Fiskiveisla þegar Rúnar Marvins fagnaði áttatíu ára afmæli
Sandgerðingurinn Ögmundur Rúnar Marvinsson fagnaði áttatíu ára afmæli sínu í gær á Hellissandi með fjölskyldu sinni, börnum og systkinum og fjölda vina en á annað hundrað manns heiðruðu kappann á þessum tímamótum.
Að sjálfsögðu var gestum boðið í alvöru fiskiveislu en börnin hans eru öll kokkar og hjálpuðu til við matreiðsluna.
Rúnar varð landsfrægur kokkur á níunda áratug síðustu aldar og hefur alla tíð síðan verið með annan fótinn í eldhúsinu og hendur við potta og pönnur. Rúnar sem var sjómaður ungur að árum og ómenntaður matreiðslumaður eldaði fisk á nýstárlegan hátt og var óhræddur við að bjóða fisktegundir sem höfðu ekki sést á á diskum veitingahúsa á þeim tíma. Hann varð t.d. frægur fyrir að bjóða upp á marineraðar gellur en líka margt annað á veitingastaðnum Við Tjörnina í Reykjavík sem hann og Logi Þormóðsson, vinur hans ráku í mörg ár.
Landsfrægð Rúnars hófst í raun þegar hann eldaði á Hótel Búðum í kringum 1985 eftir heimsókn tveggja landskunnra blaðamanna Morgunblaðsins og DV. Þeir skrifuðu um fiskinn hans Rúnars á Búðum og allt varð vitlaust. Landsmenn vildu fara og smakka sem þeir og gerðu.
Víkurfréttir ræddu við Rúnar í jólablaðinu 1985 þar sem hann er spurður út í það hvernig leiðir hans lágu inn í eldhús en hann byrjaði að bardúsa um borð í bát án þess að kunna nokkuð fyrir sér og var ekki vinsæll í byrjun hjá skipstjóranum.
Hér er lítið brot úr viðtalinu en hér er það í heild á timarit.is og einnig neðar í fréttinni.
Leiðist kjöt
„Já, ég hef lagt fyrir mig sérstakan stíl, ákveðna matargerð, getum við sagt. Er mjög hrifinn af fisk og hér er auðvelt að fá ferskan fisk. Bæði veiðum við hann sjálfir og svo er auðvelt að fá nýjan fisk frá Ólafsvík og Grundarfirði. Við fáum mikið af fiski þaðan. Nú, svo hefur áhugi minn fyrir grænmetisfæði aukist mikið. En ég verð þeirri stund fegnastur þegar ég hætti að elda kjöt. Mér leiðist kjöt, mér finnst við ekki þurfa að éta kjöt.“
En eldar samt kjöt?
„Já, ég elda auðvitað hvað sem er.“
Rúnar var m.a. spurður í viðtalinu hvort hann ætlaði að skrifa matreiðslubók. Það gerði hann mörgum árum síðar en 2008 gaf hann út bókina Náttúran sér um sína en hún var samstarfsverkefni Rúnars og Áslaugar Snorradóttur ljósmyndara sem myndskreytti hana með glæsilegum ljósmyndum.
Rúnar með börnum sínum, f.v.: Jenný, Sumarliði, Rúnar, Gunnar Páll, Laufar og Kristín.
Rúnar með nokkrum systkina sinna, f.v. Rúnar, Árnína Guðbjörg (Nína), Sólborg, Margrét og Ingimar.
Rúnar og Margrét systir hans en hún er eiginkona Guðbrandar Einarssonar, þingmanns úr Keflavík.