VSFK
VSFK

Mannlíf

Vantar að útbúa betri aðstöðu fyrir listafólk
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
sunnudaginn 22. mars 2020 kl. 07:41

Vantar að útbúa betri aðstöðu fyrir listafólk

Þrjár myndlistarkonur sýna trúarleg verk í Safnaðarheimili Keflavíkurkirkju

Þrjú stór falleg listaverk eru nú til sýnis í Safnaðarheimili Keflavíkurkirkju en þrjár konur af Suðurnesjum standa á bak við sýninguna.  Forsagan er sú að í fyrra, árið 2019, var opnuð sýning í Safnaðarheimili Kópavogskirkju sem bar heitið Helgimynd, táknmál trúarinnar á tímum páska. Verkin voru unnin af félögum í Litku myndlistarfélagi.

Listakonurnar, Bjarnveig Björnsdóttir, Halla Harðardóttir og Sigga Dís Guðmundsdóttir eru félagsmenn í Litku og vildu þær lána Keflavíkurkirkju verk sín gestum og gangandi til ánægju. Víkurfréttir hittu listakonurnar þrjár og spurði hver innblásturinn væri á bak við listsköpun þeirra.

Bjarnveig Björnsdóttir með Dætur Jerúsalem:

Píslarganga Jesú snerti mig

„Ég er ekki mikil kirkjumanneskja og þurfti því að rifja upp kristnifræðisögur, las helling af dæmisögum úr biblíunni. Eldri dóttir mín var stödd í Jerúsalem um það leyti sem ég var að byrja á myndinni og heimsótti þessa fornu, heilögu staði og tók ljósmyndir. Þessar myndir heilluðu mig og ljósmyndin sem hún tók á Golgata, hæðinni þar sem Jesús var krossfestur, snerti mig mjög. Myndin mín fjallar um grátkórinn, konurnar sem grétu við fætur Jesú þegar hann þjáðist á krossinum. Ég punktaði niður söguleg atriði, fyrst og fremst þau sem fjölluðu um píslargönguna. Vinsældir Jesú urðu honum að aldurtila. Á sama tíma og ég var að byrja að mála þessa mynd, sem ég kalla Dætur Jerúsalem, voru erfiðleikar í lífi mínu. Það var því mjög sérstakt að vera að mála þetta efni fyrir sýninguna í Safnarheimili Kópavogs sem gestir Keflavíkurkirkju fá nú að njóta. Umhverfi myndar minnar er frá Golgata og var heilmikið verk að koma öllum hugmyndunum sem ég fékk úr lestrinum í eitt verk. Það tók mig nokkra mánuði að vinna myndina og þurfti oft að hvíla mig á henni því hún gekk nærri mér. Þegar ég kláraði hana fann ég ákveðinn léttleika en á sama tíma var byrjað að rofa til í lífi mínu.“

Halla Harðardóttir með Páskadagsmorgunn:

Boðskapur um von og betri tíma

„Ég var ákveðin í að hafa litríka og bjarta mynd sem fagnar því sem Kristur gaf okkur, þegar hann reis upp frá dauðum. Í verkinu mínu vildi ég hafa boðskap um von, betri tíma og trúna á að hið góða muni sigra. Ég er ekki kirkjurækin í dag en mamma var alltaf í kirkjukórnum og ég er alin upp í kristinni trú. Við fórum alltaf í kirkju á jólum og ég geri það enn. Vissulega rifjaðist allt upp þegar ég tók þátt í þessu verkefni en ég gluggaði einnig í ýmis trúarleg rit. Verkið mitt er túlkun mín á því sem gerðist á páskadagsmorgni. Þarna er engill drottins fyrir utan gröf Jesú, að færa Maríu mey friðarlilju. Það tók mig fjóra mánuði alls að vinna verkið en mér leið mjög vel þegar ég var að mála myndina. Það eru þessar andstæður sem kallast á í verkinu, sorgin vegna krossfestingarinnar og gleðin á upprisudeginum, á páskadagsmorgni.“

Sigga Dís með verkið Upprisan:

Málar mest litríkar myndir

„Það var gaman að mála þetta verk. Ég einblíndi á upprisuna og gleði þegar ég var að mála myndina mína. Ég mála alltaf í litum og ákvað að gera það einnig í þessu verki því það er mér mjög eðlilegt. Ég vinn mikið með börnum sem myndlistarkennari og náði í barnabækur sem fræða um Jesúm, barnabiblíuna og fleiri kristilegar barnabækur. Ég var alltaf mjög virk í sunnudagaskóla með börnunum okkar og tók örugglega pólinn út frá börnum þegar ég var að mála því ég hef mjög gaman af að umgangast þau. Það eru trúarleg tákn í verkinu, friðardúfan, þrír krossar og Golgatahæð sem vísa í minningar sem gleymast okkur ekki sem lásum sögur um Jesú.“

Vantar sárlega húsnæði fyrir listafólk í Reykjanesbæ

„Við ákváðum að lána Keflavíkurkirkju þessar myndir og sóknarnefnd vildi endilega sýna þessi verk í safnaðarheimili kirkjunnar. Við málum allar heima hjá okkur í dag en erum félagsmenn í Félagi myndlistarmanna í Reykjanesbæ og höfum aðgang að Svarta pakkhúsinu. Því miður er það húsnæði ekki nógu heilbrigt lengur vegna mygluskemmda og þarf svo sannarlega að lagfæra það. Efri hæðin er alveg lokuð vegna brunahættu og þar sem ekkert hefur verið haldið við er mygla farin að taka yfir. Neðri hæðin er ennþá eitthvað skárri og hittast félagsmenn þar stundum. Bæjaryfirvöld hafa sett þessa aðstöðu listamanna, Svarta pakkhúsið, á niðurrifaskrá sem er mjög leitt enda staðsetningin frábær í sögulegu húsi. Það vantar sárlega húsnæði fyrir listafólk í Reykjanesbæ, í bæ sem vill kalla sig lista- og menningarbæ, vantar sýn fyrir þá listsköpun sem þegar á sér stað,“ segja þær stöllur að lokum.