Miðasala hafin á tónleika Grindavíkurdætra í Stapa
„Ég þoli ekki mánudag“ – tónleikar til minningar um rýminguna í Grindavík
Miðasala er hafin á sérstaka tónleika Grindavíkurdætra og gesta sem fram fara í Stapa í Hljómahöll mánudagskvöldið 10. nóvember kl. 20:00. Tónleikarnir bera titilinn „Ég þoli ekki mánudag“ og eru tileinkaðir Grindvíkingum, tveimur árum eftir að bænum var rýmt þann örlagaríka dag árið 2023.
Markmiðið með tónleikunum er að skapa vettvang þar sem Grindvíkingar geta hist, rifjað upp, minnst og speglað sig í hvert öðru – á tímamótum sem minna á sameiginlega reynslu, styrk og samstöðu bæjarbúa.
„Við viljum að þetta kvöld verði bæði hjartnæmt og uppbyggilegt. Tónlistin á að minna okkur á seiglu samfélagsins, á vonina og það sem heldur okkur saman,“ segir Berta Dröfn Ómarsdóttir, kórstjóri Grindavíkurdætra.
Á efnisskránni eru fjölbreytt lög sem endurspegla bæði baráttu og bjartsýni, og tengja saman hug og hjarta Grindvíkinga. Á tónleikunum munu koma fram Sigga Beinteins, Vigdís Hafliðadóttir og Tómas Guðmundsson sem sérstakir gestir.
Hljómsveit kvöldsins skipa:
-
Ásdís Magdalena Þorvaldsdóttir á píanó
-
Þorvarður Ólafsson á gítar
-
Jón Árni Benediktsson á bassa
-
Þorvaldur Halldórsson á trommur
Tónleikarnir fara fram í Stapa í Hljómahöll þann 10. nóvember kl. 20:00, og miðasala er þegar hafin á tix.is.