Maggi á Réttinum söng fyrir Færeyingana
Hópur ungs knattspyrnufólks frá Færeyjum, n.t. Suðurey, er staddur á Íslandi og er aðal tilgangur ferðarinnar að keppa á Reycup í Reykjavík. Hópurinn mun dvelja í Sandgerði á meðan dvölinni stendur og að sjálfsögðu verður m.a. borðað hjá Sandgerðingnum Magnúsi Þórissyni á Réttinum. Maggi tók auðvitað höfðinglega á móti Færeyingunum og ekki nóg með að hópurinn hafi sporðrennt ljúfengum fiski og öðru góðmeti, heldur tók Maggi líka lagið fyrir hópinn. Bæði var talið í hið þekkta lag Upplyftingar, Traustur vinur, og hið vinsæla færeyska lag, Kenna tit Rasmus.

Einn þjálfara Færeyinganna er Finn Johannessen.
„Liðið okkar heitir FC Suðurey, er annað tveggja liða á þessari eyju sem tilheyrir Færeyjum. Það búa um fimm þúsund manns á allri Suðurey en um tvö þúsund í þeim hluta sem við búum. Krakkarnir sem eru að fara keppa eru á aldrinum fimmtán til sautján ára og er mikil tilhlökkun í hópnum en það eru 52 sem eru að fara keppa og svo erum við nokkrir fullorðnir sem erum að að þjálfa og eru fararstjórar. Við erum að taka þátt á Reycup í fyrsta skipti en við höfum farið til Danmerkur að keppa. Við munum gista í samkomuhúsinu í Sandgerði, munum grilla með jafnöldrum krakkanna í Sandgerði á morgun og fara í skoðunarferðir um Suðurnes en mótið hefst svo á miðvikudag. Við hlökkum mikið til þessara daga á Íslandi og ætlum að sjálfsögðu að standa okkur vel á mótinu,“ sagði Finn.