Brons
Brons

Mannlíf

Safnahelgi á Suðurnesjum búin að festa sig kyrfilega í sessi
Ásrún Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, Eggert Sólberg Jónsson, sviðstjóri frístunda- og menningarsvið Grindavíkur, og Árni Gísli Árnason, sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs hjá Suðurnesjabæ.
Þriðjudagur 7. október 2025 kl. 16:06

Safnahelgi á Suðurnesjum búin að festa sig kyrfilega í sessi

-fjölbreytt dagskrá og frítt inn 11.-12. október

Safnahelgi á Suðurnesjum hefur verið við lýði allt frá árinu 2009 og hefur verkefninu stöðugt vaxið fiskur um hrygg og um helgina fer Safnahelgin 2025 fram. Kynningarfundur var haldinn í Grindavík þriðjudaginn 7. október, í Gula húsinu svokallaða en það hefur verið félagsheimili knattspyrnudeildar UMFG síðan húsið var reist árið 1986. Segja má að Gula húsið sé búið að vera olnbogabarn í Grindavík undanfarin ár en nú er búið að finna húsinu nýtt og göfugt hlutverk, það mun hýsa ferðafólk sem kemur til Grindavíkur og verður m.a. hægt að horfa á stuttmynd um sögu hamfaranna, sem grindvíski kvikmyndagerðarmaðurinn Óskar Kristinn Vignisson vann.

Ásrún Kristinsdóttir er forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, hún lítur á Safnahelgi á Suðurnesjum árið 2025, sem merk tímamót í upprisu Grindavíkurbæjar.

„Ég er mjög ánægð að vera hér í Gula húsinu í dag en við höfum grínast með að það hefur verið nett olnbogabarn hér í Grindavík en sem betur fer er búið að finna húsnæðinu gott verkefni til framtíðar. Hugmyndin kemur í raun út frá samstarfsverkefni nokkurra aðila, landslagshönnuða og -arkitekta. Þegar vinna hófst við að skipuleggja hvernig við getum tekið á móti ferðamönnum og ákveðinn hringur ferðamannsins myndaður, benti einn arkitektanna á að Gula húsið væri tilvalinn upphafspunktur. Hér verður hægt að sjá stuttmyndina um hamfarirnar sem Óskar Kristinn gerði, hér verður hægt að bjóða upp á veitingar og ferðamaðurinn getur skipulagt ferðalag sitt um Grindavík hér í Gula húsinu. Gula húsið geymir hluta sögu Grindavíkur og er frábært að það þjóni öðruvísi tilgangi í framtíðinni. Það er frábært tækifæri að opna þetta á Safnahelginni og hvet ég hér með alla Suðurnesjabúa og aðra gesti, til að renna til Grindavíkur og sjá það sem fyrir augu ber,“ sagði Ásrún.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25
Ásrún Kristinsdóttir.
Safnahelgi á Suðurnesjum síðan 2009

„Þetta er skemmtilegt samstarfsverkefni sveitarfélaganna á Suðurnesjum, öll söfn verða opin, aðgangur er ókeypis og vonandi munu sem flestir kíkja á okkur yfir helgina,“ segir Eggert Sólberg Jónsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkurbæjar.

„Þessi helgi hefur verið haldin síðan 2009, við Grindvíkingar gátum verið með í fyrra en það stóð tæpt, bærinn var bara nýopnaður og við gátum boðið upp ljósmyndasýningu frá hamfaratímanum á planinu við Festi og sú sýning stendur enn. Í ár erum við mjög stolt yfir að geta boðið upp á sýningu í Gula húsinu sem flestir tengja við fótboltann, húsið breytist að hluta í bíósal og erum við spennt að sýna myndina sem Óskar Kristinn vann um áhrif hamfaranna á líf Grindvíkinga. Myndin hefur farið víða um heiminn en er fyrst núna komin í almenna sýningu.“

Eggert Sólberg Jónsson.
Breyta almenningsálitinu

Eggert hefur trú á að umræðan um Grindavík muni breytast og er bjartsýnn á framtíð bæjarins.

„Grindavík hefur iðað af lífi í sumar, fjölmargir viðburðir haldnir og fjöldi erlendra ferðamanna hefur verið mikill. Ég myndi vilja sjá landa mína gefa Grindavík betri gaum og vonandi fer öll umræða að vera bara á jákvæðum nótum. Það er búin að vera umræða eftir sjónvarpsþátt á dögunum en ég held að margir Íslendingar viti ekki hvernig staðan er í Grindavík og því hvet ég alla til að kíkja til okkar í heimsókn og sjá sjálf hvernig staðan er. Í leiðinni minni ég á fjölmargar flottar sýningar á Safnahelginni annars staðar á Suðurnesjum. 

Á vefnum safnahelgi.is má sjá fjölbreytt úrval viðburða sem verða í boði á safnahelginni 11.-12. október.

Safnahelgi 2025
Safnahelgi 2025