Mikið hrun í afla hjá dragnótabátunum
Þá er vel liðið á september mánuð og fyrsta sem maður horfir á eru dragnótaveiðarnar í Faxaflóanum. Það má alveg segja að það sé mikið hrun í afla hjá dragnótabátunum sem eru í Bugtinni og þá aðalega varðandi þorskinn. Veiðin byrjaði mjög vel en síðan dró hratt úr henni, en eftir stendur að skarkolaveiði er búin að vera mjög góð hjá bátunum.
Til marks um þetta mikla aflahrun á dragnót í Faxaflóanum núna í september má bera saman september 2024 til september 2025, þá var til dæmis Stapafell SH í mokveiði í fyrra og landaði 360 tonnum og mest 34 tonn í einni löndun í nítján róðrum, öllu landað í Reykjavík. Núna árið 2025 er sami bátur aðeins kominn með um 90 tonna afla í þrettán róðrum og mest 14 tonn enda er báturinn farinn í burtu frá Reykjavík og kominn á Arnarstapa. Annar bátur sem vert er að bera saman milli ára er Aðalbjörg RE, en þessi bátur á lengstu sögu allra báta í dragnótaveiðum í Faxaflóanum. Árið 2025 gekk bátnum mjög vel í Faxaflóanum og var með 207 tonna afla í fimmtán róðrum og mest 27 tonn, og var mest af þessu þorskur. Aðalbjörg RE var í Reykjavík frá september og alveg fram í desember 2024 og kom þá til Sandgerðis. Núna árið 2025 er Aðalbjörg RE búinn að veiða 90 tonn í ellefu róðrum og mest 11 tonn og ólíkt árinu 2024 er Aðalbjörg RE núna kominn til Sandgerðis.
Flóaveiði
Siggi Bjarna GK og Benni Sæm GK hafa hangið lengst á veiðum í Flóanum, en þeir hafa reyndar ekki farið langt inn í flóann, verið að mestu við veiðar útaf Garðinum og Garðskaga, og hefur þeim báðum gengið ansi vel og þá að mestu með kolann. Siggi Bjarna GK er kominn með 98 tonn í ellefu róðrum og Benni Sæm GK 81 tonn í ellefu róðrum. Núna hafa tveir línubátar verið á veiðum frá Sandgerði, en Margrét GK var í slipp í Njarðvík en er kominn á veiðar og hefur landað um 7 tonnum í einni löndun. Hinn báturinn er Særif SH og hefur hann landað 59 tonn í fimm róðrum og mest 22 tonn í einni löndun. Aflinn frá Særifi SH er að mestu seldur á Fiskmarkaði Suðurnesja í Sandgerði, en þorskur og ýsa er ekin til vinnslu hjá Kamba í Hafnarfirði.
Veður núna í september hefur nú ekki verið neitt til að hrópa húrra yfir varðandi færabátana, þeir komust á sjóinn snemma í september en síðan ekki neitt. Þeir bátar sem eru á færum voru að eltast við ufsann og fóru í ágúst mjög langt út, um 50 mílur. Núna um helgina fóru þrír bátar út á færunum og var Bjössi á Dímon GK fyrstur og út fór hann í Röstina sem svæðið sem á milli Eldeyjar og Reykjaness er kallað. Óhætt er að segja að ufsinn hafi verið mættur þar því hann fékk um 1,8 tonn, Hawkerinn GK fór líka þarna út og fékk um 1,6 tonn og síðan Stormur GK sem var með um 600 kíló. Allir þessir þrír bátar voru með stóran og mikinn ufsa enda var verðin á mörkuðum fyrir aflann um 250 til 300 krónur á kílóið.
Reyndar er núna að koma sá tími að bátarnir sem munu róa í vetur á færunum munu verða töluvert fáir, og líklega verða þeir varla meira en tíu bátarnir sem munu róa á færum í vetur. Dímon GK er einn af þeim, en hann hefur róið undanfarin ár, allt árið á færunum. Líklega munu Hawkerinn GK, Dóra Sæm HF og Séra Árni GK líka vera á færunum út þetta ár.