Komst inn á lokað flughlað Keflavíkurflugvallar og ók nærri flugvél á stolnum bíl
Alvarlegt atvik varð á Keflavíkurflugvelli í gær þegar maður komst inn á austurhlið vallarsvæðisins eftir að hafa farið yfir öryggishlið. Starfsmenn á flugvellinum sáu manninn ganga yfir flugbraut. Maðurinn tók bíl frá Isavia á bílastæði nálægt flugturninum ófrjálsri hendi, ók um flughlaðið og flugbrautir og var nálægt því að keyra á flugvél frá SAS sem var að fara að taka á loft.
Hann ók svo bílnum út af svæðinu í gegnum „Gullna hliðið“ sem er öryggis- og aðganshlið en var svo stöðvaður og handtekinn af lögreglu í eftirför sem náði honum við Grindavíkurafleggjarann á Reykjanesbraut.
Maðurinn er nú í haldi lögreglu og farið verði fram á gæsluvarðhald.
Isavia segir í stuttri tilkynningu líta málið mjög alvarlegum augum en það var tilkynnt til Samgöngustofu. Isavia segir að gerðar hafi verið ráðstafanir til þess að svona atvik geti ekki gerst aftur.
Ómar Mehmet Annisius, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum, segir lögreglu líta málið mjög alvarlegum augum og atvikið sé með þeim alvarlegri sem hafi gerst á flugvellinum er snúa að flugvernd.