Draumur rætist hjá Elmu í Þjóðleikhúsinu
Elma Rún Kristinsdóttir hefur lengi látið sig dreyma um að koma að uppsetningu á stóru leikverki í atvinnuleikhúsi á Íslandi og nú hefur sá draumur ræst fyrr en hún þorði að vona. Tækifærið kom í uppsetningu á hinum þekkta söngleik um Línu Langsokk sem var frumsýndur í Þjóðleikhúsinu nýlega. „Þetta hefur verið draumur lengi en draumur sem ég hélt að myndi ekki rætast svona snemma.“
Tækifærið kom að eigin sögn eftir mikla vinnu og vaxandi verkefni undanfarin ár. „Ég hef verið að semja og vinna mikið. Þegar tækifærið kom, þá bara greip ég það – ótrúlega heppin.“
Elma stofnaði Ungliðahúsið í fyrra og var þar áður í stóru hlutverki hjá Danskompaníi. Hún telur að þessi vinna hennar og verkefni hafi hjálpað henni að þróast sem listamaður. „Maður byggir upp þekkingu og opnar ný tækifæri,“ segir hún. Með aukinni reynslu hefur hún stigið inn í fjölbreyttari hlutverk – nú síðast sem dans- og hreyfihöfundur í stórsýningu Þjóðleikhússins, Lína Langsokkur.
„Ég sé um allar dans- og sviðshreyfingar,“ útskýrir hún. „Öll dansatriði, sviðskiptingar, númer – þetta er mjög kraftmikil sýning.“
Hún vann eftir handriti en leyfir innsæinu að móta uppsetninguna. „Ég fæ handritið, les mig inn í söguna og heiminn og byrja bara að synda – þetta kemur með reynslunni.“
„Ekki bara leikrit – heldur orka“
Elma segir að sýningin standi upp úr fyrir kraft og fjölbreytni. „Núna eru stór hópatriði og mikið af börnum sem gefa sýningunni sérstakan kraft.“ Þrátt fyrir að hafa ekki menntað sig formlega í leikstjórn eða sviðshreyfingum, þá hefur hún byggt hæfileikana upp með vinnu. „Þetta er eitthvað sem maður lærir með því að gera – maður hoppar bara út í djúpu laugina og lærir á meðan maður syndir.“
Að taka þátt í sýningu á þessu stigi hefur þó ekki verið átakalaust. „Ég vissi að ég gæti þetta, en þetta hefur líka verið krefjandi. Ég hef þurft að leysa ýmsa hluti sem ég hafði ekki prófað áður – en það er líka það sem gerir þetta svo skemmtilegt.“
Þjóðleikhúsið: Draumasamstarf
Víkurfréttir hittu Elmu Rún fyrir nokkrum vikum, rétt fyrir frumsýningu á Línu. Hún segir að tilfinningin að mæta til vinnu í Þjóðleikhúsinu hafi verið í smá tíma að síast inn. „Þetta er bæði faglegt og skapandi. Það ríkir mikil samvinna og góð orka í húsinu – maður fær innblástur á hverjum degi.“
Hún segir það sérstaka upplifun að koma úr litlu framleiðsluumhverfi, þar sem fáir unnu öll hlutverk og verkefnin, yfir í stórt teymi með lýsingu, búninga og tækniliði. „Það verða eiginlega bara töfrar til þegar svona margir snillingar koma saman.“
Ungt fólk frá Suðurnesjum í sviðsljósinu
Elma hefur einnig glaðst yfir því hve mörg ungmenni af Suðurnesjum hafa náð árangri í leiklistarverkefnum en sex krakkar frá Suðurnesjum taka þátt í Línu Langsokk. „Þriðjungur ungmennanna í Línu er frá Suðurnesjum – það segir sitt um hæfileika þeirra.“
Yfir 800 manns sýndu áhuga á að vera með í Línu og mættu í prufur fyrir sýningar og því er það athyglisvert hversu mörg ungmenni frá Suðurnesjum hafi verið valin. „Það er svo mikil stemning í gangi. Ég held að það væri auðvelt að setja upp sýningu eingöngu með fólki frá Suðurnesjum.“
Eru fleiri ungmenni frá svæðinu í öðrum sýningum?
„Já í nokkrum verkum, m.a. í Blómunum á þakinu í Þjóðleikhúsinu. Svo eru fimm í Jólapartí Skoppu og Skrýtlu í Borgarleikhúsinu og tvær komast í Galdrakarlinn í Óz eftir áramót. Það eru sjö í Þjóðleikhúsinu og sjö í Borgarleikhúsinu – stórkostlegt!“
Ungleikhúsið áfram í stuði
Heldur þú áfram með Ungliðahúsið?
Já, við ætlum að halda áfram – þetta hefur verið svo ótrúlega gaman.
Elma segir að starfið í Ungleikhúsinu haldi áfram eftir frábæran árangur á heimsmeistaramótinu í dansi í sumar. Þið náðuð frábærum árangri á heimsmeistaramótinu í sumar – hvernig upplifðirðu það?
„Það var eiginlega pínu rugl. Maður áttaði sig ekki á umfangi þess fyrr en eftir á. Þetta var stórt og mikið og maður þurfti smá stund til að melta það.
Eru krakkarnir okkar svona klárir og duglegir?
„ Já, þau eru ótrúlega dugleg. Þetta er mikil vinna – æfingar allt árið, líka um jól og páska. Þegar þau leggja svona mikið á sig, þá skilar það sér.“
Það er freistandi að fá að vita hvernig venjulegur vinnudagur líti út hjá þér?
„Yfirleitt snýst allt um vinnuna. En ég reyni alltaf að komast í göngutúr – oft á kvöldin með heyrnartól að hlusta á eitthvað. Annars er ég að alltaf að klippa tónlist, skrifa, eða vinna í verkefnum.
Elma og hennar fólk gerðu mjög flott video innslög í vor sem voru sýnd á samfélagsmiðlum og og eitt sló í gegn á Youtube og hafa nokkrar milljónir horft. Til stendur að gera nýtt núna í haust.
Viðtal við Elmu Rún verður einnig í Suðurnesjamagasíni í vikunni.