Neðri mörkum kvikumagns í Svartengi náð
Auknar líkur eru á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi frá og með næstu helgi. Þegar atburðir sem hafa orðið á Sundhnúksgígaröðinni síðan í desember 2023 eru skoðaðir kemur í ljós að magn kviku sem þarf að safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi áður en kvikuhlaup eða gos hefst getur verið mismikið.
Greining fyrri atburða hefur gert Veðurstofunni kleift að áætla á hvað bili rúmmál kvikusöfnunar liggur til að koma af stað næsta kvikuhlaupi eða eldgosi.
Með líkanreikningum, sem byggja á aflögunarmælingum, er hægt að áætla hvenær þessu kvikumagni verður náð, ásamt óvissu í útreikningunum, að því gefnu að hraði kvikusöfnunar haldist óbreyttur.
-
Neðri mörk: 11 milljón rúmmetrar verður náð 27. september
-
Efri mörk: 23 milljónir rúmmetra verður náð í kringum 18. desember
Þegar neðri mörkum hefur verið náð telst svæðið komið inn í tímabil þar sem auknar líkur eru á kvikuhlaupi eða gosi á Sundhnúksgígaröðinni. Tímabilið spannar hátt í þrjá mánuði og gos getur hafist hvenær sem er á tímabilinu.
Líkt og í fyrri atburðum verður gefin út sérstök viðvörun um leið og mælingar benda skýrt til kvikuhlaups. Ef til eldgoss kæmi er líklegasti upptakastaðurinn áfram talinn vera á milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells.
Af þessum ástæðum hefur Veðurstofan ákveðið að hækka viðvörunarstig fyrir Reykjanes–Svartsengi úr VALS=1 í VALS=2 (Volcanic Alert Level System). Í kjölfarið hefur hættumat fyrir svæðið verið endurmetið og hækkað, og nýtt hættumatskort gefið út.