Thrifty Fólksbílar

Pistlar

Fyrirgjöf að sigurmarki
Sunnudagur 4. apríl 2021 kl. 06:51

Fyrirgjöf að sigurmarki

Ég verð að viðurkenna að ég er haldin ákveðnu hamfarablæti, fannst ólýsanlega spennandi þegar mannlaus ruggustóllinn í herberginu byrjaði að rugga í jarðskjálftahrinunni og fagnaði eldgosinu eins og góðum sigri Keflavíkur á KR (áður en lengra er haldið vil ég þó taka það skýrt fram að auðvitað óska ég engum neins ills né eignartjóni af völdum þessara hamfara!).

Það er bara svo magnað og á sama tíma afar auðmýkjandi að upplifa kraftinn frá móður Jörð og sjá það svart á hvítu hver það er sem heldur um stjórnvölinn – og hversu heppin erum við að vera uppi á þessum tíma þegar Reykjanesið vaknar eftir 800 ára væran svefn? Til að setja það í samhengi gaus síðast á Reykjanesinu þegar Snorri Sturluson var upp á sitt besta.

Fyrir okkur Reyknesinga er þetta fallega gos uppspretta endalausra tækifæra. Reykjanesið er loksins komið á kortið og mun án efa draga að sér stóran straum ferðamanna þegar lífið kemst í eðlilegan farveg á ný. Við sem hér búum vitum hversu stórkostlegt þetta svæði er. Ég er fyrir löngu búin að missa töluna yfir alla þá gesti sem ég hef sjálf farið með um þetta svæði; erlenda sem innlenda, opinberar heimsóknir jafnt og vinafagnaði. Það sem allir þessir gestir eiga sammerkt er hversu gagnteknir þeir verða af svæðinu. Það sem mér hefur fundist svo magnað er að íslensku gestirnir eru flestir að koma í fyrsta sinn á Reykjanesið og hafa enga hugmynd um hvað það hefur upp á að bjóða. Það breytist núna og það þarf að grípa þetta einstaka tækifæri og gera það vel. Aðgengilegt, lítið og stórkostlega fallegt eldgos í bakgarðinum er fyrirgjöf fyrir markið sem við þurfum að nýta vel.

Á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að gosið hófst hafa margir aðilar staðið sig frábærlega og eiga margfalt hrós skilið. Björgunarsveitirnar, með sveitina Þorbjörn fremsta í flokki, eru auðvitað þar efstar á blaði með öðrum viðbragðsaðilum fyrir að stika gönguleiðir, skipuleggja umferð og tryggja öryggi okkar sem farið hafa að gossvæðinu. Bæjarstjórinn í Grindavík setur jákvæðan tón með yfirveguðum og lausnarmiðuðum viðbrögðum í fjölmiðlum. Landeigendur á Hrauni fá stórt hrós fyrir hvernig þeir hafa brugðist við með skilningi á því að landið þeirra er allt í einu orðið að fjölsóttasta ferðamannastaðnum á Íslandi – eflaust til mjög langs tíma. Ferðamálaráðherrann Þórdís Kolbrún brást einnig hratt við með sérstakri fjármögnun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að bæta aðgengi að svæðinu. Það er líka jákvætt, eins og ég heyrði Þuríði hjá Reykjanes Geopark ræða í ágætu útvarpsviðtali, að nú þegar hafa sveitarfélögin á svæðinu, ferðaþjónustufyrirtæki og fleiri fundað sameiginlega um þessa stöðu og næstu skref.

En þetta verkefni er á sama tíma bæði spretthlaup og langhlaup. Þessum spretthlaupstakti og samstöðu þarf að halda og varast í lengstu lög að missa þetta frábæra verkefni út úr höndunum og í eitthvað karp, nefndir og hreppapólitík þegar teygjast fer á hlaupinu. Það þarf að tryggja nauðsynlega innviði til þess að vernda umhverfið fyrir átroðningi og öryggi gesta – göngustígar, salerni, bílastæði í fyrstu umferð, sem draga svo að sér frekari starfsemi, veitingasölu og aðra afþreyingu. Þarna þurfa skipulagsyfirvöld, landeigendur og aðrir hagaðilar að vinna hratt og vinna vel, hugsa í lausnum.

Og allt mun þetta kosta gríðarlegt fjármagn og það má ekki láta það tefja þessa mikilvægu uppbyggingu. Gjaldtökuumræðan, sem ég þekki aðeins til frá mínu fyrra lífi, fer án efa eina ferðina enn af stað með eldgosakrafti úr öllum helstu skotgröfunum. Hefjum okkur nú upp og drífum þetta áfram af krafti. Við erum öll tilbúin að borga hóflegt gjald til að fá að berja þessa stórkostlegu dýrð augum þegar við vitum að það fer beint í innviðauppbyggingu svæðisins. Gerum þetta saman og tökum öll þátt – þá verður þessi fyrirgjöf að fallegu sigurmarki!