Dyrhólaey og næsti bær hér er Vík í Mýrdal. Það er kannski ekki fyrsta svæðið sem manni dettur í hug þegar rætt er um útgerð og fiskvinnslu, en þó er hér nokkuð að gerast. Utan við þetta svæði eru fengsæl fiskimið og netabátar sem eltast við ufsann hafa sótt hingað á undanförnum árum.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Sjálfur tók ég þátt í slíkum veiðum fyrir um þrjátíu árum þegar ég var á Bergi Vigfúsi GK undir stjórn Grétars Mars skipstjóra. Nú árið 2025 er einn netabátur farinn að veiðum á þessu svæði og er aflinn ekið til vinnslu í Keflavík. Það er Friðrik Sigursson ÁR sem veiðir fyrir Hólmgrím. Báturinn hefur landað 61 tonni í þremur róðrum, mest 26 tonnum í einni löndun, og uppistaðan í aflanum er ufsi.

Annar bátur, Kap VE frá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum, hefur einnig verið við veiðar á þessu svæði. Hann landar þó ekki á Suðurnesjum en hefur legið bæði í Sandgerði og Keflavík meðan netin eru í sjó.

Veiðin hjá hinum netabátunum, sem allir eru gerðir út á vegum Hólmgríms, hefur verið þokkaleg. Addi Afi GK hefur fengið 13,5 tonn í átta róðrum og mest 4,7 tonn. Emma Rós KE hefur fengið 13,3 tonn í sex og mest 5,5 tonn. Svala Dís KE hefur fengið 10,5 tonn í sex og mest 5,4 tonn. Halldór Afi KE hefur fengið 11,3 tonn í sjö og mest 5,2 tonn.

Togararnir hafa verið víða við veiðar og landað í ólíkum höfnum. Pálína Þórunn GK er komin með 102 tonn í tveimur róðrum eftir veiðar utan við Sandgerði en aflinn var þó landað í Hafnarfirði. Sóley Sigurjóns GK hefur hætt rækjuveiðum og snúið sér að fiskitrolli og landaði 115 tonnum á Siglufirði. Jóhanna Gísladóttir GK hefur verið á miklu flakki og landað 182 tonnum í þremur löndunum í Grindavík, Grundarfirði og Djúpavogi.

Það gengur einnig vel hjá dragnótabátunum. Benni Sæm GK er kominn með 54 tonn í sex róðrum og mest 23 tonn í einni löndun. Aðalbjörg RE er með 64 tonn í sjö og mest 15,4 tonn. Maggý VE hefur fengið 52 tonn í sex og mest 15,5 tonn. Sigurfari GK hefur fengið 62 tonn í sex og mest 22,5 tonn, og Siggi Bjarna GK 58 tonn í sex og mest 21 tonn. Allir þessir bátar hafa landað í Sandgerði.

Í Grindavík hefur Margrét GK landað 11,6 tonnum í fjórum róðrum. Línubáturinn Páll Jónsson GK kom þar til hafnar með fullfermi, 146 tonn, og hinn stóri línubátur Sighvatur GK hefur landað 257 tonnum í tveimur ferðum á Djúpavogi þar sem aflanum var síðan ekið til vinnslu í Grindavík.