Ferðaþjónustan komin á fullan skrið í Grindavík á nýjan leik
„Ég myndi segja að allt sé komið í fyrra horf, það er góður straumur ferðafólks í Grindavík á nýjan leik og það er jákvætt,“ segir Þormar Jón Ómarsson, annar eigenda Papas pizza í Grindavík. Þormar var eins og aðrir rekstraraðilar í Grindavík og þá sérstaklega þeir sem reiða sig á komur ferðafólks, ósáttur við lokun Grindavíkurbæjar í tæpa tvo sólarhringa eftir að síðasta eldgos hófst.
Þormar vill að allir sitji við sama borðið.
„Ég á erfitt með að sætta mig við að það gildi aðrar reglur hinum megin við Þorbjörn. Það var mun meiri hætta á gasmengun fyrir gesti Bláa lónsins en fyrir ferðafólk að vera inni í Grindavík, samt mátti ganga að eldgosinu og þess vegna að baða sig í Bláa lóninu á eftir en það mátti ekki vera í Grindavík. Vonandi sjá allir að nú er ég ekki að tala á móti Bláa lóninu, ég vil svo sannarlega að það sé opið þar en vil bara að fá að sitja við sama borð. Ég hef séð áhættumatið og þar kom fram að engar forsendur voru fyrir lokun í Grindavík og því hlýt ég að áætla að nýjum lögreglustjóra hafi einfaldlega orðið á mistök. Vonandi sér hún það og þegar svona staða kemur upp aftur, lærði hún af mistökunum svo þau endurtaki sig ekki. Það er nóg komið af þrætum og leiðindum varðandi málefni Grindavíkur, nú er kominn tími til að snúa bökum saman og vinna hlutina saman. Vonandi munu yfirvöld koma með nýjan tón núna og uppbygging geti hafist í Grindavík sem fyrst,“ sagði Þormar.