Kalka atvinna okt 25
Kalka atvinna okt 25

Mannlíf

Ja, fussum svei! — Kardemommubærinn í Frumleikhúsinu
Föstudagur 24. október 2025 kl. 09:40

Ja, fussum svei! — Kardemommubærinn í Frumleikhúsinu

Leikfélag Keflavíkur býður bæjarbúum og gestum í einn vinsælasta fjölskyldusöngleik allra tíma – Kardemommubæinn eftir norska rithöfundinn Thorbjörn Egner. Frumsýnt verður sunnudaginn 26. október kl. 16.00 í Frumleikhúsinu, og má finna allar nánari upplýsingar um sýningartíma á tix.is.

Það má með sanni segja að hvert mannsbarn á Íslandi þekki Kardemommubæinn – hvort sem það hefur séð sýninguna, hlustað á plötuna eða heyrt um ræningjana, Soffíu eða Tóbías. Sögurnar og lögin hafa fylgt kynslóðum og skapað hlýjar minningar.

Leikfélag Keflavíkur, eitt öflugasta áhugaleikfélag landsins, hefur fengið Gunnar Gunnbjörnsson til að leikstýra verkinu. Gunnar er margreyndur leikari og leikstjóri sem hefur komið að fjölda uppsetninga, bæði hjá atvinnu- og áhugaleikhópum. Hann kemur að verkinu með ferskar hugmyndir og nýjan tón í þessa sígildu sögu.

Leikarahópurinn er samansettur af reynslumiklum leikurum og nýliðum sem stíga sín fyrstu skref á sviði – en allir eiga það sameiginlegt að brenna fyrir því að gleðja áhorfendur og skapa töfra á sviðinu. Í þessari uppsetningu hefur tónlistin fengið lítið „tvist“ sem gefur verkinu nýtt líf, án þess að missa hið ástsæla eðli sínu.

„Það er einlæg ósk okkar allra sem stöndum að sýningunni að Suðurnesjamenn og gestir þeirra kíki á Kardemommubæinn,“ segir stjórn Leikfélags Keflavíkur.

„Þetta er sýning fyrir alla fjölskylduna – og það verður nóg um söng, gleði og hlátur.“

Dubliner
Dubliner