Góð veiði, stór árshátíð og byr í seglum
Þá er þessi fíni októbermánuður kominn á enda og nóvember hafinn.
Byrjum á Vísisbátunum og togaranum. Línubátarnir, ásamt Jóhönnu Gísladóttur GK, hættu allir veiðum í lok október vegna þess að Síldarvinnslan, sem á Vísi og þar með þessa báta, hélt stóra árshátíð í Póllandi. Þar safnaðist saman svo til allt starfsfólk fyrirtækisins, meðal annars úr vinnslunum á Seyðisfirði, í Neskaupstað og í Grindavík, ásamt áhöfnum línubátanna Fjölnis GK, Páls Jónssonar GK og Sighvats. Einnig mættu áhafnir togaranna Vestmannaeyjar VE, Bergeyjar VE, Gullvers NS og Jóhönnu Gísladóttur GK, sem og áhafnir uppsjávarskipanna. Allur þessi gríðarstóri hópur, hátt í sjöhundruð manns, fór til Póllands á árshátíðina.
Fram að því var veiðin hjá bátum SVN nokkuð góð. Jóhanna Gísladóttir GK var með 477 tonn í sjö róðrum og af þeim afla var einungis 52 tonnum landað í Grindavík. Vestmannaey VE var með 444 tonn í sex róðrum og þar af var 90 tonnum landað í Grindavík.
Sighvatur GK var með 597 tonn í sex róðrum á línu. Síðasti túrinn varð mjög stuttur vegna árshátíðarinnar og kom báturinn þá með 28 tonn til Hafnarfjarðar. Af þessum 597 tonnum var ein löndun í Grindavík sem nam 117 tonnum.
Páll Jónsson GK var með 557 tonn í fimm róðrum og af þeim afla var 448 tonnum landað í Grindavík í fjórum róðrum.
Þar sem við erum farin að skoða togarana að einhverju leyti höldum við áfram. Frystitogarinn Hrafn Sveinbjarnarson GK kom tvisvar til Grindavíkur með afla, samtals 1368 tonn. Tómar Þorvaldsson GK kom einnig með 821 tonn til Grindavíkur. Sóley Sigurjóns GK hætti á rækju og var á veiðum við Norðurland allan október. Hún landaði ýmist á Siglufirði eða Dalvík og gekk það nokkuð vel. Togarinn var með 529 tonn í fjórum róðrum og mest 150 tonn. Pálína Þórunn GK var líka á veiðum fyrir norðan og eitthvað fyrir sunnan, með 321 tonn í fimm róðrum og mest 76 tonn.
Netaveiðin var fín hjá bátunum. Þegar þessi pistill er skrifaður er fyrsti dagurinn sem Erling KE fer á veiðar á ný, en hann hefur ekki landað neinum afla síðan í lok apríl á þessu ári. Það gekk mjög vel hjá Friðriki Sigurðssyni ÁR sem landaði alls 211 tonnum í tíu róðrum, þar af voru 162 tonn ufsi. Báturinn var að mestu á veiðum með suðurströndinni og var ufsi og þorskur unninn hjá Hólmgrími.
Af netabátunum sem voru á veiðum í Faxaflóa var Halldór Afi KE hæstur með 47 tonn í tuttugu róðrum og mest 7,2 tonn. Emma Rós KE var ekki langt þar á eftir með 46 tonn í átján róðrum og mest 8,5 tonn. Addi Afi GK komst einnig yfir 40 tonnin og var með 42 tonn í tuttugu og einum róðri og mest 6 tonn.
Í nóvember fer að líða að því að línubátarnir komi suður til veiða og reyndar kom fyrsti báturinn suður undir lok októbers. Það var Dúddi Gísla GK sem fór til Grindavíkur og landaði þar tvisvar, um 15 tonnum. Í Sandgerði réru tveir línubátar allan október, það voru Margrét GK og Særif SH. Margrét GK var með 132 tonn í nítján róðrum og mest 15,5 tonn og var sú löndun næststærsta löndun línubáts á landinu í flokki undir 21 tonni. Særif SH var með 156 tonn í fimmtán róðrum og mest 25,2 tonn og sú löndun var stærsta einstaka löndun línubáts að stærð upp að 30 tonnum á landinu.
Áhafnir Margrétar GK og Særifs SH eru ansi sáttar með góðan október.






