Lyfta.is
Lyfta.is

Pistlar

676 dagar…
Föstudagur 7. janúar 2022 kl. 11:23

676 dagar…

Gleðilegt nýtt Covid-ár. Þegar þetta er skrifað eru rétt tæplega 15.000 manns í einangrun, sóttkví og skimunarsóttkví samkvæmt tölulegum upplýsingum á vefsíðunni covid.is.

Staðfest smit eru 31.070 og 23.095 manns hafa lokið einangrun frá 28. febrúar árið 2020. 83.553 hafa lokið sóttkví. Fjöldi tekinna sýna er 1.392.523. Innlagnir á spítala eru 609, innlagnir á gjörgæslu 101. Látnir eru samtals 37. 

Fullbólusettir eru 283.920 einstaklingar, eða um 90% þjóðarinnar tólf ára og eldri. 159.234 hafa fengið örvunarskammt þar með talinn er undirritaður. Alls hafa verið gefnir hér á landi 716.926 bóluefnaskammtar.

Allt þetta á 676 dögum – frá 28. febrúar 2020 hafa innan við 10% þjóðarinnar smitast af Covid-veirunni.

Hvað kostar þetta? Hvenær á að borga? Er það einhvern tíma rætt? Skiptir það máli? Hafa okkur verið sýnd gögn um aðgerðir stjórnvalda séu rættlætanlegar og borgi sig? Það þarf enginn að æsa sig við þessa spurningu – en hefur íslenska þjóðin fengið að sjá óyggjandi gögn þess efnis að allar þær kvaðir sem á þjóðina eru lagðar séu rættlætanlegar út frá efnahagslegum og heilbrigðissjónarmiðum?

Íslendingar eins og fleiri þjóðir vaða áfram í blindni. Í upphafi faraldursins var þjóðin sammála um að vernda þyrfti veikustu hópana. Þjóðin stóð saman, þetta átti að vera spretthlaup. Eftir fyrsta sprettinn fengum við smá hvíld. Svo hófust bólusetningar. Best að bólusetja tvisvar. Þá væru allir öruggir. Eftir tvær sprautur er betra að fá þrjár. Og viti menn, sú fjórða er á leiðinni.

Hver sá einstaklingur sem leyfir sér að efast um gildi bólusetninga eða vill ekki þiggja slíka er úthrópaður. Hann er „anti-vaccine“. Bara alger fáviti og fífl. Hann er að reyna drepa okkur hin. Innan fárra daga eiga að hefjast bólusetningar á börnum fimm til ellefu ára. Á þessum 676 dögum hefur ekki eitt einasta barn látist af Covid. Einkenni þeirra eru í flestum tilvikum væg. Þeir sem fá væg einkenni eða engin eru sagðir smita síður. Hefur einhver séð gögn sem sýna fram á með óyggjandi hætti að nauðsynlegt sé að bólusetja börn við Covid? Er ávinningurinn af bólusetningum óyggjandi? Hverjar eru aukaverkanirnar?

Ég er ekki andstæðingur bólusetninga né samsæriskenningamaður – en erum við alveg viss um að það sé rétt hjá heilli þjóð að fylgja leiðbeiningum eins embættismanns nánast til út í hið óendanlega? Hyggjuviti eins manns sé fylgt samkvæmt mati hans á hverju? Álagi á Landsspítalann? Er það rétt að yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum sé opinberlega að leggja til að fólk dragi sig inn í skel til að bjarga atvinnulífinu? Er hann sérfræðingur á sviði atvinnulífs? Er eitthvað vit í því að skólastjórnendur séu látnir sinna smitrakningu? Er það réttlætanlegt að einkennalausir séu skikkaðir í einangrun og sóttkví? Virkar gríman? Eru allir að nota hana rétt?

Það skýtur skökku við að ekki sé hægt að fylla íþróttahúsið í Keflavík þegar nágrannaslagur af bestu gerð fer fram á sama tíma og við horfum á tugi þúsunda fylla knattspyrnuvelli í ensku deildinni og nokkur þúsund góðglaðra Breta í Ally Pally að horfa á pílu. Þar þarf enginn grímu.

Á Covid-tímum hafa rétt tæplega 100 manns fallið fyrir eigin hendi á Íslandi. Á árinu 2020 létust 104 vegna slysaáverka, 33 vegna sykursýki, 163 vegna alzheimers, 490 vegna hjartasjúkdóma og 570 vegna illkynja æxla. Hvet alla til að kynna sér Talnabrunn Embættis landlæknis.

Búið ykkur undir enn eitt Covid-árið. Þetta er ekki að fara neitt, nema skipt verði um kúrs. Það er ákvörðun. Ekkert annað.

Ef við skiptum ekki um skoðun í dag, verður morgundagurinn alveg eins og gærdagurinn.