Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Fréttir

Birna Óladóttir látin
Föstudagur 26. september 2025 kl. 13:40

Birna Óladóttir látin

Birna Óladóttir, húsmóðir og virkur þátttakandi í félagslífi Grindavíkur um áratugaskeið, lést þriðjudaginn 23. september síðastliðinn á Hrafnistu Nesvöllum í Reykjanesbæ, 84 ára að aldri.

Birna fæddist í Grímsey 12. júlí 1941, dóttir hjónanna Óla Bjarnasonar og Elínar Þóru Sigurbjörnsdóttur. Eftir grunnskóla lauk hún gagnfræðaprófi frá Laugum í Reykjadal og stefndi að námi í Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni. Til þess að fjármagna námið fór hún á vertíð til Grindavíkur aðeins 17 ára gömul, þar sem hún kynntist tilvonandi eiginmanni sínum, Dagbjarti Einarssyni.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Saman settust þau að í Grindavík og stofnuðu árið 1965 útgerðarfélagið Fiskanes hf., ásamt fleiri hjónum. Fyrirtækið varð síðar stórtækt í útgerð og fiskvinnslu í bænum. Birna var prókúruhafi fyrirtækisins fyrstu árin og sinnti gjaldkerastörfum meðan eiginmaður hennar var til sjós.

Þrátt fyrir að sinna stórum heimili og störfum innan fyrirtækisins gaf Birna sig óeigingjarnt að margvíslegum félagsstörfum. Hún gekk ung í Kvenfélag Grindavíkur árið 1959 og sat síðar í stjórn félagsins í 17 ár, þar af níu ár sem formaður. Árið 2013 var hún útnefnd heiðursfélagi kvenfélagsins. Þá starfaði hún einnig með Rauða krossinum í Grindavík og kom að stofnun öldrunarheimilisins Víðihlíðar, þar sem hún bjó síðustu ár sín.

Birna var í Víðihlíð þegar Grindavíkurbær var rýmd í kjölfar jarðskjálftahrinunnar í nóvember 2023, en hluti heimilisins skemmdist í skjálftunum.

Æskuheimili hennar í Grímsey skipti Birnu miklu máli og árið 2004 keypti hún húsið aftur og gerði það upp. Saga Birnu og eiginmannsins Dagbjarts var sögð í bókinni Það liggur í loftinu eftir Jónas Jónasson sem kom út árið 2009. Dagbjartur lést árið 2017.

Birna lætur eftir sig fimm börn: Einar, Elínu Þóru, Eirík Óla, Jón Gauta og Sigurbjörn Daða. Barnabörnin eru 18 talsins og barnabarnabörnin einnig 18.

Útför Birnu fer fram frá Grindavíkurkirkju föstudaginn 10. október kl. 15.00.

Safnahelgi 2025
Safnahelgi 2025