Skötumessan er að bresta á
Enn á ný verður Skötumessan í Garði haldinn í tilefni Þorláksmessu að sumri, að þessu sinni miðvikudaginn 23. júlí nk. kl. 19, á sal Gerðaskóla í Garði. Að venju verður viðamikil en hefðbundin dagskrá í boði.
Þeir félagar Dói og Baldvin taka á móti gestum með harmonikkum og söng, en samkvæmt hefð þá stígur Páll Rúnar Pálsson frá Heiði í Mýrdal fyrstur á svið. Þá mun hvert atriðið reka annað, Hlynur Snær og Kristján Magnússon flytja nokkur lög, Hlynur Snær er landsþekktur tónlistarmaður eftir framkomu sína í Landanum sumarið 2024 og Kristján hefur fengið leiðsögn í söng og er mikil tilhlökkun í að heyra í honum og þeim félögum.
Ræðumaður kvöldsins verður Steindór Gunnlaugsson forstjóri Dynjanda, en hann og fyrirtæki hans hafa stutt Skötumessuna árum saman og látið af hendi rakna til samfélag fatlaðra á Suðurnesjum og þá sérstaklega Dósasel sem notið hafa stuðnings verslunarinnar Dynjandi.
Á kvöldinu munu fulltrúar stofnana og einstakling taka á móti veglegur styrkjum til skjólstæðinga Skötumessunnar, en að baki standa allir gestir kvöldsins og stuðningsaðilar.
Þegar afhendingu styrkja verður lokið munu bræðurnir Eiríkur Óli og Sigurbjörn Dagbjartssynir ásamt Gísla Helgasyni flautuleikara taka nokkur lög og gestir syngja sig inn í sólsetrið við Faxaflóa.
Mögnuð samkoma
Skötumessan í Garði hefur notið vinsælda í tæpa tvo áratugi og sterkur kjarni fólks sækir skemmtunina á hverju ári. „Við hvetjum Suðurnesjamenn, konur og karla til að fjölmenna á þessa einu þekktustu skemmtun sem haldin er á Suðurnesjum ár hvert. Stuðningur við verkefni Skötumessunnar sýnir styrk og fegurð samfélagsins sem við búum í. Á Þorláksmessu að sumri er borin fram skata, saltfiskur, plokkfiskur, kartöflur, rófur, rúgbrauð og hamsatólg, allt framreitt af okkar fólki. Við erum þakklát öllum þeim sem lagt hafa okkur lið í skemmri eða lengri tíma á umliðnum árum. Nú standa við bakið á Skötumessunni bræður í Oddfellowstúkunni Jóni forseta og leggja þeir fram sterkan hóp sem ætlar sér að hleypa nýju blóði og kraft í starfið og styðja okkur öll til góðra verka,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum.
Tryggjum okkur miða
Fastagestir okkar þekkja fyrirkomulagið en forsala aðgöngumiða fer fram á netinu, en miðinn kostar 8000 krónur. Greiðslan er lögð inn á reikning Skötuveislunnar, 0142-05-70506, kt. 580711-0650. Gestir gefa upp nafn greiðanda við innganginn eða prenta út kvittun sem gildir sem aðgöngumiði. Það er mikilvægt að tryggja sér miða sem fyrst því síðust ár hefur verið uppselt á Skötumessuna nokkrum dögum áður.
Skötumessan er bræðralag í verki og helstu stuðningsaðilar hennar eru Suðurnesjabær, Fiskmarkaður Suðurnesja, Icelandair Cargo, Brim, Skólamatur, Fiskbúð Reykjanes, Vísir Grindavík, IKEA, kartöfluræktendur á Forsæti og fleiri.
Skötumessan í Garði.