Kajakræðari í vandræðum í sjónum við Keflavíkurhöfn
Kajakræðari lenti í vandræðum í sjónum við Keflavíkurhöfn sl. sunnudagskvöld. Maðurinn hvolfdi kajaknum þegar hann var kominn aðeins út fyrir bryggjuendann og náði ekki að komast í kajakinn aftur eftir að hafa lent í sjónum.
Maðurinn var í blautbúningi að sögn vitna og náði hann eftir nokkra stund að synda að grjótgarðinum við landið þar sem lögreglumenn náðu að aðstoða hann við að komast í land.
Lögreglan var kölluð til og eins sjúkrabílar. Manninum varð ekki meint af eftir volkið.