Háaleitisskóli er einstakur skóli á landsvísu - umfjöllun og video
Sjö af hverjum tíu nemendum Háaleitisskóla í Reykjanesbæ eru með annað móðurmál
Háaleitisskóli á Ásbrú í Reykjanesbæ er einstakur skóli á landsvísu. Af um 370 nemendum skólans eru um 250 með annað móðurmál en íslensku. Það þýðir að sjö af hverjum tíu nemendum eru innflytjendur eða börn með erlendan bakgrunn. Í Háaleitisskóla eru töluð allt að 30 tungumál og nemendur koma frá um 40 löndum. Það er hægt að segja að skólinn hafi fengið alþjóðlegt yfirbragð í vöggugjöf því á tímum Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli var þetta grunnskóli fyrir börn varnarliðsmanna.
Víkurfréttir heimsóttu Háaleitisskóla í lok síðustu viku og fræddust um merkilega starfsemi sem litast eðlilega af því að 70% nemenda eru af erlendum uppruna. En það sem meira er - að það gengur mjög vel. Í þessari viku birtum við einnig sjónvarpsinnslag í Suðurnesja-magasíni um heimsókn VF í skólann sem sjá má hér neðar.
Lykillinn að velgengninni er að nálgast nemendur af umhyggju og virðingu
„Starfsfólkið er frábært og tilbúið að mæta öllum áskorunum með ást og umhyggju – og þannig hefur tekist að skapa námsumhverfi sem er einstakt, “ segir Unnar Stefán Sigurðsson, skólastjóri Háaleitisskóla. Í skólanum er sjötíu prósent nemenda af erlendum uppruna.
Háaleitisskóli í Reykjanesbæ er einstakur skóli á landsvísu. Af um 370 nemendum skólans eru um 250 með annað móðurmál en íslensku. Það þýðir að sjö af hverjum tíu nemendum eru innflytjendur eða börn með erlendan bakgrunn. Þessi fjölbreytileiki er bæði áskorun og tækifæri.
Stærsta áskorunin er tungumálið
Unnar segir að tungumálið sé stærsti þröskuldurinn þegar nýir nemendur hefja skólagöngu.
„Allir nemendur sem eru með annað móðurmál byrja í Friðheimum, móttökudeildinni okkar, þar sem þau dvelja í tólf vikur. Þar fá þau grunn í íslensku og stefnt er að því að orðaforðinn verði um 400 orð þegar þau ganga inn í bekkina,“ útskýrir hann.
Sum börn hafa jafnvel aldrei áður gengið í skóla. „Það getur verið áskorun en með réttum stuðningi gengur þetta. Í síðustu viku bættust níu nýir nemendur í hópinn, þar af tveir frá Úkraínu,“ bætir hann við. Það eru alltaf að bætast við nýir nemendur og ekki mikil vissa með framhaldið en það helst í hendur við ástand heimsmálanna.
Í Háaleitisskóla eru töluð allt að 30 tungumál og nemendur koma frá um 40 löndum.
„Þetta er fjölbreyttur hópur og það er mikið ríkidæmi fyrir skólann,“ segir Unnar. „Þegar börnin koma úr Friðheimum fara þau í bekk en halda áfram í íslensku sem öðru máli. Það tryggir að þau haldi áfram að ná framförum í tungumálinu, á sama tíma og íslensku börnin fá að halda sínu hraða.“
Erlendir nemendur auðga námið
Að sögn skólastjórans gengur erlendum nemendum vel að tileinka sér námið.
„Stærðfræðin er alþjóðleg og gengur oft vel. Íslensk fög eins og saga og samfélagsfræði geta verið erfiðari en þar nýtum við tækni, meðal annars gervigreind, til að aðstoða við skilning.“
Unnar segir að margir erlendir nemendur hafi komið með nýja sýn og verkefni sem íslenskir nemendur hafi lært af: „Þau kynna verkefni sem við höfum aldrei séð áður – það auðgar námið fyrir alla.“
Unnar leggur áherslu á að andrúmsloftið í skólanum sé jákvætt: „Nemendur bera virðingu fyrir hvort öðru, óháð trú eða menningu. Það er ótrúlega góður andi hérna,“ segir hann.
Starfsfólkið sé lykillinn: „Það er starfsfólkið sem skapar andann og skólamenninguna. Við tölum jákvætt um skólann, um nemendur og hvort annað – og það smitar út frá sér.“
Samstarf við foreldra og samfélag
Mikilvægt er að byggja upp traust við heimilin.
„Við leggjum mikla áherslu á gott foreldrasamstarf. Ég mæti á alla foreldrafundi og þar er jafnan góð þátttaka. Við viljum að foreldrar séu virkir í að byggja upp skólastarfið með okkur,“ segir Unnar.
Hann nefnir einnig samstarf við 88 húsið og Fjörheima um félagsmiðstöðina í skólanum: „Við höfum haft opna félagsmiðstöð í frímínútum og í hádeginu. Þar hittast krakkar, spila sem dæmi billiard og fótboltaspil – og það sem er merkilegt er að enginn er með símann á lofti. Háleitisskóli er símalaus skóli og þetta er lifandi samfélag hér hjá okkur.“
Að lokum segir skólastjórinn að nálgunin skipti öllu: „Nemandi er alltaf nemandi. Ef þú nálgast hann af umhyggju og sýnir virðingu, þá færðu það sama til baka. Það er lykillinn að velgengninni í Háaleitisskóla.“
Unnar Stefán Sigurðsson, skólastjóri.
Jurgita Milleriene er aðstoðarskólastjóri Háaleitisskóla í Reykjanesbæ
Fjölbreytileikinn er daglegt líf
Jurgita Milleriene, aðstoðarskólastjóri Háaleitisskóla, flutti til Íslands frá Litháen árið 2001 eða fyrir nær aldarfjórðungi. Hún segir fjölmenninguna vera styrk skólans og að mikilvægt sé að bæði börn og foreldrar fái stuðning til að ná fótfestu í íslensku samfélagi.
Frá Litháen til Reykjanesbæjar
Jurgita er upprunnin frá Litháen en hefur nú búið lengur á Íslandi en í heimalandinu.
„Þetta er eiginlega erfið spurning – hvaðan er ég? Ég tengi mig núna meira við Ísland, en ég tengist líka heimalandinu mínu mjög vel,“ segir hún.
Hún lauk kennaranámi í bókmenntum í Litháen áður en hún flutti til Íslands árið 2001. Hér nam hún leikskólakennarafræði og síðar íslensku sem annað mál. „Ég hef lært mikið og lengi, bæði hér og heima. Ég starfaði sem skólastjóri í Litháen og vann með menntamálaráðuneytinu þar. Þannig að ég kem inn með reynslu úr tveimur skólakerfum.“
Það er enn óalgengt að fólk með erlendan bakgrunn sé í stjórnunarstöðum í íslenskum skólum. Jurgita segir það þó vera mikilvæg þróun:
„Það er mjög hvetjandi að fleiri fái tækifæri til að vera í þessum stöðum, að koma með sína sýn úr ólíkum menningar- og menntunarheimum. Ég get boðið upp á margt sem nýtist bæði nemendum og kennurum.“
Tungumálin opna dyr
Í Háaleitisskóla eru margir nemendur frá Austur-Evrópu og fleiri löndum. Þar nýtist Jurgitu tungumálakunnátta vel.
„Ég tala pólsku, rússnesku og litháísku og get því talað við marga nemendur á þeirra eigin tungumáli. Það er rosalega skemmtilegt og skapar strax tengsl.“
Jurgita segir að það sé sérstakt að kenna í skóla þar sem flestir eru aðfluttir.
„Nemendurnir hér eru svo þakklátir fyrir allt sem gert er fyrir þau. Margir kennarar sem hafa starfað í öðrum skólum segja að það sé auðveldara að ná til barnanna hér. Þau kunna að meta það sem þau fá – hvort sem þau eru íslensk eða erlenda uppruna.“
Þar sem allir nemendur í raun eru aðfluttir, hvort sem þeir koma erlendis frá eða frá öðrum landshlutum, verður enginn utangarðs. „Það er enginn fæddur hér á Ásbrú, allir eru aðfluttir og velkomnir. Krakkarnir eru fljótir að taka á móti nýjum bekkjarfélögum og hafa lært að umgangast fjölbreytileika af eðlilegu næmi.“
Aðspurð um helstu áskoranir í starfinu segir Jurgita að þær snúist ekki eingöngu um tungumál: „Tungumál er hægt að vinna með. Það sem getur verið erfiðara eru bakgrunnsaðstæður barnanna, fjölskyldumál, skilnaður eða félagslegar aðstæður. Þessu þarf að taka á og styðja börnin í gegnum slíkt. En við erum rosalega vel þjálfuð í því að halda utan um nemendur, og við getum tekið á hverju sem er.“
Samstarf við foreldra lykilatriði
Hún bendir á að viðhorf foreldra ráði miklu um tungumálanám barnanna. „Stundum tala foreldrar alltaf sínu eigin tungumáli við börnin og tala um að vera á leiðinni heim til heimalandsins og leggja lítið upp úr íslenskunni. Þá verða börnin tregari til að læra. Þannig getur það gerst að fólk hafi búið hér í tíu ár eða meira og börnin eru samt ekki orðin góð í íslensku. Þá eru tækifærin tekin frá þeim.“
Til að bregðast við þessu er nýtt verkefni að hefjast í Háaleitisskóla. „Við ætlum að fá foreldra meira inn í skólakerfið, kynna þeim hvernig það virkar og fá þau til að styðja börnin sín betur. Þetta er verkefni fyrir alla – líka íslenska foreldra.“
Lífið á Íslandi
Jurgitu segist líða vel á Íslandi og hafi frá upphafi fengið góðar móttökur. „Ég hef aldrei orðið fyrir fordómum. Það er líka spurning um hvernig þú kemur inn í samfélagið og hvaða viðhorf þú berð með þér. Mér hefur alltaf liðið vel og Ísland er orðið mitt heimili.“
Hún segir að íslenskan hafi ekki reynst sér sérstaklega erfið. „Litháíska er eitt elsta og flóknasta tungumál heims. Mér fannst íslenskan auðveldari en stærðfræðin!“ segir hún og hlær.
Að lokum dregur Jurgita saman reynslu sína: „Ef þú ert aðfluttur, hvort sem þú ert Íslendingur eða kemur frá útlöndum, þá er Háaleitisskóli besti staðurinn til að vera. Hér eru allir velkomnir, hér er fjölbreytileiki daglegt líf, og hér lærum við öll að umgangast hvort annað af virðingu.“
Unnar og Jurgita á spjalli við Heiðu Mjöll Brynjardóttur, umsjónarmanns Ljósheima, en það er aðsetur fyrir einhverfa nemendur.
„Markmiðið er að nemendum líði vel og komist aftur í bekkinn“
Vellíðunarverið Jötunheimar hefur reynst mjög vel í Háaleitisskóla
Í Háaleitisskóla er rekið svokallað vellíðunarver, sem áður hét Jötunheimar. Það hefur starfað frá árinu 2009 og er líklega elsta úrræðið innan skólans á Ásbrú. Þar fá nemendur tímabundinn stuðning við nám og líðan, með það að markmiði að komast aftur til baka í bekkinn.
Ragnar Steinarsson hefur tengst vellíðunarverinu frá opnun þess árið 2013 og var umsjónarmaður þess í mörg ár. Hann segir að hugmyndin hafi verið sú að skapa nemendum rými til að fá aðstoð við bæði nám og líðan þegar á reynir.
„Það kemur alltaf ýmislegt upp í hverjum skóla, það er bara lífið,“ segir hann. „Þá er gott að hafa stað þar sem hægt er að mæta börnunum á þeirra forsendum.“
Nemendur dvelja að jafnaði í verinu hluta úr viku. „Þetta eru ákveðnir tímar í aðalfögum eins og íslensku, stærðfræði og fleira. Svo blandast þetta saman við önnur fög. Við reynum að hafa þetta skammtímalausn, þetta er ekki hugsað til langs tíma fyrir hvern og einn, heldur stuðningur.“
Á árum áður var algengt að börn sem áttu erfitt í skóla voru send í svokallaðan „skammarkrók“. Ragnar leggur áherslu á að þetta sé allt annað.
„Þetta er löngu liðin tíð. Vellíðunarverið er ekki refsing heldur stuðningur. Nemendur koma hingað bæði til að læra og til að fá rými til að líða betur. Það skiptir öllu máli að þeim líði vel í skólanum.“
Hann segir reynsluna sýna að úrræðið virki vel. „Krökkunum líður mjög vel hér og þau vilja oft síst fara héðan. Það segir okkur margt gott.“
Í verinu er lögð áhersla á einstaklingskennslu og jákvætt andrúmsloft.
„Markmiðið er að mæta þeim þar sem þau eru í náminu,“ útskýrir Ragnar. „Smátt og smátt komast þau svo aftur alfarið inn í bekkinn. Það er aðalatriðið.“
Hann segir að fjölbreytileiki nemendahópsins í Háaleitisskóla sé áskorun en jafnframt styrkur. „Við erum með ótrúlega gott starfsfólk sem er tilbúið að teygja sig ansi langt. Fjölbreytnin er mikil en starfsmenn taka því af mikilli jákvæðni og fyrir það erum við afar þakklát.“
Upphaf úrræðisins má rekja til hennar Siffu, Sigfríðar Sigurðardóttur, sem kom hugmyndinni á koppinn og byggði upp með góðum árangri. Ragnar tók svo við keflinu árið 2013.
„Þetta hefur gengið mjög vel í gegnum árin. Nemendur vilja yfirleitt ekki fara úr verinu – og það er eiginlega besta sönnunin fyrir því að starfið hafi gildi fyrir börnin,“ segir Ragnar.
Stormur F. Hauksson Linn og Sunneva Kara M. Matthíasdóttir eru í forsvari fyrir nemendur í félagslífinu. Þau segja samskiptin meðal nemenda til fyrirmyndar og andann góðan í skólanum.
„Krakkarnir þurfa að hafa eitthvað að gera“
Jón Ragnar Magnússon er forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar í Háaleitisskóla
Félagsmiðstöðin í Háaleitisskóla er tiltölulega ný stofnun, en á örfáum árum hefur hún skapað sér mikilvægan sess í daglegu lífi nemenda. Þar hefur tekist að efla félagslíf, draga úr agavandamálum og skapa vettvang fyrir börn og unglinga með ólíkan bakgrunn til að hittast, spila og tala saman. Jón Ragnar Magnússon, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar, segir starfið hafa gengið vonum framar.
Upphafið má rekja nokkur ár aftur í tímann þegar í ljós kom að börn á Ásbrú tóku síður þátt í hefðbundnu tómstunda- og íþróttastarfi í Reykjanesbæ.
„Þá tóku skólastjórinn Friðþjófur Helgi og deildarstjórinn Raggi Steinars mig tali og við ákváðum að búa til félagsmiðstöð upp úr engu,“ rifjar Jón upp.
Hann segir að sú ákvörðun hafi fljótt borið árangur. „Krakkarnir fóru að skila sér betur, bæði í félagsmiðstöðvar í Keflavík eins og Fjörheima, og inn í íþróttastarfið. Það varð miklu auðveldara að nálgast þau.“
Í fyrra var stigið stærra skref þegar ákveðið var að gera félagsmiðstöðina að opinberri stofnun innan Háaleitisskóla og Jón var ráðinn sem deildarstjóri. „Við erum núna að fá 20–25 krakka reglulega, bæði á miðstigi og unglingastigi. Það hefur gengið svo vel að sambærilegt starf hefur verið opnað í Akurskóla og Stapaskóla í Innri-Njarðvík.“
Starfið fer ekki eingöngu fram á kvöldin heldur einnig í frímínútum og hádegishléum. Þar hefur það haft sýnileg áhrif á skólabraginn.
„Eftir að við byrjuðum með þetta hefur agavandamálum fækkað mikið. Það er minna um skemmdir á göngum og starfsfólk hefur tekið eftir jákvæðara viðhorfi hjá krökkunum,“ segir Jón.
Það snýst einfaldlega um að hafa eitthvað að gera. „Stundum þarf ekki meira en spilastokk eða borðspil. Núna er gríðarlegur áhugi á borðtennis, það er oft röð krakka sem vilja spila. Ég er alltaf til í að taka leik við þau.“
Í Háaleitisskóla eru fjölmörg tungumál töluð, en Jón segir félagsstarfið hjálpa mikið til.
„Bara það að krakkarnir fari í leiki eða spili saman hjálpar þeim að tala íslensku og eiga samskipti. Ég reyni líka að blanda saman hópum úr ólíkum menningarheimum. Oft tala þau miklu meiri íslensku í félagsmiðstöðinni en í skólastofunni – það er bara mann á mann samskipti sem skipta máli.“
Jón segir að góð samvinna við stjórnendur skólans og bæjaryfirvöld hafi skipt sköpum.
„Við njótum mikils stuðnings frá bæjarfélaginu, skólanum og tómstundastarfi í heild. Það er algjört lykilatriði að skólinn, bæjarfélagið og félagsstarfið vinni saman.“
Að hans mati er kjarni starfsins einfaldur: að gefa krökkunum eitthvað uppbyggilegt að gera.
„Um leið og þau sjá að það er eitthvað annað í boði, þá eru þau ekkert að leita í símann. Það er bara það sem skiptir öllu máli.“
Jón Ragnar forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar.