Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Mannlíf

Lífið breyttist mikið
Laugardagur 11. október 2025 kl. 06:19

Lífið breyttist mikið

Kristjana Benediktsdóttir er þrjátíu og eins árs tannlæknir í Keflavík og ætlar að gefa vinnuna sína föstudaginn 10. október til Krabbameinsfélagsins í tilefni af bleikum degi í bleikum október en mánuðurinn er tileinkaður krabbameini. „Þetta félag er mér er mér mjög kært eftir mína reynslu eftir að hafa greinst með krabbamein aðeins 23 ára,“ segir hún. Kristjana verður ekki ein því tanntæknirinn hennar, hún Nellý ætlar að vera henni til halds og trausts og gefa sömuleiðis afkomu sína þennan dag. Blaðamaður Víkurfrétta heimsótti Kristjönu í vikunni og ræddi við hana um þetta og reynsluna við að greinast með krabbamein.

„Ég greindist með mjög sjaldgæft krabbamein sem er kallað slétt vöðvafrumu krabbamein, og er yngsti einstaklingurinn hér á landi sem hafði greinst með þá tegund í marga áratugi, aðeins 23 ára. Þannig að ég hef farið sjálf í gegnum þessa baráttu en er samt heilsuhraust og gengur vel í dag. Þannig að þetta er skiptir mig rosalega miklu máli, þetta málefni og ég vil hjálpa til.“

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Nýbyrjuð í tannlækninum

Kristjana var nýbyrjuð í tannlæknanáminu þegar hún greindist og búin með eitt ár í náminu þegar áfallið skall á. „Lífið breytist rosalega mikið eftir svona reynslu og ég átti mjög erfitt heilt ár eftir krabbameinið því ég svaf mjög lítið út af martröðum. Svo er maður ennþá að díla við þetta aðeins í dag þótt þetta sé búið. Það er alltaf einhver smá heilsukvíði í manni en á móti hefur þetta líka styrkt mann alveg rosalega mikið. Þrátt fyrir erfiða reynslu er ég líka þakklát fyrir hana því mér finnst ég að lifa aðeins öðruvísi lífi en kannski margir jafnaldrar mínir sem lifa svolítið hratt þó maður lifi auðvitað líka hratt. En ég var fljót að koma mér niður á jörðina. Núna lifi ég bara í núinu og geri ég bara nákvæmlega  það sem mig langar að gera og bíð ekki með hluti.“

Kristjana og Benedikt faðir hennar skoða myndir í tölvuskjánum.

Þannig að þetta hefur breytt viðhorfi þínu til lífsins?

„Algjörlega og ég passa mig að drekkja mér ekki í of mikla vinnu og gera ekki eitthvað sem mér leiðist. Þannig að ég passa mig á að halda miklu jafnvægi og gera líka hluti sem mér finnst skemmtilegir.“

Snemma beygist krókurinn

Áhuginn hjá Kristjönu á tannlækningum kviknaði snemma. Hún var bara 14 ára þegar hún ákvað að verða tannlæknir en hún fékk að hefja störf ung að árum sem aðstoðarmanneskja eða klínka.

„Ég grínast oft með það við pabba að hann hafi heilaþvegið mig en ég fékk snemma mikinn áhuga á þessu. Þetta hentaði mér, ég er góð í fínhreyfingum, elska föndur og svona þannig að þetta var bara málið. Ég prófaði allskonar á milli í gegnum árin, bara til að kanna hvort mig langaði að gera eitthvað annað. Svo fór ég í klásusinn hérna heima og komst í gegnum hann og ég útskrifaðist sem tannlæknir í fyrra, 2024, en var búin að vera að vinna sem tannlæknir í tvö ár með náminu.“

Þú lendir í veikindum og svo ertu búin að eignast barn og það er ýmislegt búið að gerast á stuttri ævi þinni?

„Já það er mikið búið að ganga á síðustu ár. Það eru sjö ár núna í sumar síðan ég greindist með krabbameinið, þá nýkomin í tannlækninn. Ég greinist á þriðjudegi og ég fór í vinnuna morguninn eftir. Þá var ég flugfreyja hjá Wow og ég fór í morgunflug daginn eftir því ég ætlaði ekki að láta þetta stoppa mig en maður var bara í einhverju móki.“

Áfallið og andlegir djöflar

Hvernig gerðist þetta í byrjun, hvernig eru fyrstu viðbrögðin?
„Þetta var mjög skrýtið. Ég fékk bréf eins og allar konur fá, þegar ég var 23 ára um að koma í leghálsskoðun. Ég var komin í klásus og klára mig í gegnum hann og mig grunaði að ég væri komin með smá einkenni. En ég ætlaði sko ekki að láta neitt stoppa þennan klásus af og ég frestaði því að fara í þessa skoðun. En svo fór ég ári síðar þegar ég var búin með eitt ár í náminu. Það var tekið sýni og þá kom í ljós að þetta var sjaldgæft krabbamein.
Ég greinist á þriðjudegi og mamma fór með mér í viðtalið. Við setjumst niður með lækninum og hann sagði: ‘Ég ætla bara ekkert að bíða með þetta og segja þér. Þú ert með krabbamein.’ Ég man að það kom eitthvað svona hljóð úr mömmu og ég bara dofnaði. Ég  gat ekki staðið í lappirnar eða neitt. Ég grét samt ekki. Þetta var allt svo skrítið, maður fer bara í eitthvað svona „survival mode“, einhvers konar björgunargír getum við sagt.
Mamma fær alveg áfall og svo bara byrjar boltinn að rúlla. Ég fer í myndatökur og blóðprufur og svo í aðgerð þremur dögum eftir að ég greinist og svo fer ég þremur vikum eftir það í jáeinda-skanna í Danmörku.
Þannig að þetta var bara áfram gakk og ég hélt áfram að vinna strax eftir greiningu en fann svo að það gekk ekki upp. Ég fór í morgunflug daginn eftir að ég greinist og ég grenjaði bara alla heimleiðina í fluginu. Þá kom áfallið einhvern veginn yfir mig. Það var nokkrum mánuðum eftir allt ferlið og ég orðin frísk að þá kom einhvern veginn höggið. Manni líður einhvern veginn eins og allir séu búnir að gleyma þessu en maður er ennþá að díla við andlegu djöflana sem koma eftir svona áfall.“

En hvernig er þetta svona nokkrum árum eftir þetta, ertu í stöðugu eftirliti?

Já, ég var í þéttu eftirliti fyrstu fimm árin en krabbameinslæknirinn minn vill hafa mig í eftirliti einu sinni á ári því þetta er þannig tegund af krabbameini, sarcoma heitir það og getur verið svolítið aggressíft. Þannig að ef það er eitthvað vill hann að ég komi og hann skoðar mig mjög vel. Við tökum enga sénsa. En annars er ég bara fullfrísk.“

Þú ert búin að vera eitthvað að leika þér á samfélagsmiðlum með tannlækningarnar. Hvað ertu búin að vera að gera?

„Ég hef reglulega sett inn myndbönd á TikTok og leik mér aðeins þar. Mér finnst það ótrúlega skemmtilegt. En svo er ég bara með minn Instagram reikning sem er reyndar lokaður þannig að ég stjórni því hverjir komi þar inn, því ég er með lítið barn sem ég vil ekki að allir sjái. En það var gaman núna í haust á Ljósanótt. Ég get verið svolítið hvatvís og datt í hug að setja á mig svona tannskraut. Við köllum það demanta. Ég ætlaði að setja fyrst bara einn, þetta eru nú bara svona tannsteinar eða skraut en áður en ég vissi af var ég búin að setja þrjá og tanntæknarnir hérna, vinkonur mínar, búnar að setja á sig steina. Það varð svona hjarðhegðum hjá okkur í fjörinu á föstudegi á Ljósanótt,“ segir Kristjana og hlær.

Mamma Kristjönu, Inga Árnadóttir, er iðulega með annan fótinn á stofunni í ýmsum störfum eða verkefnum. Nú var hún í hlutverki sjúklings Kristjönu sem við sjáum í sjónvarpsinnslaginu.

Varstu að setja eitthvað meira á TikTok?

„Já, svona aðeins tannlæknatengt, ætlaði þó ekki mikið í það því það getur verið krefjandi. Ég fékk hugmynd eftir að einn einstaklingur kom til mín og sagði mér að öll fjölskyldan skoli (munninn) eftir hún skyrpir út tannkreminu eftir að hafa tannburstað sig. Mér fannst það svo áhugavert og þá fattaði ég að það eru rosalega margir sem að gera þetta og ég hugsaði með mér að þetta gæti verið svolítið skemmtilegt á TikTok og skellti því inn.

Svo var það Ellý Ármanns eftirhermu vídeoið mitt. Það var mjög skemmtilegt og enn fyndnara að það var pabbi sem kom með þessa hugmynd. Við vorum inni á kaffistofu og aðstoðarkona hans pabba lætur hann vita að næsti sjúklingur sé komin en hann spyr hana hvað hann sé að fara að gera. ‘Það er viðgerð’ segir hún. Og þá svaraði pabbi: ‘Já, hjartans þakkir’, segir hann og við skellihlógum en það er það sem Ellý segir. Þá datt mér í hug að það gæti verið geggjað að vera með deyfisprautur og gera svona eins og Ellý. Ég setti það á TikTok og varð mjög vinsælt. Síðan hafa nokkrir komið og sagt við brottför: „Hjartans þakkir“.

Ertu að fá fólk á öllum aldri í stólinn hjá þér, gamla karla líka kannski?

„Já, já, á öllum aldri. Ég hef rosalega gaman að því að hafa eldra fólk hjá mér og ég stefni að því að fara og  þjónusta það jafnvel á hjúkrunarheimilum eða sjúkrahúsinu, kannski einn dag í viku. Ég hef mikinn áhuga á eldra fólkinu. Það er búið að lifa lífinu og vill spjalla og hefur oft fallega sögu að segja, og er síðan mjög þakklátt fyrir góða þjónustu. Það gefur manni mikið að spjalla við það. Þetta verður oft spjall á persónulegum nótum.“

Hvað með börnin og yngra fólkið, er það öðruvísi?

„Það er líka gaman að hafa börnin og allan aldur. Það getur verið krefjandi að vera með barn í stólnum því maður vill ná góðri samvinnu og þau fái góða tilfinningu í stólnum. Það skiptir miklu máli að þau gangi glöð út.“ 

En þarf maður ekki að vera sérstök týpa til að vera að vinna svona í munni fólks?

Kristjana hlær. „Ég heyri þetta mjög oft. Mér finnst þetta ekkert ógeðslegt. Ég gæti til dæmis ekki unnið við að gera eitthvað við tær fólks.“

„Demanta-skrautið“ á tönnum Kristjönu.

Blaðamaður freistast til þess að spyrja ungu konuna hvernig sé þegar fólk er með andremmu?

„Við erum náttúrulega með maska og finnum lyktina ekki eins sterkt. Það er rosalega mismunandi hvað veldur andremmu. Það geta verið hálskirtlar eða bakflæði en líka auðvitað tengt tönnunum. Það er ekki góð lykt af bakteríum í munni en þetta er hluti af okkar starfi að díla við.“

En að lokum Kristjana, er eitthvað nýtt í tannumhirðunni, t.d. hvað varðar burstun?

„Það sem flestir gleyma í burstun er að bursta vel upp á tannholdið og nota tannþráð. Það er mikilvægt. Svo bara að bursta tvisvar á dag, morgnana og fyrir svefninn.“

Við bíðum eftir að sjá það á TikTok.

Við sýnum líka frá þessari heimsókn í innslagi á vf.is og í Suðurnesjamagasíni.

Safnahelgi 2025
Safnahelgi 2025