Nýsprautun flutt
Nýsprautun flutt

Pistlar

Misskipting veðurs
Laugardagur 3. september 2022 kl. 07:13

Misskipting veðurs

Við fjölskyldan skelltum okkur í stutta Íslandsheimsókn í síðustu viku. Þetta átti að vera bæði frí og vinna, sem þó aðallega fólst í ýmsum heimilisverkum. Þrátt fyrir fögur fyrirheit er bílskúrinn á Heiðarbrúninni samt alveg jafn troðfullur af allskonar og þegar við komum. Þegar maður býr í útlöndum þýðir nefnilega ekkert að ætla sér í allsherjar tiltekt í stuttu stoppi því danskortið er fljótt að fyllast. Á viku náði ég að fara í fimmtugs- og sextugsafmæli, allskonar vinkonuhittinga, matarboð, sumarbústað, og sinnti nauðsynlegu persónulegu viðhaldi eins og klippingu og fótsnyrtingu (já ég veit að ég bý í París og ég ætti að geta sinnt slíku viðhaldi hér, en þetta er einfaldlega allt miklu betra á Íslandi – efni í sér pistil).

Hvað um það, ég hitti sum sé heilan her af fólki á meðan ég var hér. Það var svo krúttlegt að öll samtöl snerust fljótlega um veðrið og hvað þetta sumar hafi verið ömurlegt – rigning og kuldi og bara almenn leiðindi. Fólk talaði um sólardaginn sem kom í júlí og svo ekki meir. Hér í Frakklandi hefur líka verið talað mjög mikið um veðrið í sumar, en það er á talsvert öðrum nótum. Hér er kvartað yfir of miklum hita og sögulega miklum þurrki. Fólk talar um daginn í júlí þegar það kom smá úði fyrir hádegi og svo ekki meir.

Þetta er algjört svindl. Hversu dásamlegt væri það ef við gætum steypt þessu öllu saman og haft þetta allt aðeins minna og jafnara. Að vísu hefðum við þá reyndar ekkert um að tala! Ég viðurkenni að í mestu hitunum í sumar sáum við Lubbi hressandi Strandleiðargöngu í hillingum. Og svo viðurkenni ég líka að, vel dúðuð, í hressandi Strandleiðargöngu í síðustu viku sá ég stuttbuxna- og hlýrabolagöngu í Boulogne skóginum alveg fyrir mér. Reyndar kvarta ég alls ekki yfir veðrinu sem við fengum – við tókum sólina með okkur til Íslands í handfarangrinum.

En svona er þetta – okkur langar í það sem við ekki höfum. Ég verð aldrei meiri Íslendingur en þegar ég bý í útlöndum og sakna mjög skrýtinna hluta. Þegar ég bjó í Bandaríkjunum á námsárunum kom enginn til mín í heimsókn án þess að taka með sér Normalbrauð – sem ég nóta bene hef varla smakkað eftir að ég flutti aftur heim árið 1997. Hingað til Frakklands kemur enginn til okkar án þess að hafa Chili Mæjó frá Hamborgarafabrikkunni og Smjörva með sér. Af öllum hlutum!

Þessu öllu er hægt að redda, en auðvitað það sem maður saknar mest er ekki hægt að flytja á milli landa - stemningin á Ljósanótt er eitt af því. Ég hefði svo sannarlega viljað mæta í árgangagönguna eftir þetta Covid hlé og hitta góða vini – og nota þetta tækifæri að sjálfsögðu til að senda mínum eðal 67 árgangi súper kveðjur. Svo finnst mér framtak nágranna minna í „Holtunum heima“ stórkostlegt og vona að þetta gigg heppnist sem allra best og verði endurtekið.

Og aftur að veðrinu. Eins og veðurspáin stendur þegar þetta er skrifað á að vera sól í Keflavík á laugardaginn en rigning í París. Ég vona svo sannarlega að það gangi eftir og að þið njótið dásamlegrar Ljósanætur – bestu kveðjur úr rigningunni!