Bullandi sóknarleikur hjá Grindavík Guesthouse
„Þetta hefur blundað í okkur frá því að við fluttum úr kjallaranum og viðbyggingunni í annað húsnæði í Grindavík sumarið 2023, skömmu áður en hamfarirnar gengu yfir Grindavík,“ segir Dagmar Valsdóttir sem á og rekur Grindavík Guesthouse ásamt eiginmanni sínum, Hjalta Jóni Pálssyni. Dagmar sem var í viðtali í Víkurfréttum hefur verið ötul baráttukona fyrir uppbyggingu Grindavíkur og skipulagði mótmæli Grindvíkinga sem fóru fram við afleggjarann að Bláa lóninu þegar síðasta eldgos átti sér stað um miðjan júlí. Þegar Uppbyggingarsjóður Suðurnesja opnaði fyrir umsóknir atvinnurekenda í Grindavík stukku Dagmar og Hjalti á tækifærið og fengu á dögunum styrk sem fer í mjög spennandi uppbyggingu. Nú hefur bæst við nýr styrkur frá Byggðastofnun sem þau ætla að reyna að nýta sér.
Dagmar og Hjalti mynda hinn fullkomna dúett, hún hugmyndarík en Hjalti sá jarðbundni með framkvæmdahliðina.
„Um leið og við fluttum til Grindavíkur þá tókum við ástfóstri við bæinn. Við bjuggum fyrst í kjallaranum á gistihúsinu en fluttum svo í annað húsnæði sumarið 2023 en náðum því miður ekki að búa þar lengi því við vitum öll hvað gerðist í nóvember það ár. Tíminn síðan þá hefur virkilega reynt á en staða okkar atvinnurekenda í Grindavík hefur verið vægast sagt erfið og besta dæmið um það var kannski í sumar þegar síðasta eldgos skall á. Eðlilega þurftum við að rýma bæinn en að við skyldum ekki fá að taka á móti gestum á sama tíma og ferðafólk gat gengið að því gosi eða baðað sig í Bláa lóninu fannst okkur mjög ósanngjarnt og því datt mér í hug að efna til mótmæla og er sannfærð um að þau hafi skilað okkur góðum árangri og breyting verði ef eða þegar næsta eldgos skellur á.
Ég vil hins vegar ekki velta mér meira upp úr því neikvæða, nú er kominn tími til að snúa vörn í sókn og það vil ég meina að við Hjalti séum að gera með þessum fyrirætlunum okkar með gistiheimilið. Við vorum ekki búin að búa lengi í kjallaranum og viðbyggingunni þegar við sáum að fjölskyldan þyrfti að komast í annað húsnæði, við vorum m.a. smeyk um að læti drengjanna okkar myndi trufla gesti okkar og þegar við fluttum út þá sáum við strax hvaða möguleika þessi rými myndu bjóða upp á. Við vorum með þetta í kollinum en eðlilega fóru allar þessar pælingar út um gluggann við hamfarirnar en þegar við gátum hafið rekstur aftur og sáum auglýsinguna um styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurnesja settum við í raun allt á fullt og vorum mjög ánægð með niðurstöðuna og munum hefja framkvæmdir á næstunni. Það er verið að hanna breytingarnar og þegar þær verða samþykktar af Grindavíkurbæ hefst uppbyggingin.“
Kaffihús, skapandi samvera, tónleikastaður og útleiga reiðhjóla
Grindavík Guesthouse er staðsett í hjarta Grindavíkur, við Víkurbrautina sem er aðalgatan í bænum og fyrir miðju samfélaginu.
„Markmið okkar er að fjölbreyta rekstrinum með því að opna kaffihús og handverkshús þar sem saman fara þjónusta, upplifun og sköpun. Þar viljum við bjóða upp á mjög gott kaffi, heimabakað og úrval léttvína. Húsið býður upp á endalausa möguleika og við munum einnig setja upp glerhýsi við viðbygginguna sem skapar notalegt rými. Þetta verður í senn kaffihús og handverkshús þar sem við viljum bjóða upp á ýmsa menningartengda viðburði eins og notalega tónleika, ljóðakvöld og fleira.
Við viljum líka skapa aðstöðu þar sem litlir hópar geta hist og notið skapandi samveru. Þar má hugsa sér kvöld eða helgarnámskeið þar sem fólk kemur saman til að leira, prjóna eða læra nýjar aðferðir af handverksfólki sem kennir flóknari leiðir fyrir lengra komna. Þessi hugmynd á rætur að rekja til Höllu Kristínar Sveinsdóttur sem hafði einu sinni ætlað sér að hrinda í framkvæmd svipuðum hugmyndum en fékk þá ekki tækifæri. Nú viljum við halda áfram með þessa sýn.
Við ætlum einnig að bjóða gestum okkar upp á reiðhjól, bæði venjuleg og rafmagnshjól. Það eru ótal fallegar hjóla- og gönguleiðir í og við Grindavík og því er þetta rökrétt skref í þjónustunni okkar. Annað sem er í smíðum er svokölluð VR upplifun þar sem hægt verður að horfa á myndefni frá Grindavík í sýndarveruleika og upplifa náttúruna á nýjan hátt.
Nú vonum við bara að tónn yfirvalda fari að breytast og uppbygging í Grindavík hefjist á ný. Til þess þarf að vera skóli og leikskóli því öðruvísi er ekki hægt að búa hér með börn. Ég vona að fljótlega verði gefið út að uppbygging muni brátt hefjast og þegar það gerist er ég sannfærð um að bærinn byggist upp á örskömmum tíma. Grindavík hefur alla burði til að verða flottasti ferðamannabær í heimi og þegar það gerist verður frábært að vera komin með hlýlegt kaffi og handverkshús í fullan rekstur. Við erum stútfull af öðrum hugmyndum, væri t.d. ekki snilld ef við myndum gera Grindavík að norðurljósabæ, slökkva götuljósin frá kl 22 eða 23 til 2 á nóttunni svo hægt sé að sjá þetta undur betur? Ég er mjög bjartsýn á framtíð Grindavíkur,“ segir Dagmar að lokum.