Nýtt líf undir sólinni á Tenerife
Keflvíkingurinn Davíð Kristinsson og fjölskylda hans hafa skapað sér nýtt líf í fjallabænum Guía de Isora á suðvesturhluta Tenerife, þar sem friður, sól og eðlur sem heimiliskettirnir eltast við eru hluti af daglegu lífi.
Á sólríkum sunnudegi í bænum Guía de Isora, uppi í fjöllunum á suðvesturhluta Tenerife, tekur á móti blaðamanni Keflvíkingurinn Davíð Kristinsson. Hann býr þar ásamt eiginkonu sinni Evu Ósk Elíasardóttur, dætrunum Elísabetu (14 ára) og Agnesi Ingu (10 ára) – og ekki má gleyma köttunum Póló og Simba, sem hlaupa um garðinn á eftir eðlum á meðan spjallið stendur yfir.
„Þeir eru sannkallaðir götustrákar,“ segir Davíð og brosir þegar einn þeirra birtist með sand á nefinu. „En þeir hafa gefið heimilinu alveg nýtt líf.“
Þriðja dóttirin, Alís Lilja (17 ára í desember), er í framhaldsskóla á Íslandi.
Friður, ró og betra líf
Þegar Davíð er spurður hvað hafi dregið fjölskylduna suður í sólina er svarið skýrt:
„Friður, ró og möguleikinn á betra lífi.“
Hann segir að ferðin sem breytti öllu hafi verið árið 2016, þegar þau komu fyrst í frí til Tenerife.
„Við áttum okkur á því að við höfðum ekki farið í neina sólarlandaferð frá 2002! Þá fékk ég loksins frið í hugann og áttaði mig á því að það er í lagi að slaka á.“
Eftir þá ferð fór fjölskyldan oftar til eyjunnar og árið 2018 hófu þau að skoða möguleikann á að kaupa eign.
„Við vorum með mörg járn í eldinum á Íslandi og þá langaði okkur að eignast friðarrými. Þegar maður er með mikið af verkefnum þarf maður stundum að láta sig hverfa.“
Fyrsta húsið – og ferðalag í gegnum COVID
„Við keyptum fyrsta húsið okkar rétt fyrir COVID,“ rifjar Davíð upp.
„Það var raðhús sem við fengum afhent í júní 2020. Við þurftum að komast hingað út í gegnum krókaleiðir því ekkert beint flug var í gangi.“
Húsið notuðu þau fyrst sem tilraun til að prófa lífið á Tenerife, og það gekk vonum framar.
„Við ákváðum að leigja húsið út og fara í stærra verkefni. Þá keyptum við uppsteypt hús sem hafði staðið óklárað í átta ár. Það var bara hringur af súlum, múrsteinshlaðið á milli og engar lagnir.“
Davíð og Eva tóku til hendinni og breyttu húsinu í heimili.
„Við sögðum frá byrjun að þetta myndi taka þrjú ár og við erum nú komin 80–90% með það. Húsið er um 550 fermetrar á íslenskan mælikvarða, en Spánverjarnir telja svalir með og segja þetta 750!“
Guía de Isora – bæjarandinn og fólkið
Bærinn sem fjölskyldan býr í heitir Guía de Isora, sem er jafnframt nafn héraðsins.
„Þetta er rólegur og rótgróinn bær. Kirkjan hér í miðbænum er frá árinu 1760 og allt svæðið í miðbænum er á minjaskrá UNESCO,“ segir Davíð.
Íbúarnir tóku Íslendingunum með forvitni
„Fyrst var svona: ‘Bíddu, hver eruð þið eiginlega?’“ segir hann og hlær.
„En svo sáu þeir að við ætluðum að gera þetta fallegra og betra. Eftir mánuð vorum við orðin heimamenn, borgum skatta, eigum fyrirtæki og vinnum með Kanarí-búum. Við erum ekki ferðamenn heldur íbúar.“
Húsbygging í fjöllunum
„Við lærðum heilan helling,“ segir Davíð um byggingarferlið.
„Ég hef þurft að henda út tuttugu mönnum úr vinnu. Kanarí-mennirnir eru frábærir verkmenn ef maður stýrir þeim rétt.“
Hann segir að verkefnið hafi hafist í mars og að þau hafi flutt inn rétt fyrir jól, þó margt hafi verið eftir.
„Við héldum svo áfram eftir því sem fjárhagurinn leyfði.“
Í dag rekur Davíð eigið fyrirtæki í byggingaverktöku og er með þrjú hús í gangi.
„Ég verkstýri verkefnum fyrir Íslendinga, Þjóðverja og fleiri og er að klára byggingafræðina mína í desember.“
Frá rafiðnfræði í byggingafræði
Davíð kláraði rafiðnfræði í Háskólanum í Reykjavík áður en hann sneri sér að byggingafræði.
„Mig hefur alltaf langað að verða arkitekt, en byggingafræði er meira lausnamiðuð. Það hentar mér betur.“
Hann segir að námið hafi gengið vel þrátt fyrir flutninginn.
„Ég flýg reglulega heim í staðlotur, það er ekkert mál. Flugið hingað tekur aðeins fimm og hálfa klukkustund.“
Lífið í sólinni
Á meðan við tölum liggja kettirnir Póló og Simba úti á veröndinni, hálfsofandi í sólinni. Skyndilega þýtur Póló af stað, eltir eðlu undir útigrillið á þaksvölunum og hefur betur í viðureigninni.
„Þeir eiga hér sitt eigið paradísarlíf,“ segir Davíð.
Lífið hjá kisunum hefur þó ekki alltaf verið paradís. Þeir eru „götustrákar“ sem fjölskyldan tók að sér og hafa ekki alltaf farið varlega.
„Póló hefur einu sinni dottið ofan af þaksvölunum, átta metra niður á stéttina,“ segir Davíð. „Við brunuðum með hann til dýralæknis, en í dag lætur hann eins og það hafi aldrei gerst.“
Veðrið í Guía de Isora er, að sögn Davíðs, fullkomið.
„Við erum um fjórum gráðum svalari hér uppi í fjöllunum en niðri við ströndina. Það er alltaf gott veður, þó stundum sé skýjað. Kaldasti tíminn er um 15 gráður á næturnar – það finnst okkur bara notalegt!“
Húsið er vel einangrað og notast er við viftur til loftkælingar. „Ég keypti samt litla kælingu fyrir hitabylgjur. Það er eiginlega meiri lúxus en nauðsyn.“
Sjálfbær framtíð
Davíð sýnir stoltur þaksvalirnar þar sem sólarsellur glansa í sólinni.
„Sólskyggnið er í raun rafmagnsframleiðsla,“ útskýrir hann. „Þegar við setjum upp síðustu panelana á bílskúrinn sem ég byggi næst get ég aftengt húsið alveg frá rafveitunni. Þá verðum við fullkomlega sjálfbær.“
Vatnið kemur svo beint úr fjöllunum.
„Guía de Isora er vatnsmesta héraðið hér á suðurhlutanum. Ég setti samt upp hreinsibúnað, þannig að við drekkum bara kranavatn – alveg tært.“
Börnin ganga í opinberan skóla í bænum.
„Við prófuðum einkaskóla fyrst, en þar var umhverfið kalt og þau lærðu ekki spænsku. Í opinbera skólanum var tekið frábærlega á móti okkur – allt hlýlegt og manneskjulegt.“
Davíð og Eva hyggjast sjálf fara í spænskunám á nýju ári.
„Ég tala góða iðnaðarmanna-spænsku,“ segir hann og hlær, „en nú ætlum við að verða reiprennandi. Námið er tvisvar í viku og þar er bara talað – og talað!“
Nýtt jafnvægi
Fjölskyldan lifir nú á leigutekjum bæði á Íslandi og á Tenerife.
„Ég þarf í raun ekki að vinna nema tvær til þrjár klukkustundir á dag,“ segir Davíð.
„Þá get ég sinnt verkefnum og fjölskyldunni í ró og næði. Þetta er draumi líkast.“
Þau reka þrjú hús í skammtímaleigu undir nafninu gistingtene.is og Davíð sinnir einnig teiknivinnu, meðal annars fyrir Keflvíkinga.
Eldfjöll, Kalíma og lífið áfram
Á meðan kettirnir skjótast hjá, eflaust að eltast við smáeðlu, nefnir Davíð að Tenerife sé lifandi eldfjallaeyja.
„Við búum rétt hjá El Chinyero, sem hefur ekki gosið í 907 ár. Þegar við fengum SMS vegna almannavarnaæfingar á dögunum þá bara yppti maður öxlum – þetta er hluti af lífinu hér.“
Og þegar Kalíma-sandstormurinn blæs upp úr Sahara?
„Þá þarf bara að þvo veröndina,“ segir hann hlæjandi.
„Við erum ekki að fara neitt“
Davíð segir að þau hafi upphaflega ætlað að prófa að búa á Tenerife í þrjú ár. Nú eru þau liðin og enginn vill flytja heim í kuldann á Íslandi.
„Okkur líður vel. Þetta er heimilið okkar. Ég er ekki tilbúinn að skipta þessu út.“
Á veröndinni liggja Póló og Simba í skjóli pálmatrjánna. Lífið á Tenerife virðist ekki aðeins hafa heillað fjölskylduna heldur líka kettina sem nú njóta lífsins í sínu eigin sólríka ævintýri.








