Veðurstofan hækkar í appelsínugult: Samgöngutruflanir líklegar síðdegis
Veðurstofan hefur hækkað viðvaranir fyrir Faxaflóasvæðið í appelsínugular síðdegis, vegna mikillar snjókomu og skafrennings. Gul viðvörun er í gildi til klukkan tvö í dag en appelsínugul viðvörun tekur síðan við frá klukkan tvö og til miðnættis.
Samkvæmt uppfærðum viðvörunum verður talsverð snjókoma að morgni og um hádegi, með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum, einkum sunnan til á svæðinu.
Síðdegis og fram á kvöld gengur í norðan 10–15 m/s með mikilli snjókomu og skafrenningi. Búast má við talsverðum samgöngutruflunum, sérstaklega sunnan til á Faxaflóasvæðinu. Fólk er hvatt til að sýna aðgát, fylgjast grannt með veðurspám og fresta óþarfa ferðalögum ef hægt er.








